„Til Grikklands?“ spurðu menn með vantrú í röddinni. „Hvað ertu að gera þangað?“
„Þangað verða allir að fara sem unna vestrænni menningu. Hefurðu ekki lesið Grikklandsárið eftir Halldór Laxness?“
„Jú, og ef þú hefðir lesið það vissirðu að hann fór aldrei.“
Það þýðir ekkert að ræða um menningu við mína vini og kunningja þannig að ég skipti um svar:
„Ég er að fara þangað til þess að kynna mér kosti Evrópusambandsins.“ Þetta gúteruðu allir með bros á vör.
Nú vorum við á leið til London með lággjaldaflugi og ég bara nokkuð ánægður með lífið. Þurfti að vísu að vakna fyrir allar aldir sem ég hefði aldrei gert hjálparlaust, en Vigdís bjargaði mér frá stórslysi eins og fyrri daginn. Hjónaband er alveg stórsnjöll uppfinning, eftir það þarf maður aldrei að hugsa sjálfstætt eða bera ábyrgð á neinu.
Ég get þó hrósað mér af því að eiga hugmyndina að þessari ferð. Grikkland hefur heillað mig frá unga aldri, en þangað hafði leiðin aldrei fyrr legið. Vagga heimspeki og lýðræðis, heimkynni Aþenu og Seifs, staðurinn þar sem maður fer á eftirlaun fimmtugur og heldur þeim út yfir gröf og dauða.
Með í ferðinni voru nokkrir hressir fírar í golfferð. Golfferð er þannig að maður byrjar á brjóstbirtunni í leigubílnum á leiðinni, heldur áfram í flugstöðinni og kemst svo í náið samband við flugfreyjuna til þess að tryggja að stuðið haldi áfram. Ekki kannaðist ég við þessa menn, en þeir voru greinilega í mjög menningarlegum leik, héldu á blaði með myndum af einhverju fólki sem þeir áttu að þekkja.
Í flugvél er ekki hægt að svindla með aðstoð Gúgúls, amk ekki í lággjaldaflugi. En þeir könnuðust við mig og töldu að ég hlyti að hjálpa þeim fyrst ég væri á leiðinni í framboð. Þannig að þeir laumuðust til mín einn og einn í senn. Sá eini sem ég þekkti var Jósep Stalín á unga aldri. Leikkonurnar þekkti ég ekki. Datt helst í hug Shirley Temple, en hún var víst ekki með á blaðinu. Vigdís hefði auðvitað þekkt þær, en það hefði verið svindl að spyrja hana, svipað eins og að gúgla svarið.
Þeir leið á flugið kom einn þeirra gangandi og spurði: „Hvar er Pétur?“
„Nú eru þeir farnir í feluleik“, hugsaði ég, en hef ekki hugmynd um hvort Pétur er fundinn enn eða hvar hann gæti hafa falið sig.
Dvölin í London var tíðindalítil. Samt fannst mér það svolítið fyndið að inni á einhverjum portúgölskum veitingastað sem við duttum inn á af tilviljun skyldi sitja stúlka á næsta borði sem talaði í síma allan tímann. Á íslensku. Svona er nú heimurinn lítill. Hún var að koma frá Portúgal.
Easy Jet er líklega mjög ódýrt flugfélag. Að minnsta kosti er þrengra á milli sætanna þar en hjá íslenska afsláttarfirmanu. Við sátum hjá einhverri ungri grískri konu. Þær voru hver annarri líkar, með dökka húð og bogin nef. Önnur slík sat fyrir framan mig.
Ég lygndi aftur augunum, en þegar ég opnaði þau aftur var greinilega eitthvað um að vera. Flugfreyjan var að tala við tvær konur sem sátu fyrir framan okkur. Ef einhver man eftir hestakerlingunum sem oft gengu um Langholts- og Vogahverfið, þá var þetta gríska útgáfan af þeim. Nema bara afskaplega fýlulegar, en mig minnir að hestakerlingarnar sem við kölluðum svo hafi verið brosandi. Milli sætanna voru tvær ferðatöskur. Flugfreyjan sagði aftur og aftur, afar kurteislega, að í hólfin fyrir ofan sætin hefðu stórar töskur forgang. Kerlingin sem hafði orð fyrir þeim systrum sagði hins vegar að hún hefði borgað fyrir sitt sæti og þar með hólfið fyrir ofan.
Hún hafði sem sé tekið tvær töskur út úr „sínu“ hólfi og sett þær í gangveginn. Svo komu þær systur sínum tuðrum fyrir þarna uppi. Rökræðurnar gengu álíka vel og á Alþingi og enginn færðist nær lausn, fyrr en yfirflugfreyjan bauðst til þess að fjarlægja tuðrurnar og eigendur þeirra úr vélinni. Afar kurteislega reyndar. Skipt var um töskur í hólfinu og kerlingarnar fengu sínar stóru töskur til þess að setja undir sætið fyrir framan.
Ekki var flugfreyjan fyrr farin er leikurinn snerist við, kerlingin opnaði hólfið með sína tösku. Allan tímann voru flugfreyjurnar hinar rólegustu og ef einhvern vantar reiði-þjálfara (sem hjálpar mönnum að hemja reiði sína), þá get ég mælt með þessum stúlkum (og reyndar kerlingunum til þess að sjá hvað menn þola).
Málið leystist ekki fyrr en miskunnsamur Samverji fórnaði sínu fótaplássi og kerlingarnar höfðu sigur. Flugvélin renndi af stað og það var eins og við manninn mælt. Fremri kerlingin losaði beltið, stökk á fætur og opnaði hólfið til þess að ná í eitthvað í töskuna.
Á endanum kláraðist þetta allt og við stóðum okkur betur en Laxness og komumst til Grikklands.
Vigdís hafði orð á því að fjöllin væru ekki ósvipuð því sem væri í Suður-Frakklandi og ég sagði að það væri ekki skrítið. Þetta væri allt samræmt í Brussel. „Svona verður þetta heima eftir nokkur ár.“ Hún lét sér það vel líka.
Leigubílstjórinn fór undan í flæmingi þegar ég spurði hann hvernig gengi. Hann sagði okkur að Grikkir hefðu kosið nýja ríkisstjórn fyrir þremur mánuðum til þess að koma hlutunum í lag. Ég hélt áfram að spyrja, en hann sagði bara: „Við sjáum til.“
Svo datt honum allt í einu eitthvað í hug og spurði glaðhlakkalega: „Hvernig er ástandið á Íslandi?“ Mér vafðist tunga um tönn og svaraði svo: „Það er kalt.“
Hann hló og lyfti hendinni og nuggaði saman fingrum. Ég svaraði: „Við sjáum til.“
Hótel Hera er á besta stað í bænum. Lítið en snyrtilegt hótel, rétt hjá Akrópólis-safninu nýja. Við vorum varla stigin út í kvöldgöngu þegar maður stoppaði okkur og spurði hvort við vildum ekki borða á veitingastaðnum hans. Ekki leist okkur á það, en honum leist svona ljómandi vel á okkur, ekki síst þegar í ljós kom að við verum frá Íslandi. Hann taldi upp fjölmarga íslenska fótboltamenn og í hvaða liðum þeir hafa leikið. Þegar hann vissi að Gylfi Þór hefði leikið með Tottenham ákvað ég að þessum manni þyrftum við að kynnast betur og matnum hans. Fótbolti og matargerðarlist eru ekki endilega góð blanda.
Fyrst urðum við samt að sjá Akrópólis, hæðina sem ég hafði beðið spenntur eftir að sjá í meira en hálfa öld. Svo blasti hún við og tilganginum með ferðinni var náð á fyrsta kvöldi.
Daginn eftir röltum við af stað upp hæðina. Það er skemmtilegur göngutúr. Við stigum fyrstu skrefin á Miðaldabrautinni.
„Þetta er leið Framsóknarmanna,“ sagði ég en við létum okkur hafa það í þetta eina sinn, en hún var hvorki löng né skemmtileg.
Fljótlega vorum við á Guðs vegum (Holy trail hét hann á ensku) og þar var margt að sjá. Þar var meðal annars altari frjósemisguðanna Afródítu og Erosar.
„Það er orðið allt of seint fyrir okkur“, sögðum við í kór og slepptum þeim króki.
Á leiðinni eru tvö hringleikahús í hlíðinni, en þeim hefur ekki verið vel við haldið síðan þeir Sókrates og Plató gengu hér um grundir.
Loks komumst við alla leið. Það fyrsta sem blasti við var byggingarkrani sem virtist ekki vara frá dögum lýðveldisins forna. Skilti sagði okkur að viðhaldsverkefni hefði verið lokið árið 2004. „Þeir eiga bara eftir að fjarlægja kranann,“ hugsaði ég. Allt tekur sinn tíma. Það er ekki nema von að þeir séu ekki búnir að semja við lánardrottnana. Þeir vilja bara vanda sig vel.
Meyjarhofið er eitt af mannvirkjunum sem mig hefur alltaf langað til að sjá og komast í. Í hvert skipti bíð ég spenntur eins og barn eftir því að draumurinn rætist.
Í fyrsta skipti var þetta Sívaliturn í Kaupmannahöfn, en það var í fyrsta sinn sem ég komst til útlanda. Svo fórum við Vigdís til New York í Empire State bygginguna og Frelsisstyttuna. Það var einhvern veginn meira spennandi en Tvíburaturnarnir sem ég fór upp í báða. Effelturninn, Kólóseum, Kínamúrinn, Taj Mahal komast öll í þennan flokk. Ég hef ekki séð píramídana í Kaíró, en við klifum píramída sólarinnar í Mexíkó, en hann nær ekki í fyrsta flokk.
Mikið vildi ég að ég myndi meira af því sem ég lærði í þriðja bekk í Menntaskólanum. Svo hugsaði ég að einhverjum snjöllum sögumanni hefðu dottið í hug alls kyns sögur um Kentára, Aþenu sem stökk á fullum herklæðum úr höfði Seifs og annars konar speki. Að fólk skyldi hafa fallið fyrir sögum sem greinilega væru skrifaðar af mönnum á ofskynjunarlyfjum. Þetta hefði auðvitað bara gerst í gamla daga.
Svo mundi ég hvenær sköpunargleðin var mest hjá Bítlunum og hætti að hugsa á þessum nótum.
Allir kaflar í Grikklandssögunni: