Við gerum okkar besta

„Þetta er ljóta ástandið.“ Ég sá konu sópa snjó af bílnum sínum, renndi niður bílrúðunni og við kölluðumst á. Gættum þess vandlega að engar veirur gætu flogið á milli okkar. Við vorum sammála um að verst er að ástandið á eftir að versna, áður en það batnar.

Þjóðin veit ekki almennilega hvernig hún á að láta. Í fyrstu kom grínið upp hjá sumum. Ég fór til rakara um daginn og var að hugsa um að segja við hann: „Nei, nei, nei, tveggja metra fjarlægð takk.“ Svo hugsaði ég að hann ætti það ekki skilið að þurfa að heyra sama brandarann aftur og aftur í eilítið mismunandi útgáfum og hélt aftur af mér, aldrei þessu vant. Um kvöldið sá ég að kunningi minn var með þennan brandara um sama rakara í FB-færslu. Sannarlega gott að ég hlífði rakaranum, hugsaði ég. Bráðsmellið samt.

Nokkrum dögum seinna kom í ljós að kunninginn er smitaður og hafði fengið veiruna áður en hann settist í rakarastólinn. Grínið var ekki alveg jafnfyndið þá.

Einhverjir vinir mínir á netinu stynja þungan undan því að þurfa að fara í sóttkví. Flestir taka því samt með jafnaðargeði. Enda er það minnsta fórn sem hægt er að færa að rjúfa smitleið. Staðfestum smitum fjölgar stöðugt. Nú þegar eru þau orðin jafnmörg og sérfræðingar spáðu fyrir þremur dögum að þau yrðu flest í fyrstu vikum apríl. Nærri tvö prósent þjóðarinnar eru í formlegri sóttkví, fyrir utan alla þá sem halda sig til hlés. Innlögnum á spítala fjölgar líka. Við höfum ekki enn séð það versta. Efnahagslegar afleiðingar eru líka slæmar til skamms tíma litið.

Heimurinn sér skelfilegar afleiðingar þess að óhæfir stjórnmálamenn neita að viðurkenna vandann þangað til það er um seinan eins og í Bandaríkjunum. Á Íslandi reyna besserwissarar líka að nýta sér ástandið með glannalegum yfirlýsingum. Hávamál segja:

Ósnotur maður
þykist allt vita.

En, …

Við skulum ekki hugsa eins og þjóðin eigi sér ekki viðreisnar von. Sem betur fer hafa embættismenn tekið hættuna alvarlega frá fyrsta degi og flestir stjórnmálamenn eru sammála um á svona tímum skuli allir einbeita sér að því að lágmarka skaðann. Aðgerðir Seðlabankans eru góðar og ríkisstjórnin boðar almennar aðgerðir þangað til það versta er yfirstaðið. Aðalatriðið er að allir átti sig á því að þetta ástand varir ekki að eilífu og við munum rétta úr kútnum aftur. Heimsstyrjaldir, hryðjuverk og hrun drógu kjark úr öllum til skamms tíma, en í hvert skipti hefur veröldin blómstrað á ný. Hún gerir það líka eftir veiruna.

„Við gerum okkar besta“, sagði konan við bílinn við mig að skilnaði, þegar við höfðum rakið smitsögur af kunningjum okkar. Á leiðinni frá henni áttaði ég mig á því að einmitt núna er það besta sem flest okkar gerum er að gera ekki neitt. Höldum okkur fjarri öðrum og rjúfum smitleiðir.

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.