Sjaldan valda tveir þá einn deilir

Árið 1932 ríkti ringulreið í Þýskalandi. Atvinnuleysi var mikið og milljónir lifðu við kröpp kjör, þjóðin hafði tapað heimskulegri styrjöld 14 árum áður og stjórnmálin voru í upplausn. Á þingi sátu fulltrúar 10 flokka og allt í allt störfuðu nærri 30 stjórnmálasamtök af ýmsu tagi í landinu. Stjórnmálamennirnir gátu ekki komið sér saman um stefnu.

Árið 2019 ríkir ringulreið í Bretlandi. Atvinnuleysi er lítið og lífskjör betri en oftast áður, en þjóðin tapaði heimskulegri þjóðaratkvæðagreiðslu tveimur og hálfu ári áður og stjórnmálin eru í upplausn. Á þing voru kosnir fulltrúar átta flokka, en þingflokkarnir sjálfir auk þess flestir margklofnir í fylkingar. Stjórnmálamennirnir geta ekki komið sér saman um stefnu.

Sama ár ríkir ringulreið í Bandaríkjunum. Atvinnuleysi er lítið og lífskjör betri en oftast áður, en þjóðin tapaði heimskulegri forsetakosningu rúmlega tveimur árum áður og pólitíkin er í upplausn. Stjórnmálamennirnir geta ekki komið sér saman um stefnu.

Churchill sagði eitthvað á þá leið að lýðræðið væri afleitt, en samt ekki eins slæmt og hin stjórnkerfin sem völ er á. Orð sem rifjast upp á öld lýðskrumaranna.

Spurningin er hvernig hægt er að vinna sig út úr kreppu lýðræðisins. Ef stjórnmálamenn hafa lært eitthvað af sögunni ættu þeir að vita að aldrei næst árangur ef andstæðingar tala ekki saman. Sá sem þvingar fram niðurstöðu sem vinnur gegn almannaheill, bara vegna þess að hann er í aðstöðu til þess, á von á að andstæðingurinn muni svara í sömu mynt næst þegar hann nær yfirhöndinni.

Til eru nokkrar tegundir stjórnmálamanna. Hættulegastir eru þeir sem líta á stjórnmálin sem leik þar sem aðalatriðið er að komast til valda og nýta sér þau svo sér og sínum liðsmönnum í vil, en kosta kapps að koma sífellt höggi á andstæðinga sína. Á Íslandi höfum við nú í tvígang séð stjórnmálamenn sem vilja nota dómskerfið til þess að klekkja á andstæðingum sínum, í hvorugt skiptið þeim til sóma sem að stóðu.

Oft eru slíkir stjórnmálamenn hentistefnumenn. Boris Johnson skrifaði tvær greinar vorið 2016, aðra með Brexit – hina á móti. Valdi svo, nánast af handahófi, að birta þá seinni. Trump skiptir oft um stefnu í sömu setningu.

Brexit-málið sýnir að það er enginn vandi að hætta í Evrópusambandinu. Þann hluta afgreiddu Bretar með því að tilkynna um úrsögn fyrir tæplega tveimur árum. En það er erfitt að hætta og njóta jafnframt allra kostanna við aðild. Samt tókst Theresu May að ná samningum við önnur aðildarríki. Vandinn er sá að hún hefur ekki náð að semja við sína eigin flokksmenn. Deila Breta er fyrst og fremst við sjálfa sig. Engir ná árangri í samningaviðræðum ef allir byrja á því að setja ófrávíkjanleg skilyrði.

Hamfarir af mannavöldum eru verstar.


Birtist fyrst í Morgunblaðinu 19.1.2019

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.