Skáldgáfa og sköpunargleði – Greining dr. Ólafs Ragnars á útrásinni árið 2006

Nú eru rétt tíu ár síðan ég rifjaði í meðfylgjandi grein upp fyrirlestur þar sem þekktur íslenskur fræðimaður skýrði hvað hefði gert útrásina jafnglæsilega og raun bar vitni. Svo skemmtilega vill til að þessi sígildi fyrirlestur var einmitt fluttur 10. janúar árið 2006. Hann ber þess glögg merki að höfundur hefur náð að kynna sér útrásarvíkingana í návígi, bæði með persónulegum boðum og sem ferðafélögum.


Margir hafa velt útrásinni svonefndu fyrir sér að undanförnu og hvers vegna hún varð eins og raun bar vitni. Dr. Ólafur Ragnar Grímsson hélt fyrirlestur í fyrirlestraröð Sagnfræðingafélags Íslands, Útrás: Uppruni – Einkenni – Framtíðarsýn þann 10. janúar árið 2006, fyrir réttum þremur árum. Grípum niður í meginefni fyrirlestrarins:

„Ég nefndi í lokaorðum [í fyrirlestri við Harvard-háskólann] að margt benti til að menning hefði í framtíðinni mikil áhrif á samkeppnishæfni þjóða heims, sköpunarkrafturinn yrði sá þáttur sem úrslitum réði, ekki fjárhagsstyrkur eða framleiðslugeta, því hægt væri að fá aðgang að slíku á auðveldan hátt. Nægir peningar væru til í veröldinni, en frumleg og skapandi hugsun af skornum skammti. Einnig að þessu leyti gætu hin smáu ríki öðlast lykilstöðu því sagan sýndi að nýsköpun og áfangar í þróun siðmenningar gætu birst með skýrum hætti í fámennum samfélögum. Flórens og Feneyjar á tímum endurreisnar, Aþena og Róm til forna myndu á okkar tímum teljast til smæstu ríkja heims.

Allt á þetta erindi í umræður um útrásina og ég hef hvað eftir annað áréttað mikilvægi menningar og siðvenja til skýringar á árangri Íslendinga; nýlega í erindum bæði í London og New York og nokkru áður í Kaupmannahöfn en í þessum borgum er oft spurt hvernig á því standi að íslenskir athafnamenn beri sigurorð af öðrum, nái árangri sem tíðindum sætir og það í greinum þar sem þjóðin var áður lítt að verki svo sem í lyfjaframleiðslu, fjármálastarfsemi og alþjóðlegum bankarekstri, í viðskiptum með tískuvörur og í smásöluverslun, í framleiðslu á gervilimum og í rekstri símafyrirtækja svo að nokkur dæmi sé nefnd auk flugrekstrar og markaðssetningar matvæla þar sem við hefðum áður sýnt hvað lítil þjóð getur gert.

Í erindum austan hafs og vestan hef ég stundum nefnt tíu eiginleika sem gert hafa íslensku útrásina glæsilega – og flestir eru þeir mótaðir af menningu okkar, samfélagi og arfleifðinni.

Í fyrsta lagi vinnusemi sem ef til vill er arfur frá samfélagi þar sem allir þurftu að leggjast á árar, bæði bændur og sjósóknarar, og ekki var spurt um tímafjölda þegar lífsbjörgin var í húfi.

Í öðru lagi áhersla á árangur frekar en feril ákvarðana, að ganga beint til verks og ljúka því á skömmum tíma, spyrja hvenær frekar en hvernig og láta sér ekki vaxa í augum þótt tíminn sé naumur.

Í þriðja lagieiga auðvelt með að taka áhættuna, að þora þegar aðrir hika, kannski vegna þess að lífi sjómannsins fylgir jafnan hætta og útrásin er eins konar róður á ný mið. Við vitum líka að ætíð er hægt að hverfa aftur heim til Íslands ef illa fer í leiðangrinum og eiga hér hið besta líf því öryggisnetið sem velferðarsamfélagið veitir okkur tryggir öllum sama rétt til menntunar og umönnunar óháð efnahag. Athafnamenn í sumum öðrum löndum verða hins vegar oft að leggja velferð fjölskyldunnar á vogarskálar áhættunnar.

Í fjórða lagiflækjur skrifræðisbákna hafa aldrei þvælst fyrir okkur Íslendingum; við erum vön að eiga beint við einstaklinga. Kannski hefur smæðin blessunarlega komið í veg fyrir að virkisveggir skrifræðis risu hér; við höfum einfaldlega ekki haft mannskap til að hlaða þá.

Í fimmta lagi hin ríka áhersla á að treysta hvert öðru, að orðheldni sé mikil dyggð, enda formlegir samningar oft óþarfir í litlu samfélagi. Það gerir fólki kleift að vinna saman og ná árangri hraðar en þeir sem vanist hafa skriflegri og flókinni umgjörð um samstarf áður en verkið sjálft er hafið.

Í sjötta lagi hve auðvelt er að mynda samstarfshópa sem stefna að sama marki, að skapa iðandi keðju bandamanna í ákvörðunum og ná þannig forskoti á fulltrúa hinna stóru sem bundnir eru af þunglamalegu og flóknu kerfi.

Í sjöunda lagi hinn íslenski athafnastíll þar sem stjórnandinn sjálfur er í fremstu röð, líkt og skipstjóri í brúnni sem deilir örlögum og áhættu með áhöfninni. Fyrirtækin öðlast svipmót frumkvöðlanna, persóna hans eða hennar verður ráðandi afl og slíkt stuðlar að ábyrgð og forystu í ríkara mæli en þar sem stjórnendur standa í skjóli af stærri heildum.

Í áttunda lagi arfleifðin sem ég nefndi í upphafsorðum, landnámið og tími víkinganna, sem færði okkur fyrirmyndir, hið djúpstæða viðhorf að sá sem heldur á ókunnar slóðir verðskuldi heiður, að leggja á hafið og nema lönd færi virðingu og sóma. Athafnamenn okkar tíma eru ærið oft metnir á slíkan kvarða og litið á þá sem arftaka hefðar sem á sér rætur í upphafi Íslandsbyggðar.

Í níunda lagi og einnig þar eru tengslin við forna tíma skýr, Eddukvæðin, Hávamál:

„Deyr fé,
deyja frændur,
deyr sjálfur hið sama.

En orðstír
deyr aldregi
hveim er sér góðan getur.“

Við vitum að mannorðið er dýrmætara en flest annað og slík hugsun er vænlegra leiðarljós um ókunna vegu á heimsmarkaði en regluverk eða flókin vegakort sem aðrir hafa samið. Það dugir Íslendingum lítt til sæmdar að brjótast áfram í öðrum löndum með aðferðum sem eru vafasamar því orðstírinn kann að tapast í slíkri för.

Í tíunda lagi áherslan á sköpunargáfu; virðing sem hinn frumlegi nýtur á heimaslóð og öndvegið sem skáldin sátu forðum hafa fylgt okkur um langan veg. Orðið athafnaskáld er lýsandi dæmi um hvernig þessi hugsun hefur fengið gildi í samtímanum. Þeim sem eru skapandi í hugsun, móta nýjan texta, nýja reynslu, nýtt verkasvið, nýjan athafnavöll er skipað í virðingarsess.

Skáldgáfa, sköpunargleði í fjölbreyttum myndum, hefur alltaf verið styrkur Íslendinga og það nýtist okkur vel í nútímanum enda hafa margir kunnáttumenn fært fyrir því rök að það sem á ensku er nefnt „creativity“ verði í vaxandi mæli ráðandi um afkomu og árangur þjóða, afdrifaríkara en fjárhagsstyrkur eða framleiðslugeta.


Þessi grein birtist í 1. tbl. Vísbendingar árið 2009.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.