Þegar Jón Gunnarsson kynnti hugmyndir sínar um veggjöld árið 2017 var ég einn fárra sem ekki sló hugmyndina út af borðinu, því hún er umræðu virði. Margt mælir með því að þeir sem nota vegi borgi fyrir slit á þeim. Skiptir þá engu hvort um er að ræða dreifbýli eða þéttbýli. Þegar stærri hluti bílaflotans hættir að nota fljótandi eldsneyti er líka augljóst að finna þarf nýjar leiðir til þess að fjármagna vegakerfið.
Sú hugmynd að flýta vegaframkvæmdum með innheimtu veggjalda er líka spennandi, ekki síst fyrir íbúa á suðvesturhorninu, sem hafa séð að Sundabraut er sífellt frestað og vita að bæta má helstu stofnbrautir, svo dæmi séu tekin. Sumir eyða hátt í klukkutíma í dag á tepptum vegum. Vegaframkvæmdir víða um landið eru auðvitað líka margar brýnar. Svo margar að ekki er rúm til þess að telja þær upp í stuttri grein.
Kostir vel útfærðra veggjalda eru ýmsir. Ef veggjöld væru ekki þau sömu alls staðar mætti til dæmis nota þau til aðgangsstýringar á umferðaræðar sem eru stíflaðar tímunum saman nánast upp á hvern dag. Þess vegna vildi ég gjarnan skoða þau betur.
Ekki er hægt að segja að Jón hafi fengið miklar undirtektir, hvorki frá félögum sínum í Sjálfstæðisflokknum né í samstarfsflokkunum nýju. „Það er ekki stafkrókur um veggjöld í stjórnarsáttmálanum,“ sagði Sigurður Ingi í desember 2017. „Þær [hugmyndir] voru lagðar til hliðar.“
Nú er öldin önnur. Því miður bendir flest til þess að ríkisstjórnin ætli að klúðra veggjaldamálinu með klaufalegum hætti. Málið hefur litla kynningu fengið, nema að Sjálfstæðismönnum víða um land hefur verið sagt hver líkleg útfærsla verði. Ef marka má fréttir láta þeir sér vel líka.
Af þeim spilum, sem þegar hafa sést, má ráða að í fyrsta lagi ætli ríkisstjórnin að kosta aukin útgjöld til vegamála með sérstakri lántöku (ekki gjaldtöku), láni upp á um 60 milljarða króna. Það á sem sé að borga seinna, eins og loðað hefur við eyðsluglaða stjórnmálamenn. Í öðru lagi stendur til að stofna sérstakt bákn um þessar nýju framkvæmdir, nýtt ohf. sem væntanlega á að nýta til þess að fela kostnaðinn, sem auðvitað gengur ekki upp. Skyndilega hefur ríkisstjórnin gleymt að til er Vegagerð.
Verst er að gjöldin verða fyrst og fremst lögð á suðvesturhornið, en peningar sem „sparast“ vegna veggjalda eiga að fara í framkvæmdir annars staðar. Flýtiframkvæmdir eru því nýtt nafn á flumbrugangi, byrði á höfuðborgarsvæðið og flutningi tuga milljarða króna annað.
Framsókn og VG hafa lítið fylgi á höfuðborgarsvæðinu, einn borgarfulltrúa af 23, og kæra sig kollótt. Þess vegna eru álögur stjórnarinnar á höfuðborgarsvæðið í boði Sjálfstæðisflokksins, en flokkurinn virðist ætla að keyra þær vanhugsaðar í gegn og borgarfulltrúar hans fagna, eða þegja þunnu hljóði.
Birtist fyrst í Morgunblaðinu 10.1.2019