Vegir Gúgúls eru órannsakanlegir. Hann man hluti sem allir hafa gleymt. Það kemur sér vel ef maður lendir í blakkáti.
Í dag lenti ég einu sinni sem oftar í svolitlu grúski. Ég var að taka til í skjalabunka, sem leiddi mig að gömlu spjaldi þar sem rakin er saga veitingahúss á Húsavík sem langamma mín og langafi í móðurætt ráku.
Svo fann ég minningargrein um forfeður mína og -mæður í föðurætt. Ég lagðist í rannsóknir á netinu og fann minningargrein um langömmu mína, Sigríði Davíðsdóttur og Símon, mann hennar, fátækt og gott fólk í Borgarfirðinum. Höfundur greinarinnar var ömmubróðir minn og sonur þeirra, séra Bjarni Símonarson á Brjánslæk.
Ég gróf upp mikinn fróðleik um séra Bjarna og datt þá í hug að leita að systkinum hans. Um þetta mun ég allt fjalla í pistlum á næstunni. Loks kom ég að Magnúsi Símonarsyni, yngsta bróður Steinunnar ömmu minnar, skemmtilegum og góðum manni.
Mér datt í hug að gúgla hann til þess að finna góða mynd (þó að ég eigi reyndar eina). Sé ég þá mynd af sjálfum mér og undir myndinni stendur: „Handteknir á flótta út úr landhelginni.“
Ég tel að ég sé ágætlega minnugur, en þessi flótti hefur verið svo hversdagslegur að ég mundi ekkert eftir honum. Þegar ég smellti á myndina blasti við skjámyndin hér að neðan.
Allt í einu rann upp fyrir mér ljós: „Auðvitað, þegar ég var á flótta með Gunnari Braga og Katrínu.“
Nema ekkert af þessu kom mér í hug, svo að yfir mér hefur verið óminnishegri, þegar við lögðum á flótta. Ég þarf á hjálp að halda.
Ég smellti á takkann View PDF sem er á myndinni. Kom þá í ljós forsíða á Fréttablaðinu 20. apríl 2009. Þar var frásögn af flóttatilraun þriggja kumpána: „Lögreglumenn úr sérsveit Ríkislögreglustjóra náðu í gærkvöldi á sitt vald skútu sem talið er að hafi komið með um 100 kíló af fíkniefnum til landsins um helgina. Þetta er stærsta tilraun til fíkniefnasmygls sem komist hefur upp um hér á landi. Þrír menn voru um borð í skútunni þegar sérsveitarmenn fóru um borð …“
Fréttinni fylgir svo mynd af þessum þremur kauðum með lambhúshettur fyrir andlitinu, þannig að hvorki ég, Gunnar Bragi né Katrín þekkjumst á myndinni.
Ég ákvað að fletta blaðinu til þess að hressa betur upp á minnið. Hvað sé ég þá á blaðsíðu 5 annað en þessa mynd sem vakti upp góðar endurminningar:
Ekki gat þessi mynd skýrt talið um flóttann, því að Sjálfstæðisflokkurinn hefur svo sannarlega ekki flúið frá þessari staðföstu skoðun sinni.
Samt fannst mér þetta ekki skýra vel hvers vegna myndin af mér kom með þessari skrýtnu fyrirsögn um flóttann. Þannig að ég fletti lengra. Og þá kom þessi mynd:
Líklega hefur engum dottið í hug að tveir menn fyndust sem væru ósammála um flest en Hallgrímur Helgason og ég. Við vorum ekki einu sinni í sama herbergi þegar myndin var tekin, þannig að hér er viss sögufölsun á ferðinni.
En rétt eins og Bjarni og Sjálfstæðisflokkurinn standa við sína skoðun um evruna hugsa ég að við Hallgrímur teljum báðir enn að klára eigi samningaviðræður við Evrópusambandið, þjóðinni til heilla. Við erum ekki á flótta.
En hvað það kemur Magnús frænda mínum á Fellsöxl við hef ég ekki hugmynd um.