Stundum eru tilviljanir magnaðar. Í gær voru 100 ár frá því að Katla gaus með miklum hörmungum. Þá komu líka til mín feðgar, Helgi og Jón Schweizer, en mamma Helga var Þorbjörg Jónsdóttir hjúkrunarkona. Þorbjörg var mikill vinur minnar fjölskyldu, þó að hún væri okkur óskyld. Þorbjörg átti merkilegt lífshlaup, þar sem þeir komu við sögu Hriflu-Jónas og Hitler. Hún var líka frumherji í geðhjúkrun á Íslandi. Og Kötlugosið var örlagavaldur í hennar lífi.
Pabbi kynntist Þorbjörgu þegar hann var við nám og störf í Þýskalandi á árunum 1937-45. Þorbjörg hafði kynnst þýskum manni, Bruno Schweizer þegar hann var á ferð á Íslandi árið 1935. Í þeirri ferð tók hann fjölmargar myndir sem sjá má í ritverkinu Frá torfbæjum inn í tækniöld, en þar er miklum menningarverðmætum haldið til haga.
Pabbi hafði mikil samskipti við þau hjón þegar hann bjó í München. Hann segir í æviminningum sínum: „Ég fór oft í heimsókn til þeirra og kynntist Þorbjörgu fljótt. Hún var mjög elskuleg kona, ákaflega dugleg, útsjónarsöm og gestrisin. Hún var mjög lagin við að komast af í allsleysinu sem einkenndi stríðsárin í Þýskalandi. Það var alltaf tekið vel á móti manni hjá þeim hjónum og alltaf gat Þorbjörg matbúið eitthvert lostæti. Diessen er vinalegt þorp í fögru umhverfi á suðvesturbakka Ammervatnsins.“
Bruno vann á stríðsárunum að rannsóknum á lifnaðarháttum og tungumáli Þjóðverja í Suður-Tíról undir stjórn Ahnenerbe, stofnun sem var undir stjórn SS og Heinrich Himmler. Þorbjörg sagði mér frá því að eftir stríð hefðu bandamenn komið heim til þeirra í Diessen til þess að leita að Himmler, sem var auðvitað ekki þar, en eins og kemur fram hér á eftir áttu þessi vísindastörf eftir að draga dilk á eftir sér fyrir fjölskylduna.
Þorbjörg flutti svo heim á elliárum. Við Vigdís höfðum mikið samband við hana, hittum hana í Þýskalandi og á Kirkjubæjarklaustri þar sem hún bjó síðustu árin. Ég vissi það samt ekki fyrr en í morgun að Þorbjörg og Bruno höfðu kynnst í Múlakoti, en þar bjuggu ættingjar og forfeður Vigdísar. Þorbjörg lést 31. janúar 2002, 98 ára gömul. Magnús Bjarnfreðsson skrifaði sögu hennar í stuttri bók, Í ríki óttans.
Í morgun var ég svo á flakki um netið eins og oft áður. Þá fann ég þetta viðtal Elínar Pálmadóttur við Þorbjörgu frá árinu 1994. Þar er farið yfir lífshlaup þessarar merkilegu konu. Myndin hér að ofan er brúðkaupsmynd af þeim Þorbjörgu og Bruno. Hér er viðtalið í heild:
Aldrei neitt hik
ÞORBJÖRG Jónsdóttir Schweizer, hjúkrunarkona, er að ljúka ævihringnum á heimaslóðum, fæddist fyrir 90 árum á heiðarbýlinu Eintúnahálsi á Síðu og býr nú á Dvalarheimilinu á Kirkjubæjarklaustri. En þar á milli gerðist mikil saga, sem ég fæ Þorbjörgu til að segja undan og ofan af. Hún er hlédræg þessi fágaða kona, segir að þetta hafi allt komið af sjálfu sér. Það má til sanns vegar færa. En það vekur athygli að almættið eitt hefur þar ekki ráðið ferð, heldur hefur yfirgangur stjórnvalda í tveimur löndum, Íslandi og Þýskalandi, ósjaldan haft afdrifarík áhrif á lífskúrs hennar og manns hennar. Komu þar m.a. við sögu bæði Jónas frá Hriflu og Hitler. Auk þess sem Katla gamla sendi 1918 svarta ösku yfir fjölskyldu hennar og varð til þess að hún lagði sjálf upp að heiman 15 ára gömul.
Þorbjörg kvaðst vera alin upp á Síðuheiðunum, fædd á nyrsta býlinu og næst Lakagígum. Þetta var lítið og erfitt býli og svo fór það næstum því í eyði í Kötlugosinu, þótt faðir hennar hokraði þar áfram til 1934. „En pabbi átti ekkert eftir Kötlugosið. Sumarið á undan hafði verið blautt og kalt og bændur illa undir veturinn búnir. Svo lagðist þykkt öskufall yfir allt.“ Þá var Þorbjörg 15 ára gömul og fór í vist. Hún man vel eftir þessum degi, þegar Katla gaus 12. október 1918.
„Boð komu um að báturinn Skaftfellingur væri kominn í Vík og bændur beðnir um að koma með féð til slátrunar. Við höfðum smalað fénu heim í rétt og ég fór með pabba með sláturféð niður að Klaustri. Þegar við komum niður í dalinn með reksturinn heyri ég einhverjar drunur. Hann heyrði ekkert og sagði mér að vera ekki með þessa vitleysu, hafa hugann við féð. Þegar við komum að Klaustri var komið rökkur og við sáum eldglæringarnar. Drunurnar höfðu aukist, eins og buldi í. Þá sást að eldgos mundi vera einhvers staðar, en fólk var ekki sammála um hvar. Kannski í Laka. Vindur var af útsuðri og éljagangur. Bjarma sló austur yfir fjöllin. Við skildum kindurnar eftir og fórum heim. Við höfðum albjart heim af eldglæringunum. Þegar birti kom í ljós hvaðan þetta var. Um nóttina féll aska. Pabbi rétti um morguninn höndina út um gluggann og hún varð alsvört. Allt var orðið kolsvart, það var ömurlegt. Þykkt öskulag yfir öllu. Ekki fór sláturféð lengra. Varð að slátra öllu fé heima. Salt og tunnur var flutt austur að Skaftárósi með báti og látið reka í land. Því var úthlutað til bænda.“
Þorbjörg var heima um veturinn, en um vorið fór hún vinnukona að Hunkubökkum á Síðu. Hún segir að hjónin þar hafi verið góð við sig, svo hún var eins og ein af börnunum. En af því hún var elst lenti auðvitað mest á henni. Þá fluttu hjónin, Elías Bjarnason, sem lengi var kennari í Austurbæjarskólanum, og Pálína Elíasdóttir til Reykjavíkur og Þorbjörg fór svo í kjölfarið haustið á eftir. „Þau fóru um haust og skildu mig og vinnumanninn eftir til að gæta búsins um veturinn. Ég var þá 16 ára gömul. Það gekk ágætlega,“ segir hún.
Ráðherra rak yfirmenn á spítölunum
Þorbjörg átti sér draum, að verða héraðshjúkrunarkona. Til þess stundaði hún fiskvinnu á sumrin og á vetrum var hún vinnukona hálfan daginn og notaði seinni hlutann til að mennta sig. Hún hafði kynnst konu, sem átti héraðshjúkrunarkonu og ljósmóður fyrir systur og áttaði sig þá á því að þetta var hægt. Steingrímur Matthíasson læknir á Akureyri hafði verðandi hjúkrunarkonur í læri í sex mánuði og hún var ákveðin í að læra hjá honum og verða hjúkrunarkona í sveit. En þá var stofnað Hjúkrunarkvennafélag Íslands, sem vildi enga skemmriskírn á menntuninni. Hjúkrunarkonurnar skyldu læra í tvö ár hér heima í sjúkrahúsum og eitt ár erlendis og taka þar próf.
„Það varð sögulegt. Við áttum að vera hálft ár á Vífilsstöðum, hálft ár á Kleppi og eitt ár á almennu sjúkrahúsi í Vestmannaeyjum, Akureyri eða Ísafirði. Ég byrjaði á Vífilsstöðum 1928. En þá vildi svo óheppilega til að ráðherrann Jónas á Hriflu sagði allt í einu að ástæðulausu upp þremur starfsmönnum, yfirhjúkrunarkonunni, matráðskonunni og skrifstofustúlkunni. Yfirhjúkrunarkonunni féll þetta mjög illa. Ég var svokallaður ljósnemi og hafði unnið með henni. Hún vildi ekki sleppa mér, svo ég var þar í 14 mánuði í stað sex. Þegar ég svo fór þaðan var verið að opna Nýja Klepp og ég var tekin þangað í hálft ár. Það vantaði hjúkrunarkonur og ég var látin leysa af hjúkrunarkonur í sumarleyfi. Þegar það var búið komu boð um að laust væri pláss fyrir okkur tvær í Kaupmannahöfn. Svo ég missti alveg af þjálfun í almennu sjúkrahúsi og var eins og álfur þegar ég kom út til Danmerkur. En það gekk nú samt ágætlega,“ segir Þorbjörg.
Hún hafði lofað á Kleppi að sérmennta sig í geðhjúkrunarfræði. „En þegar ég var búin að sérmennta mig, þá var Jónas búinn að reka yfirlækninn Helga Tómasson frá Kleppi. Þá langaði mig ekki heim. Það var alltaf Jónas frá Hriflu sem kom þarna inn í og hafði áhrif á lífshlaup mitt. En þar sem ég var búin að sérmennta mig í geðhjúkrunarfræðum, þá fór ég á Rigshospitalet, í húð- og kynsjúkdómadeildina því þar var ekki komin geðdeild. Hún var í byggingu. Eftir þrjú ár var mig farið að langa heim. Helgi var ekki kominn að Kleppi, en hafði prívatsjúklinga. Ég tók að mér átta prívatsjúklinga sem hann var með á einni stofu á Elliheimilinu Grund. Eftir átta mánuði urðu stjórnarskipti og það fyrsta sem nýja stjórnin gerði var að skipa Helga aftur yfirlækni á Kleppi. Ég sagði upp og fór þangað. Ég hafði alltaf svo mikinn áhuga á geðveikinni og langaði til að mennta mig meira. Svo að þegar Helgi fór utan bað ég hann um að útvega mér pláss í Svíþjóð í sex mánuði sem sjálfboðaliði í geðsjúkrahúsi. Svíar tóku þá enga sjálfboðaliða. En í ferðinni hafði Helgi hitt vin sinn í Berlín, sem vildi taka við mér. Hann spurði því hvort ég hefði ekki áhuga á að kynnast þeim málum í Þýskalandi. Ég þáði það þótt ég kynni ekkert í þýsku. Ég tók alltaf svona skyndiákvarðanir. Ekkert hik.“
„Ég kom til Berlínar 1937 og líkaði ágætlega. Var á einkaklínik hjá ágætismanni. Það var orðin mikil Hitlersdýrkun, en ég fylgdist ekkert með pólitíkinni. Botnaði ekkert í henni. Þegar Mussolíni kom til að hitta Hitler þótti þeim á sjúkrahúsinu sjálfsagt að ég færi með til að sjá þá. Og ég sá þeim bregða fyrir þegar þeir fóru fram hjá okkur. Svo lenti ég á einkaklínik, þar sem ég var með tveimur diakonessum á stofu með sex insúlinsjúklinga í lostmeðferð. Þær fóru svo í þriggja vikna frí og mér var trúað fyrir stofunni. Átti svo að fá frí.“
Til Þýskalands rétt fyrir stríð
„Mér finnst eins og mér sé stjórnað“, hafði Þorbjörg sagt við mig þegar við erum að tala um að hún hafi aldrei vanið sig á að hika. Dr. Bruno Schweizer málfræðingur hafði frétt gegn um vini á Íslandi að hún væri í Berlín og skrifaði henni að hún hefði ekki séð Þýskaland fyrr en hún hefði séð Bayern. Og þar sem hún fékk nú hálfs mánaðar frí tók hún boði hans um að koma þangað. „Bruno var svo mikill Íslandsvinur. Við höfðum ekki kynnst mikið. Ég sá hann 1936 í Múlakoti í Fljóthlíð, þar sem við vorum tvær vinkonur í fríi. Efnt var til ferðar í Þórsmörk með okkur á hestum, okkur Jónínu, Bruno og pilt úr Reykjavík og svo var með okkur fylgdarmaður. Við vinkonurnar vorum með tjald og þeir fengu að liggja í tjaldinu hjá okkur. Þá talaði ég enga þýsku. Og ekki datt mér í hug þá að þetta yrði nokkuð meira. Það varð ekki fyrr en tveimur árum seinna.“ Nú var hún komin heim til Brunos í frí. Um sumarið 1938 kom hann með systur sinni til að sækja brúði sína til Íslands.
Dr. Bruno Schweizer átti son í gagnfræðaskólanum á Akureyri. Eftir fyrra stríð hafði hann átt Leó, en móðir hans var látin. Hann hafði komið honum 10 ára gömlum í klausturskóla í Þýskalandi. „Bruno var antínasi og þá hundeltur af þeim. Svo að þegar þeir tóku þennan skóla fyrir Hitlersæskuna, þá gat hann ekki hugsað sér að hafa hann þar áfram. Hann hafði þá kynnst nokkrum Íslendingum í Marburg og Munchen, sr. Jóni Auðuns, Óskari Þórðarsyni lækni og mörgum fleirum. Og dr. Kristni Guðmundssyni sem tók drenginn í skólann á Akureyri, þar sem hann útskrifaðist gagnfræðingur 1939.“ En hvað varð um Leó, ekki bjó hann áfram á Íslandi. „Nei,“ segir Þorbjörg. „Hann kom heim og fór í stríðið eins og allir ungir menn. Var áður en lauk liðsforingi til sjós. Hann var með þeim síðustu í þýska sjóhernum sem gáfust upp í La Rochelle í Frakklandi. Þeir voru ekki settir í fangabúðir heldur sendir út á land til að vinna. Leó lenti á sveitaheimili þar sem voru berklar. Hann kom þaðan með bráðaberkla og dó heima.“
Hundeltur antínasi
Þorbjörg og Bruno giftu sig á Íslandi í ágúst 1938. Hún sagði upp stöðu sinni á Kleppi og fór með honum út. Þau settust að í Dortmund í Westfalen, þar sem var Germanskt institut, sem dr. Schweitzer var forstjóri fyrir. Það féll undir Anenerbe, stofnunina sem réði líka yfir útrýmingarbúðunum undir stjórn Himlers og Hitler var því verndari hennar. „Það var hans ógæfa,“ segir Þorbjörg. „En þetta sem hann stjórnaði var germanska deildin. Hann var búinn að vera lengi atvinnulaus vegna þess að hann var antínasi. En svo var hann samt ráðinn af því að hann var með áhuga á norrænum málum og átti íslenska konu. En hann var ekki flokksbundinn og aldrei farið fram á það við hann að hann gengi í flokkinn.“
Hann þurfti samt að fara í stríðið og komst alla leið til Calais. En hann hafði farið illa í fyrra stríði, var þá í Austurlöndum og fékk malaríu, svo hann var ekki nema ár í hernum. Á meðan pökkuðu þau hjónin saman og Þorbjörg flutti með drengina þeirra tvo, Helga og Gunnar, til móður hans í Diessen Ammersee, skammt frá Munchen. Enda var germönsku stofnuninni lokað.
„Þá hafði Mussolíni gefið Hitler Tyrol. Þeir voru alltaf á þessari germönsku línu,“ útskýrir Þorbjörg. „Þegar Bruno kom heim í frí þá sótti hann um að fara til Suður Tyrol til þess að taka upp þjóðhætti, sem ekki mætti missa niður. Við vorum því í heilt ár 1940-41 í Bosen. Þar var gott að vera. Svo mátti hann vera heima og vinna úr því sem hann hafði safnað. Hafði tvær stúlkur til aðstoðar. Við vissum því lítið af stríðinu. Ég gaf mig fram til starfa í Rauða krossinum og við buggum í Diessen. Þetta var listamannabær og fiskimannabær en enginn iðnaður. Flugvélarnar flugu alltaf yfir, en köstuðu aldrei sprengjum á bæinn.
Þeir komu bara yfir mann. Fyrst Frakkarnir, sem voru mikill óþjóðalýður. Þeir brutu allt og brömluðu og máttu gera hvað sem þeir vildu,“ segir Þorbjörg, þegar ég spyr hana hvernig þau hafi upplifað stríðslokin. „Við höfðum farið til að sækja eldivið. Þeir höfðu komið og voru búnir að umsnúa öllu og brjóta á heimilinu okkar og stela öllu sem hægt var. Svo komu Englendingar. Þeir voru skárri og loks Ameríkanarnir og þá fyrst fór að komast á eitthvert skipulag. Fyrir okkur var allt miklu verra eftir stríð en í stríðinu. Bruno var handtekinn af Ameríkönum. Þeir vildu ekki trúa því að hann hefði ekki verið í flokknum og hefði aldrei verið nasisti. Þeir yfirheyrðu mig líka þrisvar sinnum. Það var erfitt, þvældu manni endalaust fram og aftur í þrjá tíma í hvert skipti.
Heim í stríðslok
Þá bauðst mér að fara heim til Íslands með börnin. Íslendingar sendu út mann, Lúðvíg Guðmundsson, til að finna og hjálpa Íslendingum. Vinir mínir heima höfðu sagt honum af mér. Ég þáði boðið. Þetta var ein af þessum ákvörðunum sem ég tók umsvifalaust og alein. En ég vildi ekki fara nema ná tali af Bruno. Það var ekki heiglum hent að komast inn í fangabúðirnar í Garmes Paterkirchen, þar sem hann var. Mér var sagt að það hefði aðeins ein kona önnur komist þar inn í heimsókn. Tengdamamma hafði verið í Rauða krossinum og skrifaði af hverju ég þyrfti að ná í Bruno. Ég fékk að tala við hann í stundarfjórðung meðan hermaður stóð með byssu úti í horni. Og Bruno bað mig í öllum bænum um að fara heim með börnin.“
Þegar Þorbjörg kom heim fékk hún vinnu á Kleppi og bjó þar. „Það var ekki auðvelt. Ég var þarna fyrsta hjúkrunarkonan með börn og bjó í hálft ár með drengina í litlu herbergi uppi undir þaki. Þeir voru 3 og 6 ára gamlir og auðvitað ekkert barnaheimili. Ég klæddi þá á morgnana og lét þá út á guð og gaddinn. Sjúklingarnir og starfsfólkið passaði þá fyrir mig. Allir voru jafn góðir við okkur.“
Báðir synir Þorbjargar búa í Þýskalandi með fjölskyldum sínum. Helgi Jón er prófessor í sálarfræði við háskólann í Innsbruck í Austurríki og á þrjú börn. Gunnar er tinsmíðameistari og stjórnaði til skamms tíma tinverksmiðju fjölskyldunnar, sem föðurbróðir hans og afi ráku á undan honum. Nú er hans sonur tekinn við og sjálfur er hann að flytja til Írlands. Ætlar að setja þar upp smáverkstæði með tinsmíðisgripi, segir Þorbjörg mér.
Fékk hvergi vinnu
Eftir stríð vann Þorbjörg í 7 ár við hjúkrunarstörf á Kleppi. Bruno var fyrst í eitt ár í fangabúðum. Og eftir það fékk hann aldrei vinnu. „Hann var alltaf brennimerktur, alltaf á svarta listanum, fyrst hjá nasistunum og svo hjá hinum, sem ekki trúðu því að hann hefði ekki verið nasisti,“ segir Þorbjörg. Hann fékk heldur ekki að koma til Íslands fremur en aðrir Þjóðverjar, sem áttu hér eiginkonur og fjölskyldur og höfðu verið teknir hér til fanga af Bandamönnum. Þeir höfðu verið fluttir í fangabúðir á eyjunni Mön og sendir þaðan heim til Þýskalands í stríðslok. Af því urðu ýmsir harmleikir og margar konurnar áttu þung spor í dómsmálaráðuneytið til Finns Jónssonar, sem harðneitaði að nokkur Þjóðverji fengi að koma inn í landið. Þorbjörg átti líka nokkrar árangurslausar ferðir í dómsmálaráðuneytið við Túngötu. Þar til Bjarni Benediktsson varð dómsmálaráðherra 1947. „Ég fór til Bjarna. Við skulum sjá hvað hann hefur gert, svaraði hann. Og eftir tvo daga fékk ég leyfi. Bruno kom, flaug meira að segja frá Hamborg. Hann var hér í eitt ár og bjó hjá okkur, en fékk aldrei neitt að gera. Hér hélt fólk líka að hann hefði verið nasisti. Svo fór hann 1949,“ segir Þorbjörg.
Hún og drengirnir fóru á eftir honum til Þýskalands 1952. „Ég var alltaf að bíða eftir að hann fengi einhverja vinnu, en það heppnaðist ekki. Hann skrifaði í blöð og tímarit en fékk ekki fasta stöðu. Það kom alltaf upp eitthvað sem hamlaði,“ segir hún. „Ekki fyrr en skömmu áður en hann dó í nóvember 1958. Hann var búinn að fá stöðu í Austurríki. Þá dó hann skyndilega. Hjartað bilaði. Þetta var á versta tíma fyrir drengina sem voru 15 og 18 ára gamlir og hefðu þurft föður til að styðja sig. Helgi var ekki búinn í menntaskóla og Gunnar lærlingur á verkstæðinu hjá mági mínum.“
Sjálf vann Þorbjörg með heimilinu í smáverslun, sem mágur hennar var með. Þau bjuggu í heimabæ Brunos skammt frá Munchen. Margir íslenskir námsmenn í Munchen þekktu þau Þorbjörgu og Bruno Schweizer og var ávallt vel tekið á móti þeim á heimili þeirra. Í gestabók Þorbjargar má lesa mörg kunn nöfn manna í atvinnulífinu á Íslandi, sem þakka húsráðendum. „Það var ekkert sem ég gerði fyrir stúdentana, en það var dásamlegt að fá þá í heimsókn. Þetta eru mínir bestu vinir,“ segir hún. Eftir 1980 kom Þorbjörg oft heim til Íslands á sumrin, en 1957 hafði hún komið og leyst af á gömlu deildinni sinni á Kleppi fyrir fargjaldinu. Loks fluttist hún alkomin 1989 og fékk inni á dvalarheimilinu á Klaustri. Eins og hún segir: „Mér bauðst það og ég var fegin að ég var búin að vinna það mikið á Íslandi að ég átti hér full réttindi. Þá fékk ég aftur íslenska ríkisborgararéttinn, sem ég gat ekki fengið að halda þegar ég gifti mig. Þá var það ekki hægt.“
Þorbjörg segir að sér líki ákaflega vel á Klausti. Hún sér ekkert eftir því að hafa komið heim, þótt viss söknuður fylgi því auðvitað að eiga sína svo langt í burtu. „Ég hefði ekki viljað vera nokkurs staðar annars staðar,“ segir þessi níræða kona.
Viðtalið birtist í Morgunblaðinu 28. ágúst 1994. Hér er viðtal sem Fríða Björnsdóttir tók í Ský við þá bræður, Helga og Gunnar árið 2007.