Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur

Svo einkennilegt sem það virðist gefum við oft lítið fyrir það sem er okkur verðmætast. Hreint vatn, ferskt loft og góð heilsa eru meðal þess sem margt fólk leiðir ekki hugann að meðan það nýtur þess. Sama gildir um frið og frelsi, sem hafa verið bitbein stjórnmálanna í heiminum undanfarnar aldir.

Frjálslynd stefna hefur haft undirtökin á Vesturlöndum allt frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar. Frelsi til viðskipta og samskipta þjóða á milli setur einstaklinginn í öndvegi. Hagur almennings á Vesturlöndum er miklu betri en annars staðar í heiminum og það er engin tilviljun. Fjárráð segja þó ekki alla söguna, en menntun og heilbrigði eru líka best þar sem frelsi er mest.

Einhver athyglisverðasta og jafnframt sorglegasta tilraun mannkynssögunnar var þegar sósíalisminn var innleiddur í Austur-Evrópu. Ríki sem áður stóðu jafnfætis eða jafnvel framar löndum vestar í álfunni eins og Tékkóslóvakía og Austur-Þýskaland urðu kyrrstöðu og afturför að bráð. Á nýlegri ferð um borgir sem tilheyrðu austurhluta Þýskalands fyrir fall kommúnismans heyrði ég og sá hversu stórt skref fram á við þetta svæði hefur tekið eftir inngöngu Austur-Þýskalands í vestur-þýska Sambandslýðveldið.

Baráttunni fyrir friði og frelsi lýkur aldrei, en nú eiga frjálslyndir í vök að verjast á vesturvígstöðvunum. Tímaritið Economist, sem er 175 ára um þessar mundir, minnir í forystugrein á hve stórstígar framfarir hafa orðið í heiminum á þessum tíma. Meðalævilengd í heiminum hefur vaxið úr 30 árum í 70, skortur hefur minnkað úr því að 80% teljist sárafátæk í 8% og réttindi einstaklinga hafa tekið stakkaskiptum til hins betra. Barátta frjálslyndra flokka hefur lagt drjúgan skerf af mörkum til alls þessa.

Í ljósi þessarar sigurfarar frjálslyndisins er uggvænlegt að nú vex þeim sem aðhyllast stjórnlyndi fiskur um hrygg, bæði í lýðræðisríkjum Evrópu og Bandaríkjunum sem lengst af hafa verið brjóstvörn frelsisins. Hættan af þeim sem hvetja til einangrunar og minni mannréttinda er ekki síst sú, að andstæðingarnir standa ekki saman vörð um frelsi og önnur réttindi. Nasistar náðu á sínum tíma völdum eftir lýðræðislegar kosningar þar sem þeir fengu um þriðjung atkvæða. Einn samstarfsmaður þeirra í fyrstu ríkisstjórn undir forystu Hitlers sagði: „Í gær framdi ég mestu heimskupör, sem mér hafa nokkru sinni orðið á. Ég hef bundið trúss mitt við mesta lýðskrumara veraldarsögunnar.“

Enn þann dag í dag verða góðum mönnum á slík heimskupör þegar þeir þegja í stað þess að mótmæla meðan lýðskrumarar fara með rangt mál, mæra þjóðernishyggju og fyrirskipa öðrum hvað þeir mega segja, gera og jafnvel borða. Þess vegna verður frjálslynt fólk að sameinast í nýrri sókn til þess að auka og varðveita frelsi almennings.


Birtist í Morgunblaðinu 25. 9. 2018

 

3 comments

  1. Hvernig stendur á því að maður með slíkan andlegan þroska, vit og skilning á mennsku annarra er í Sjálfstæðisflokknum? Ofan á allt ertu meira að segja náskyldur ljónunum sjálfum? Hefur það aldrei hvarflað að þér að þú hafir ekki verið rétt skráður?

    Líkar við

  2. Eg meinti það ekki heldur er ég að tala um skyldleika þinn við ættingja þína mér finnst þú ekki sverja þig beint í ættina. Viðreisn á örugglega góða framtíð fyir sér með þig og Þorgerði Katrínu í fararbroddi e hún er án efa mesta og hæfileikaríkasta stjórnmálamanneskja nú í dag.

    Líkar við

Færðu inn athugasemd við Benedikt Jóhannesson Hætta við svar

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.