Einhver kynni að halda að það væri tilgangslaust að segja hvaða bítlalag er best. Það fari að sjálfsögðu eftir smekk hvers um sig. Það er auðvitað alls ekki rétt. Paul McCartney sagði einhverntíma að hlið 2 á Abbey Road plötunni væri það besta sem Bítlarnir hefðu gert og vinur minn einn hélt til skamms tíma að þetta hlyti að vera rétt fyrst Paul sagði það. En auðvitað er þetta tóm þvæla.
Nú er Paul að reyna að gera Hey Jude að aðalbítlalaginu. Hvers konar bull er það? Hey Jude er ekki einu sinni skemmtilegt lag og allt of langt þar að auki.
Innskot: Fyrir allmörgum árum var ég í panel á einhverri ráðstefnu á Akureyri. Einhver panelistinn fór að tala um frægan útlenskan leikara sem væri staddur á Íslandi. Hann mundi ekki í bili hvað leikarinn hét, en sagði: „Benedikt man hvað hann heitir“, örugglega alveg viss um að Benedikt hefði ekki hugmynd um neinn svona hipp og kúl gæja.
Þegar svo röðin kom að mér sagði ég: „Hann heitir Jude Law. Mundu, ef þú sérð hann, að kalla: Hey Jude!“
Er það lag þá fullrætt.
Í gærkvöldi var ég að búa til lagalista af bítlaplötunum. Ég var að hugsa um að velja besta lagið á hverri plötu, svona til þess að vera aðeins frumlegur, en lenti í vandræðum, því að mér fannst svo mörg skemmtileg lög á fyrstu plötunum að ég fylltist valkvíða.
Sagan byrjar eiginlega á því að ég sá á Youtube að einhver gaur var að velja hvaða lög hefðu verið á Hvíta albúminu ef það hefði bara verið ein plata. Ég ákvað að gera það líka, en bætti fljótlega við lögum af öðrum plötum, þannig að mitt albúm er líka tvöfalt.
Annað innskot: Meðan vínilplötur voru enn reglan héldu margir Íslendingar að album á ensku (a collection of recordings issued as a single item) ætti við umslagið utan um plötuna fremur en plötuna sjálfa, sem það gerir, en þarna voru þeir auðvitað undir áhrifum frá íslenska tökuorðinu albúm.
Í dag sá ég á FB að Guðmundur Andri Thorsson er búinn að stela þessari hugmynd frá mér. Hann og Gísli frændi minn Sigurðsson ætla að sjá Paul á tónleikum í haust eða vetur og Andri segir: „Af því tilefni ætla ég að birta hér á Fési smám saman lista sem ég gerði að gamni mínu fyrir nokkrum árum en nennti ekki að klára, yfir sextíu uppáhalds-bítlalögin mín.“
Það er auðvitað mjög ósvífið að hann skyldi vera búinn að stela hugmyndinni „fyrir nokkrum árum“ en ég ákvað að láta það ekki á mig fá og held áfram með mitt verkefni. Eftir miklar sálarkvalir tókst mér að skera uppáhaldslagalistann niður í 85. Samt sleppti ég mörgum lögum sem mér fannst ágæt einu sinni. Til dæmis er fyrsta bítlalagið mitt, She loves you ekki með og ég var lengi að velta því fyrir mér hvort Yesterday ætti að komast inn. Þau komast í hóp laga sem fljóta með fyrir neðan 60. sæti. All you need is love kemst heldur ekki með sem aukalag. Er svosem ekki mikið lag, þó að það hafi verið ágætt á sínum tíma.
Fyrst Andri er búinn að ryðjast fram á völlinn og boðaði í áðurnefndri færslu að hann myndi birta lög 60-50 síðar í dag ákvað ég að vera aðallega í tölfræðinni í dag. Í fyrsta lagi taldi ég frá hvaða árum þessi 85 lög væru.
Á myndinni sést að flest skemmtileg lög komu út árið 1965, en bæði Help! og Rubber Soul komu út það ár. Árið 1968 komu náttúrlega líka út mörg góð lög á fyrrnefndu Hvíta albúmi. Árið 1980 kemur inn vegna þess að Real love er sagt skrifað þá og það var á jaðrinum að telja það með. Afbragðs lag, en eiginlega bara demó-upptaka frá Lennon og alls ekki fullunnið.
Hin myndin sem ég ætla að kynna núna er með einkunnum laganna eftir árum. Ég valdi að setja árið sem þeir ná toppnum sem 100 og hin metin út frá því.
Þar sést að þeim fer fram allt til ársins ´66. Ég er reyndar ekki alveg viss um það, því að Revolver sem kom út það ár er afbragðsplata, en svona kom þetta út hjá mér. Þeir sömdu líklega flest flottu (og oft flóknu) lögin ´66 til ´68, en fyrstu árin voru þeir afar skemmtilegir og ferskir. Það er reyndar magnað að hljómsveit sem náði svona einstökum vinsældum á upphafsárum sínum gæti sent frá sér svona mörg glæsileg og metnaðarfull lög, þegar þeir hefðu eflaust getað haldið áfram að gera I want to hold your hand í mörgum útgáfum til æfiloka.
En hér koma sem sé mín lög frá 61. til 85. sæti í stafrófsröð. Vísa eindregið á lista á FB síðu Guðmundar Andra, sem ekki er kominn enn þegar þetta er skrifað, til samanburðar (en það er auðvitað minn sem gildir).
Heiti lags og útgáfuár
For You Blue 1969
Here Comes the Sun 1969
Here, There and Everywhere 1966
I’m Only Sleeping 1966
In My Life 1965
No Reply 1964
Oh! Darling 1969
One After 909 1969
P.S. I Love You 1962
Please Mr. Postman 1963
Roll Over Beethoven 1963
She Loves You 1963
She Said She Said 1966
Sun King 1969
Taxman 1966
The Word 1965
Tomorrow Never Knows 1966
Two of Us 1969
Wait 1965
What Goes On 1965
What You’re Doing 1964
When I’m Sixty-Four 1966
With a Little Help from My Friends 1967
Yer Blues 1968
Yesterday 1965
Birti svo efri sætin á mínum lista eftir hendinni næstu daga, annað hvort hér eða á FB.