Skoðanir annarra

Lífsviðhorf fólks mótast oft af því hvar það er statt. Ungt fólk hefur aðra afstöðu til lífsins en þeir sem teknir eru að reskjast, þeir sem hafa lítið milli handanna hafa annað sjónarhorn en hinir sem eru loðnir um lófana. Okkur hættir til þess að sjá allt undir okkar sjónarhorni og gera lítið úr skoðunum annarra. Ég ber enga virðingu fyrir skoðunum þeirra, sem telja að ákveðnir kynþættir séu annars flokks eða að eðlilegt sé að ákveðnar stéttir eða hópar njóti forréttinda og fríðinda umfram aðra. En ég vil gjarnan reyna að skilja hvers vegna fólk hugsar eins og það gerir.

Nýlega sá ég vitnað í endurminningar rússneska rithöfundarins Varlam Shalamov sem var í fangabúðum í Síberíu í fimmtán ár undir harðstjórn Stalíns. Sjónarhorn fangans er auðvitað annað en þeirra sem ganga frjálsir, en ályktanir hans vöktu mig til umhugsunar. Í lista yfir það sem honum varð ljóst í fangavistinni segir:

„Ég áttaði mig á því að reiðin getur viðhaldið lífsneistanum.

Mér varð ljóst að það getur haldið fólki á lífi að vera sama um allt.

Ég skildi hvers vegna fólk getur ekki lifað á voninni – það er engin von. Það getur heldur ekki lifað af á frjálsum vilja – hvaða frjálsi vilji er til? Fólk lifir á innsæi, tilfinningu fyrir því að halda sér á lífi, rétt eins og tré, steinn eða dýr.

Ég komst að því að maður á ekki að skipta mannkyninu upp í gott eða slæmt fólk heldur hugrakka og hugleysingja. Níutíu og fimm prósent hugleysingja geta orðið afar grimm, jafnvel banað öðrum, við vægustu hótun.“

Getum við dregið einhverjar ályktanir af sjónarhorni fangans í einræðisríki? Sjálfur hef ég séð hið prúðasta fólk taka stakkaskiptum í óvenjulegum aðstæðum. Í verkföllum eða mótmælum rennur æði á suma sem eru rólyndismenn frá degi til dags. Skelli á stríð magnast ofsinn eflaust.

Fyrir viku birtist skrautleg mynd í Morgunblaðinu af prúðbúnum kirkjunnar þjónum. Flestir hrifust af myndinni, en í umræðum um hana heyrði ég að margir sem telja sig víðsýna hafa lítið umburðarlyndi í garð kirkjunnar. Ég er ósammála því viðhorfi, þó að ég skilji efahyggju vel. Í bók eftir Englendinginn William Lord Watts sem skrifuð var árið 1876 um för hans  yfir Vatnajökul segir hann frá því er bóndi las húslestur á sunnudegi:

„Allt heimilisfólkið var saman komið og sat á rúmunum, vel til fara og prúðmannlegt. Það var sungið, lesið og beðin bæn.

Enginn getur efast um mildandi og sálbætandi áhrif fágaðra trúarbragða, hverju nafni sem þau nefnast, þegar þau eru ekki yfirskyggð af ofsatrú, og þetta ekki hvað síst við um þá, sem búa við fremur örðugt veraldargengi.“

Á þessa leið hugsa ég, þótt ég sé ekki trúrækinn maður. Geri trúarbrögð öðrum gott skulum við ekki gera lítið úr þeim, ef þau eru ekki yfirskyggð af ofsatrú.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.