Enginn veit hvað veitt hefur fyrr en misst hefur

Ég hef svolítið gaman af því að reyna að veiða fisk, eins ótrúlegt og það virðist og í raun tilgangslaust, því að nú þarf maður að sleppa mestallri veiðinni. Þar að auki finnst mér lax ekki spennandi matur, mér finnst ég eins geta borðað mold, sem mér hætti að finnast góð fyrir mörgum áratugum. Þannig að ekki er það drápseðlið eða sælkerinn innra með mér, kannski einhverjar sadistakenndir, því að nú gengur veiðin fyrst og fremst út á að pína laxinn og sleppa honum svo, þannig að hann geti reynt að jafna sig þangað til einhver annar tekur til við að pína hann.

Hvers vegna sem það nú er hef ég hæfilega gaman að veiðinni og mjög gaman í veiðitúrunum. Félagsskapurinn er alltaf skemmtilegur og gott að vera úti í náttúrunni.

Ekki alls fyrir löngu fórum við Vigdís á veiðar með vinafólki okkar, tvennum hjónum. Við komum að veiðihúsinu rétt fyrir klukkan þrjú. Hefðum ekið framhjá hefðu önnur hjónin  ekki staðið þar við bílinn sinn og nartað í flatköku. Þau sögðu okkur að enn væri fólk í húsinu, en voru ekki viss um hvort það væru þau sem ættu að hreinsa eða hollið á undan okkur.

Úr því leystist fljótlega, því að tveir bílar óku frá húsinu og í öðrum þeirra var kona sem ók áleiðis til okkar. Hún byrjaði á því að afsaka hve seint húsið væri tilbúið, en hópurinn á undan hefði brugðist hinn versti við þegar þau komu klukkan hálf tvö.

„Þau þrættu við okkur þó að ég gæti bent þeim á að í reglunum á veggnum væri skýrt tekið fram að allir ættu að vera farnir klukkan 13.30. Það er eins og þetta fólk sé ekki læst.“

Ég hugsaði með mér að maður yrði að kynna sér reglurnar mjög vel til þess að lenda ekki í svona skömmum. Svo gleymdi ég því auðvitað og leit ekki á þær allan tímann.

Kom nú að hálfri setningu um að við yrðum líklegast að fara úr húsinu um ellefu miðað við okkar venjulega rú og stú. (Reyndar talaði ég um umgengnina hjá félögum okkar, en í svona pistli á vefnum þarf maður að vera prúður og orðvar.)

Konunni stökk aðeins bros, en hún hélt áfram: „Þið getið ímyndað ykkur hvernig umgengnin er hjá svona fólki.“

Ég reyndi að ímynda mér það, en hún lét móðan mása:

„Næstsíðasti hópur veiddi 13 laxa, en þau veiddu ekki nema fimm. Það segir sína sögu.“

Við samsinntum því að þetta væri augljóslega vafasamt lið, en huguðum um leið að við yrðum að standa vaktina þannig að við veiddum fleiri en fimm fiska.

„Ef eitthvað kemur upp, þá hringið þið bara í einn af umsjónarmönnunum. Þið sjáið nöfnin þeirra á blaðinu með umgengnisreglunum. Reyndar þýðir ekki að hringja í Eirík, því að hann er norður í landi. Það er allt í lagi að hafa samband við Helga hvenær sem er, en ég man það núna að hann er kominn með nýtt símanúmer. Svo þið hafið þá samband við Gísla, nema …“

Hún brenndi burtu.

Hinir félagar okkar komu nánast á sömu stundu og við sögðum þeim frá þessu mikilvæga samtali. Þau komu af fjöllum því þau höfðu einmitt hitt þá sem á undan voru, fjölskyldufólk sem hafði borið af sér mjög góðan þokka.

Upp úr hálf fimm var ég kominn út að á. Staðurinn hefði getað heitað símastrengur, því að lína liggur yfir ána, einmitt þar sem best er að veiða. Ég hugsaði með mér eftir 2-3 köst að þetta væri ósköp leiðinlegt, en einmitt þá kom fiskur á.

Þessi veiðmennska er auðvelt sport hugsaði ég með mér.

Líflegur, en ekki mjög stór. Ég sá fljótlega að erfitt yrði að landa honum þarna, en Vigdís var hvergi sjáanleg og gat því ekki aðstoðað mig, þannig að ég reyndi að finna stað sem væri vænlegur. Eftir um 10 mínútur var laxinn orðinn svo þreyttur að ég dró hann að landi, kom honum inn í svolitla skor þar sem hann lá á steini.

Létt og löðurmannlegt.

Við það losnaði út úr fiskinum flugan og hann hentist út í aftur. Ég stífnaði upp, hljóp samt að bakkanum og sá að hann var rétt við hann, slæmdi hendinni í ána eftir honum, en hann synti á brott.

Það er auðveldara að sleppa en landa eins og máltækið segir.

Meira veiddi ég ekki.

Daginn eftir fórum við aftur í sama hylinn og allt fór á sömu lund, nema í þetta sinn kom ég fisknum ekki að landi, hélt honum kannski í tvær mínútur. Fékk svo eitt högg enn (það þýðir að laxinn kippti í færið), allt á sama stað undir símalínunni.

Sögulegast var þó að Vigdís hafði farið aðeins á undan mér að ánni til þess að taka fyrstu yfirferð. Ég var eftir við veiðihúsið að gera mig og veiðarfærin klár.

Loks var ég búinn að festa fluguna á og rölti að ánni, en hélt mig þó vel frá til þess að styggja ekki laxinn. Sé þó að eiginkonan stendur úti í ánni og veifar til mín. Fyrst hélt ég að hún væri kominn með fisk á og veifaði til baka, en sá þá að hún benti mér að koma. Vegna þess að hún hélt hendinni út, hélt ég að hún væri að benda mér á bakkann, þar sem kannski lægi fiskur.

Þegar ég kom nær sá ég að ekkert af þessu var rétt. Vigdís var um það bil tvo metra úti í ánni, við stóran stein, handan við býsna straumharðan ál. Ég dáðist innra með mér að því hve köld hún væri að fara svona langt út. Þegar ég kom nær skildi ég loks hvað allar bendingarnar þýddu.

Vigdís hafði einhvern veginn farið svo langt út að hún komst ekki til baka, Sagðist hafa runnið á steini út að þessum stóra hnullungi. Ég byrjaði að leggja henni lífsreglurnar:

„Það er ekki skynsamlegt að hætta sér of langt frá bakkanum. Veiðistöngin er til þess að maður nái til fiskanna af bakkanum.“

V: „Ég sá hann stökkva hér út af, rétt aðeins lengra en ég gat kastað.“

B: „Og ætlaðir þú að synda á eftir laxinum?“

Við þessu kom ekkert svar svo ég bætti heimspekilega við:

„Það eru margir laxar, en bara eitt líf sem maður á.“

Það er örugglega ekki gaman að vera kominn í sjálfheldu út í straumharðri á, en ekki skánar það þegar maður þarf þar að auki að hlusta á langan fyrirlestur frá sjálfumglöðum besserwisser.

„Réttu mér höndina svo ég komist í land.“

Ég heyrði á hljómfallinu að fleiri ráð frá mér væru að bera í bakkafullan lækinn (í bókstaflegri merkingu, því áin flóði vel yfir bakka sína í sumarrigningunum miklu.

Mér leist ekki nema mátulega vel á elfina, en hætti mér samt spönn frá bakkanum, afar varlega og reyndi að skorða mig sem fastast. Rétti svo fram handlegginn, en það var eins og við manninn mælt, þetta var aðeins of stutt og ég varð að fara feti framar eins og Spartverjinn í gamla daga.

Loks gat Vigdís gripið í mig, en vegna þess að hún hélt á veiðistönginni í hinni hendinni var þetta ekki alveg eins lipurt stökk og það hefði getað verið. Hún hrasaði, en blotnaði ekki til vandræða, enda í vöðlum. Ég dró hana svo að landi, einmitt á sama stað og ég landaði laxinum daginn áður.

Í þetta sinn tókst betur til. Ég hélt svo fast í hana og vippaði henni upp á bakkann svo engin hætta var á að hún slyppi út í aftur. Maður á ekki að sleppa þeim bestu.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.