Hugsjónir eða flokkur?

Gaman væri að vita um hvað stjórnmálin snúast í hugum fólks almennt. Sumir telja að völd séu meginatriði. Þeir hafa völd sem geta tekið ákvörðun sem aðrir verða að hlýða. Þannig hefur Alþingi sameiginlega lagasetningarvald. Þingmaður hefur ekki mikil völd, einn og sér, en hann getur haft áhrif.

Jafnvel ráðherrar hafa ekkert sérlega mikil völd hér á landi. „Ég man fyrst þegar ég kom hér úr starfi borgarstjóra þá fannst mér ég vera mjög valdalítill kall og hissa á þessu starfi“, sagði Davíð Oddsson um embætti forsætisráðherra í viðtali árið 2003. Í framhaldi af því er rétt að minna á hin frægu ummæli olíujöfursins JR í Dallas-sjónvarpsþáttunum forðum daga: Power is not what you are given. Power is what you take.

Sumir hugsa sér gott til glóðarinnar að komast „að kjötkötlunum“. Ná fé eða gæðum til vinveittra. Dæmi gætu verið lækkun gjalda á sína vildarvini. Flestar stöðuveitingar eru nú orðið háðar skilyrðum og eftirliti, til dæmis um mat ráðningarstofa eða nefnda sem velja úr umsækjendum. Stjórnmálamenn hafa oft áhrif, en geta sjaldnast tekið ákvörðun einir, þó að fræg dæmi séu slíkt hér á landi. Erlendis eru mörg dæmi um einstaklinga sem geta tekið ákvarðanir upp á líf og dauða þegnanna.

Hjá flestum skiptir stefnan máli, en þegar inn í flokkinn er komið sitja margir þar fastir meðan flokkurinn heldur sama nafni, jafnvel þó að hann skipti um stefnu í meginmálum. Gamall félagi minn úr menntaskóla, Skafti Harðarson, hefur verið í Sjálfstæðisflokknum frá blautu barnsbeini. Nú bauð hann fram F-listann á Seltjarnarnesi. Á kjördag setti hann færslu á Facebook:

„Búinn að kjósa. Í fyrsta sinn var það ekki merkt við D. Við vorum hópur sem ákvað að standa frekar með hugsjónum en flokki. Og það hefur verið gaman að vinna að framgangi F-listans á Seltjarnarnesi. Og jafnframt mikil léttir að þurfa ekki að strika yfir flesta efstu menn á lista eins og ég hef gert í síðustu kosningum í þeim tilgangi að friða samviskuna. … Það er dapurt að horfa upp á góða félaga, sem hafa sömu skoðanir og ég, tala sér þvert um geð og starfa að framgangi fólks sem ekki stendur fyrir hugsjónir þeirra og skoðanir; allt í nafni flokks. Margir höfðu samband við mig til að telja mér hughvarf, og sumir sem ég ber mikla virðingu fyrir, en hversu margir skyldu hafa haft samband við forystumenn flokksins á Nesinu og spurt á hvaða vegferð þeir væru eiginlega?“

Í svari við stuttri athugasemd minni sagði Skafti: „[L]íklega eru landsfundaályktanir Sjálfstæðisflokksins ekki fjarri mínum hugsjónum. En þær eru auðvitað bara til skrauts. Held að við þurfum að fara að kjósa einstaklinga, ekki flokka.“

Skrif Skafta vekja upp spurningu: Eiga flokkar og hugsjónir ekki samleið lengur, nema til skrauts?

Birtist í Morgunblaðinu 13. júní 2018.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.