Í bók sinni um síðustu daga Nixons í Hvíta húsinu sögðu þeir Woodward og Berstein, blaðamennirnir knáu hjá Washington Post, sem héldu Watergate hneykslinu á lífi, frá því hversu einkennilegur og jafnvel brjóstumkennanlega vitlaus forsetinn var. Hann talaði við málverk af fyrirrennurum sínum á göngum hússins, bað Kissenger utanríkisráðherra að biðjast fyrir með sér og – toppurinn á öllu – það sáust tannaför á meðalastauknum hans. Hann gat ekki einu sinni opnað meðalaglös með barnalæsingu.
Allir hlógu að þessum heimska forseta. Nema ég.
Allt er gert til þess að börn og aðrir minni máttar fari sér ekki á voða með lyfjum. Þar með talinn ég. Ég get fúslega viðurkennt að auðvitað þarf að passa að fólk taki ekki óvart of stóran lyfjaskammt og þess vegna eru settar alls kyns barnalæsingar.
Ég ræð við að taka af beltið sem oft er sett utan um lokið. En ég reikna með að það myndi heldur ekki veitast þriggja ára barni ofviða. En stundum þarfa að ýta á lokið eða toga í það og hitta svo einmitt á réttan stað til þess að staukurinn opinst. Ég veit aldrei hvort á að gera og verð annað hvort að horfa á staukinn dögum saman harðlæstan og vona að mér batni án þess að taka pillurnar, eða kalla á Vigdísi. Hún virðist yfirleitt bara þurfa að horfa á glösin, smella fingri, og lokið flýgur af.
Í nótt fékk ég krampa í lærið og eftir skelfilega andvöku gerði ég eins og allir ábyrgir borgarar. Fór á netið og gúglaði krampa í læri. Skýringarnar voru ekki upp á marga fiska. Flestar voru eitthvað á þessa leið: „Bíddu í nokkra daga og ef verkurinn hverfur ekki hafðu þá samband við lækni.“ Svo birtust gúgúl auglýsingar frá sjúkraþjálfurum og útfararstofum.
Einhvers staðar sýndist mér ég þó sjá að gott væri að taka inn magnesíum. 250 grömm að morgni og 500 grömm að kvöldi. Voru það kannski milligrömm eða kílógrömm? Af því að ég má ekki vera að því að eyða nóttunum í krampa ákvað ég að fylgja þessu ráði. (Ég er atvinnulaus og hef nægan tíma í slíkt á daginn, en þá finn ég ekki fyrir neinu).
Kannski er magnesíum til út um allt, en ég ákvað að fara í apótek. Þar kaupi ég öll mín vítamín. Magnesíum er reyndar ekki vítamín, en af þeim ættbálki. Þegar ég kom inn sá ég auglýsingu á hurðinni: Kynningarafsláttur upp á 20% af alls kyns vítamínum, kalki og sinki. Nema hvað, einn staukurinn var einmitt magnesíum. Auðvitað veit ég ekkert hvað magnesíum á að kosta, en það hlýtur að vera betra með 20% afslætti. My lucky day.
Innskot: Vinur minn einn segir mér að hann viti hvaða kúnnar reyna alltaf að prútta og þess vegna byrjar hann á að leggja 50% aukalega á þegar þeir spyrja um verðið. Svo verða þeir himinlifandi þegar hann fellst með semingi á 15% afslátt. Allir græða – hann talsvert meira en kúnninn. Ég er samt ekki viss um að apótekarinn hafi átt von á þessum magnesíuminnkaupum mínum í dag.
Og þó. Þegar ég kom að frjörefna- og fæðubótarefnahillunni fann ég öll efnin sem voru með afslættinum góða frá þessu fyrirtæki – nema magnesíum. Það var sama hvað ég leitaði oft, allt var til nema magnesíum. Ef ég gerði mér magnesíum með kalki að góðu þá var það til, en gúgúll hafði ekkert minnst á kalk, svo að ég snerti ekki á því.
Sem betur fer var annar framleiðandi með fullan bauk af magnesíum fyrir mig og ég gekk hróðugur að afgreiðsluborðinu með feng minn. Konan spurði hvort ég vildi fleira, en það vildi ég ekki, sem voru mistök, ég hefði einmitt þurft Íbúfen, en því gleymdi ég í magnesíumvímunni.
Annað innskot: Fólkið í þessu apóteki heldur að ég sé svolítið skrítinn vegna þess að í fyrrasumar fékk ég afgreiddan skammt af lyfi sem hefði ekki verið í frásögur færandi, nema að eftir mánuð var skammturinn búinn. Ég lét það ekki á mig fá, skokkaði glaður í apótekið aftur og sagðist þurfa næsta skammt.
Sérfræðingurinn fór í tölvuna og eftir að hafa spurt mig hvað lyfið héti, sem ég auðvitað mundi ekki, spurði hann hvort ég myndi þekkja nafnið ef hann nefndi það. Ég taldi það mögulegt.
Svo nefndi hann eitthvað nafn, xzcyproxquin eða álíka, og ég hváði.
Aftur nefndi hann xzcyproxquin og ég sagðist alls ekki vera viss.
„Það er eina lyfið fyrir þig sem er í tölvunni“, sagði hann þá og gerði sig alls ekki líklegan til þess að afgreiða það.
„Þá er það líklega rétt“, sagði ég. Og til þess að virðast vera alveg viss sagði ég, eins og við sjálfan mig: „Zyprfpoxrqsíð, hvernig gat ég gleymt því, ég sem tek það á hverjum morgni.“
„Xzcyproxquin, segir tölvan“ sagði sérfræðingurinn og stökk ekki bros. Hreyfði sig ekki.
„Já“, sagði ég og hætti að þykjast vita eitthvað. „Get ég fengið viðbótarskammt af því?“
„Nei.“
„Ha?“
„Nei.“ Andlit afgreiðslumannsins var svipbrigðalaust. Ef honum verður sagt upp í apótekinu getur hann eflaust orðið útfararstjóri, ef hann kaupir sér kjólföt.
Mér þótti auðvitað fyrir því að hafa ekki borið heitið rétt fram, en dró fram skilríki til þess að sanna að ég væri ég, samtímis því sem ég skýrði að þetta lyf þyrfti ég að taka daglega að læknisráði, einmitt ráði sama læknisins og hefði ávísað lyfinu.
„Það veit ég ekkert um.“ En svo sá hann að ég var farinn að taka þetta mál nærri mér svo hann aumkvaði sig yfir mig og sagði: „Líklega hefur hann sagt það við þig.“
Mér jókst bjartsýni við þetta og sagði: „Þannig að ég fæ næsta skammt?“
„Nei.“
Nú átti ég engin ráð önnur en að beita hótunum: „Ég verð þá að fara í annað apótek.“
„Það er velkomið, en þú færð ekkert þar heldur.“
Hefur Actavis enn klikkað, hugsaði ég, en nú brá svo við að afgreiðslumaðurinn ákvað að eigin frumkvæði að skýra málið.
„Hér stendur að þú eigir að taka lyfið daglega og fáir 30 töflur á þriggja mánaða fresti.“
Ég reyndi að beita sjarmanum: „Þú sérð að það gengur alls ekki upp. Hann hefur meint 90 töflur á þriggja mánaða fresti. Þú leiðréttir það bara.“
„Ég veit ekkert hvað hann hefur meint. Ég afgreiði það sem hann segir að þú eigir að fá.“
Ég sá að rökfræði og lyfjafræði eiga ekki samleið og gafst upp. Kannski var ég heppinn að læknirinn hafði ekki óvart skrifað 3.000 töflur. Ég hefði fengið það sem hann bað um.
Nú er innskotinu lokið, en konan sem afgreiddi mig í dag hafði greinilega heyrt þessa sögu og spurði aftur: „Vantar þig örugglega ekkert fleira?“
„Magnesíum er málið“ sagði ég eins og ég tæki aldrei aðrar pillur.
Heima opnaði ég strax pokann og allt stóð heima. Fullur staukur af magnesíum pillum, ekki með kalki. Mér tókst eins og ekkert væri að taka plastbeltið af lokinu, en fyrir neðan var kringlótt hlíf og á henni miðri flipi sem maður á að toga í til þess að opna glasið. Ég greip í hann, þéttingsfast. Hélt svo neðri hlutanum í vinstri hendi eins og í skrúfstykki og togaði af lífs og sálarkröftum í flipann. Auðvitað gerðist ekkert. Þetta endurtók ég fimm sinnum.
Nú voru góð ráð dýr. Ég átti þrjá kosti.
- Bíða eftir að barnabörnin komi næst í heimsókn
- Sökkva tönnunum í plastið og eiga á hættu að blaðamenn við Stundina geri grín að mér
- Beita hugviti
Þriðji kosturinn varð ofan á. Ég greip stóreflis sveðju sem við notum til þess að brytja niður lambakjöt. Eggvopnið mundaði ég svo eins og hótelhaldarinn geðþekki í Psycho – Hitchcock myndinni góðkunnu. Að lokum tókst mér að ná nokkurn veginn allri hlífinni af án þess að mikið sæi á stauknum.
Svo hugsaði ég: Líklega þarf ég að vita aðeins meira um magnesíum áður en ég fer að maula það kvölds og morgna.
Gúgúll boðaði mér mikinn fögnuð: „Magnesíum er lífsnauðsynlegur efnahvati í virkni ensíma, sérstaklega þeirra sem vinna að orkuframleiðslu. Það hjálpar líka til við upptöku kalks og kalíums. Skortur á magnesíum hefur áhrif á flutning tauga- og vöðvaboða, veldur depurð og taugaveiklun.
Sé magnesíum bætt við mataræði getur það unnið gegn þunglyndi, svima, slappleika í vöðvum, vöðvakippum og fyrirtíðarspennu. Auk þess sem það hjálpar til við að viðhalda eðlilegu sýrustigi líkamans og líkamshita.
Þetta mikilvæga steinefni verndar veggi slagæða gegn álagi þegar skyndilegar breytingar á blóðþrýstingi verða. Það skipar stórt hlutverk í myndun beina og í efnaskiptum kolvetnis og vítamína/steinefna.
Mögulegar birtingarmyndir á magnesíumskorti eru ruglingur, svefnleysi, depurð, slök melting, hraður hjartsláttur, flog og æðisköst. Oft veldur magnesíumskortur svipuðum einkennum og sykursýki.“
Þegar ég las þetta fannst mér þetta allt vera einkenni sem ég kannaðist vel við og hugsaði með mér að ég hefði verið heppinn að halda heilsu þó þetta lengi.
Ég setti fingur í krúsina og dró upp eina töflu. Ég ákvað að taka morgunskammtinn þó að klukkan væri orðin fimm eftir hádegi.
Aðeins til öryggis leit ég á miðann einu sinni enn. Now Magnesium Citrate 200 mg töflur. Töflurnar eru stórar og feitar, en ég lét mig hafa það.
Í því að ég kyngdi hugsaði ég: Ég átti að taka 250 milligrömm að morgni. Mig vantar sem sé 50 mg.
Ég tölti af stað út í búð til þess að kaupa mér vigt.