Heiðursbræður

Í nýliðinni viku hljóp á snærið hjá okkur bræðrum tveimur, Tómasi og mér. Tómas var útnefndur heiðursfélagi í Læknafélagi Íslands og ég fékk Uppreisnarverðlaunin.

Mér tókst ekki að finna neinar upplýsingar á netinu um heiðursfélaga  Læknafélagsins, en Tómas mun hafa fengið verðlaunin fyrir störf í þágu þess að siðareglna væri gætt, ef ég skil þetta rétt. Ég hugsa að mamma hefði getað sér þess til að þetta yrði svona, ég fengi varla viðurkenningu frá viðurkenndum félagsskap á 100 ára afmæli. Uppreisnarverðlaunin væru miklu líklegri til mín. Tómas var hvíti sauðurinn og ég sá svarti.

Ég fékk reyndar einu sinni í Menntaskólanum verðlaun fyrir „iðni, siðprýði og framfarir“ en rektor taldi rétt að geta þess að verðlaunin hétu þetta frá fornu fari í því að hann afhenti mér viðurkenninguna.

Uppreisnarverðlaunin er veitt af Uppreisn, ungliðahreyfingu Viðreisnar. Í kynningu frá þeim segir:

„Uppreisnarverðlaunin voru veitt í fyrsta skipti, til viðurkenningar á markverðu og óeigingjörnu starfi í þágu frjálslyndis og almannahagsmuna. Uppreisn veitir verðlaunin sem þakklætisvott í garð þeirra sem skarað hafa fram úr á framangreindum sviðum.

Verðlaunin eru veitt í tvennu lagi. Annars vegar til einstaklings og hins vegar til hóps. Handhafi einstaklingsverðlaunanna 2018 er Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi fjármálaráðherra. Að mati stjórnar Uppreisnar lyfti Benedikt grettistaki þegar hann stofnaði stjórnmálaflokk, sem hvort tveggja var byggður á grundvelli frjálslyndrar hugsjónar og hafði „almannahagsmuni framar sérhagsmunum“ að einkennisorðum.

Hópurinn sem veitt voru Uppreisnarverðlaunin 2018 var Frú Ragnheiður – Skaðaminnkun. Frú Ragnheiður hefur með starfi sínu bjargað mannslífum, aukið öryggi fólks sem notar vímuefni í æð og staðið að fræðslu um jaðarsetta hópa. Svala Jóhannesdóttir, verkefnastjóri Frú Ragnheiðar, tók á móti verðlaununum fyrir hönd verkefnisins. Hún vinnur, ásamt hópi sjálfboðaliða, að hinu mikilvæga lýðheilsustarfi sem Frú Ragnheiður sinnir.

Stjórn Uppreisnar vonar að verðlaunin muni hvetja fólk til frekari dáða í frjálslyndum málum í þágu almannahagsmuna.“

Þetta þótti mér ósköp vænt um og mér hefur reyndar alltaf þótt mjög mikilvægt að innan Viðreisnar starfar vaxandi hópur af frjálslyndu, ungu fólki. Frelsið vinnur aldrei nema ungt fólk berjist fyrir því og að  þeir sem eldri eru verði trúir sínum hugsjónum. Við í Viðreisn setjum almannahagsmuni framar sérhagsmunum og hugsjónir umfram eigin hag.

Sem sagt stóðum við bræður okkur nokkuð vel í vikunni sem leið. Mamma hefði verið ánægð með okkur.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.