Eftir hrunið var þjóðin í fyrstu slegin, agndofa og miður sín. Í sálfræðinni eru til viðmið um hvernig fólk hegðar sér eftir áfall. Sorg, afneitun og reiði eru áfangar á þeirri leið að sætta sig við orðinn hlut. Enginn getur álasað þeim sem að ósekju urðu fyrir barðinu á kreppunni miklu, þeim sem trúað höfðu fagurgala um að allt væri í himnalagi og að bestu synir þjóðarinnar hefðu leitt hana til velsældar. Þó að einhverjir hafi haft uppi varnaðarorð gat engum dottið í hug hvað í vændum væri.
Vandinn er hins vegar ekki endilega að saklaus fórnarlömb reiðist eða vilji ekki horfast í augu við hvað gerst hefur. Miklu fremur er ástæða til þess að hafa áhyggjur af því þegar þeir sem leiða þjóðina í eiginlegri eða óeiginlegri merkingu vaða fram með ómálefnalegum hætti og dreifa ósannindum, tortryggni og hatri þegar þörf er á heiðarleika, sátt og samstöðu. Sagt hefur verið að vandi samfélaga felist ekki í því að slæmir menn geri vonda hluti. Vandinn felst í því að gott fólk situr hjá og lætur illsku, reiði og lygi yfir sig ganga.
Alltof lengi var þjóðfélagið í fjötrum þöggunar. Annars vegar vegna þess að fjölmiðlar vildu ekki sjá það sem amaði að og hins vegar vegna offors stjórnmálamanna sem einir þóttust vita og mega vita. Eftir hrun sögðust allir vilja nýja tíma. Nýir tímar hafa nú runnið upp og eru verri en þeir sem fyrir voru. Umræða í þjóðfélaginu er mikil en rökræða er lítil. Fylkingar berjast af heift og almenningur veit ekki hvaðan á sig stendur veðrið.
Stjórnmálamenn og einkum foringjar flokkanna hafa ekki verið til fyrirmyndar í umræðunni. Forystumenn í atvinnulífinu hafa ekki tekið forystu í þjóðlífinu. Skynsamt fólk hrökklast frá umræðunni og gasprarar taka frumkvæðið. Einmitt núna er nauðsynlegt að snúa af þessari ógæfubraut og snúa þjóðfélagsumræðunni aftur inn á vitrænar slóðir. Stefnuleysið sem ríkt hefur frá hruninu hefur þegar kostað miklar tafir á endurreisninni. Verði ekki þegar snúið aftur frá höftum og miðstýringu og á braut frjálsræðis dregst Ísland sífellt meira aftur úr nágrannaþjóðum á næstu árum og áratugum.
Engin leið er að þjóðin komist nokkru sinni út úr kreppunni nema atvinnulífið nái sér á strik. Með lokuðu hagkerfi, vanmáttugum gjaldmiðli og háum vöxtum búa íslensk fyrirtæki við mun lakari aðstæður en þau fyrirtæki sem þau keppa við á erlendum vettvangi. Það er ekki tilviljun að sum af stærstu fyrirtækjum landsins eru um þessar mundir að færa sig um set. Stórfyrirtæki hafa fært aðalskrifstofur sínar til útlanda. Byggðastefnan snýst ekki lengur um að halda byggð á Raufarhöfn heldur á Íslandi. Það gerist ekki nema hér séu sterk fyrirtæki í stöðugu og hagstæðu rekstrarumhverfi.
Þetta er niðurlag á greininni Endurreisn Íslands sem birtist í Tímariti um viðskipti og efnahagsmál, 7. árg. 2. tbl. árið 2010.