Forsetakosningarnar núna endurspegla muninn á stjórnmálum framtíðar og fortíðar. Yfirveguð og málefnaleg umræða tekst á við kjánalegan yfirgang úr forneskju. Ég sé að stuðningsmenn Davíðs segja sigri hrósandi að þeirra maður hafi nú talað beint til þjóðarinnar. Nær lagi væri að segja að Davíð hefði gefið þjóðinni á kjaftinn og telji að hann eigi að fá forsetaembættið að launum.
Ég heyri að sumir eru reiðir, en flestir eru leiðir.
Margir hafa aldrei þolað Davíð, en ég er ekki einn þeirra. Ég man þegar hann var nýtekinn við sem forsætisráðherra hvað ég var hrifinn þegar hann vildi loka sjóðum sem stjórnmálamenn höfðu notað til þess að hygla sínum mönnum. Ég var aldrei í hans innsta hring, en hef þó fylgst með því í návígi hve fyndinn og sjarmerandi hann getur verið, en líka sett fram djúpar pælingar um málefni líðandi stundar. Hann hefði getað hætt í stjórnmálum og orðið „elder statesman“ sem hefði komið fram með vísdómsorð þegar þjóðin hefði þurft á að halda.
Þess í stað valdi hann að setjast í Seðlabankann þar sem hann var augljóslega ekki á réttri hillu. Allir sem muna dagana kringum hrunið sáu að hann fór á taugum, sem kallað er. Rússneska lánið og fastgengisstefnan, þegar krónan var í frjálsu falli, voru eitt, áformuð kaup á Glitni og lánið til Kaupþings, annað. Seðlabankinn tapaði hundruðum milljarða króna og var tæknilega gjaldþrota haustið 2008. En jafnvel á þeim tíma var ekki of seint að hætta og snúa sér að því að skrifa smásögur eða bækur.
Þess í stað ákvað Davíð að taka við Morgunblaðinu. Ég hélt í barnaskap mínum að hann myndi nýta hæfileika sína til þess að skapa úrvalsblað, rétt eins og sagt er að Bjarni Benediktsson eldri hafi gert á sínum tíma. En þvert á móti. Á blaðinu hefur hann markvisst grafið undan eigin arfleifð með orðfæri og stíl sem síst eru sæmandi fyrrverandi þjóðarleiðtoga.
Þeir sem vel þekkja Davíð hafa lengi verið sannfærðir um að hann ætlaði að bjóða sig fram til forseta í vor eins og nú er orðin raunin. Hann hélt í raun að sér tækist að flykkja þjóðinni að baki sér. Það er erfitt að hafa bara viðhlæjendur í innsta hring. Enginn þorir að segja keisaranum að hann standi allsber. En þrátt fyrir allt sem áður hafði gerst hélt ég að Davíð gæti fengið talsvert fylgi með því að sýna sjarmann, vera glaður og keikur og birta nýja sýn á embættið. Líklega hef ég allt of mikla trú á mannkyninu.
Mér þykir vænt um marga stuðningsmenn Davíðs, en framkoma þeirra sumra að undanförnu er bæði barnaleg og ruddaleg. Þeir fagna þegar venjulegt fólk roðnar og lítur undan.
Börn skammast sín fyrir foreldra sína, ef þeir veltast um ofurölvi og hafa í heitingum við nágrannana. Þannig líður obba þjóðarinnar eftir Eyjuþátt Davíðs. Skaðinn er skeður, en er ekki hægt að hlífa okkur við frekari ósköpum?