Þegar Íslendingar senda þjóðarleiðtoga á alþjóðlega fundi skiptir miklu máli að senda vana menn sem vita hvernig tala á um og við kollegana. Þann 8. desember árið 2011 sagði í leiðara Morgunblaðsins:
„Leiðtogafundur Evrópusambandsins var haldinn í frönsku forsetahöllinni fyrir fáeinum dögum. Leiðtogafundurinn heppnaðist vel og fór ágætlega fram. Tveir af leiðtogunum 27 voru mættir og það er til marks um eindrægnina á fundinum að þeir tóku ekki eftir því að allir litlu leiðtogarnir voru hvergi sjáanlegir. …
Ef afgangsstærðin mætir á aukafundinn til að vera með á myndinni mun hún verða þakklát og undirleit og minna á þá ljúfu stund þegar dvergarnir 7 horfðu upp á Mjallhvít skammta þeim í skálina. …
Fyrst sá mæti maður Geir Jón er að hætta í lögreglunni væri þá ekki hægt að ráða hann til að fara fyrir Íslands hönd á svona fundi og vera á myndinni? Á meðan ljósmyndarar væru að stilla sér upp myndi Geir Jón stilla sér upp við hliðina á Sarkozy eins og hann stillti sér upp við hliðina á litlu óeirðaseggjunum á Austurvelli.
Það er þó ekki alveg víst að Sarkel [Skýring: Gott grín. Sarkozy+Merkel] einræðisherra ESB fengi forystufiðringinn í magann þegar sú mynd kæmi úr framköllun. Ísland gæti með þessari aðferð ekki aðeins kíkt í pakkann og skoðað í skóinn, heldur beinlínis verið inni í myndinni.“
Talið er að leiðarahöfundur sé þaulvanur slíkum „dvergafundum“ og væntanlega mjög hávaxinn maður.
Þremur dögum síðar sagði í Reykjavíkurbréfi: „Hinu fræga og evruvæna „Der Spiegel“ kom þó jafnvel á óvart hve hratt og vandræðalaust evruþjóðirnar hefðu kyngt þeirri stöppu sem Sarkel, tvíhöfða einræðisherra svæðisins, hafði útbúið fyrir þær á hinum raunverulega leiðtogafundi, þar sem Sarkel ræddist einn við. Litlu leiðtogunum var meira að segja sagt að hókuspókusar í Brussel hefðu með galdri tryggt að leiðtogar þjóðanna, sem fastar eru í evrunni, mættu óstuddir, nema hver af öðrum, svipta þjóðir sínar verulegu sjálfstæði, án þess að spyrja nokkurn mann um það heima hjá sér.“
Síðar segir í bréfinu: „Er hryllilegur endir verri kostur en endalaus hryllingur?“ bj