Guðni velgir Ólafi undir uggum

Í könnun Frjálsrar verslunar um fylgi við forsetaframbjóðendur dagana 26.4. til 1.5. var spurt þriggja spurninga:

Ef valið stæði á milli Ólafs Ragnars Grímssonar og Guðna Th. Jóhannessonar í forsetakosningunum, hvorn myndir þú kjósa?

Næst var spurt: Hvað ef valið stæði milli þeirra tveggja og Andra Snæs Magnasonar?

Loks var spurt hvern þátttakendur vildu sem forseta ef þeir mættu nefna hvaða Íslending sem vera skal.

Niðurstöðurnar sýna sterka stöðu Ólafs Ragnars Grímssonar miðað við flesta frambjóðendur, en þegar valið stóð á milli Guðna Th. og Ólafs var mjótt á munum. Svo fór að Guðni Th. fékk meira fylgi eða 44,5% á móti 42,5% hjá Ólafi Ragnari. Óvissa (95% óvissubil) er +/-4,6% og niðurstaðan er því tölfræðilegt jafntefli. Ef aðeins er tekið tillit til þeirra sem afstöðu tóku var niðurstaðan:

Guðni Th. Jóhannesson 51,1%

Ólafur Ragnar Grímsson 48,9%

Ef rýnt er í bakgrunn svarenda sést að Guðni hefur meira fylgi á suðvesturhorninu (48% gegn 39%) meðan Ólafur nýtur meira fylgis á landsbyggðinni (47% gegn 41%). Ólafur hefur meira fylgi meðal karla (47% gegn 41%), en Guðni meðal kvenna (48% gegn 39%). Ekki var marktækur munur eftir aldri nema að Ólafur hafði meira fylgi meðal fólks yfir sjötugt (63% gegn 32%).

Þegar rýnt var í stjórnmálaskoðanir svarenda sést að Ólafur Ragnar hefur sterkan stuðning meðal ríkisstjórnarflokkanna. Um 72% stuðningsmanna Framsóknarflokks styður hann og 53% sjálfstæðismanna. Stuðningur við Guðna kemur úr röðum hinna flokkanna. Um 53% pírata segjast vilja kjósa hann, 67% samfylkingarmanna og 74% stuðningsmanna VG.

Andri tekur fylgi af Guðna

Næst var spurt hvernig menn myndu kjósa ef frambjóðendur væru þrír, þeir Andri Snær, Guðni og Ólafur Ragnar. Þá kom í ljós að fylgi Ólafs hélst nær óbreytt eða í 41,3%, Guðni lækkar í 33,9% og Andri Snær fær 11,6%. Rúmlega 13% sögðust óviss eða engan þessara vilja. Ef aðeins er tekið tillit til þeirra sem afstöðu tóku var niðurstaðan:

Andri Snær Magnason 13,4%

Guðni Th. Jóhannesson 39,0%

Ólafur Ragnar Grímsson 47,6%

Mest fylgi fær Andri Snær frá stuðningsmönnum pírata og VG eða um 30% frá hvorum um sig.

Athygli vekur að enginn framsóknarmaður lýsir yfir stuðningi við Andra Snæ. Fylgi Guðna minnkar meðal stuðningsmanna þessara tveggja flokka og reyndar styrkir Ólafur Ragnar sig meðal sjálfstæðismanna ef frambjóðendur eru þrír. Ólafur fær um helming stuðnings þeirra sem engan flokk ætla að kjósa og um þriðjung þeirra sem eru óvissir um flokk.

Stuðningur breytist við opið val

Loks var spurt hver niðurstaðan væri ef menn mættu nefna hvaða Íslending sem vera skal. Athygli vekur að fleiri voru óvissir eða vildu ekki svara þegar spurningin var orðuð með þessum hætti eða um 26%. Niðurstöður eru sýndar í þessari frétt, en þá minnkar fylgi Ólafs talsvert.

Ef miðað er við heildina eru niðurstöður þannig að Ólafur fær stuðning 24%, Guðni um 20%, Katrín Jakobsdóttir (sem hefur lýst því yfir að hún ætli ekki að bjóða sig fram) 6% og Andri Snær 4%. Sé aðeins tekið tillit til þeirra sem afstöðu tóku er niðurstaðan:

Andri Snær Magnason 5,8%

Guðni Th. Jóhannesson 27,0%

Katrín Jakobsdóttir 7,9%

Ólafur Ragnar Grímsson 32,4%

Aðrir minna.

Þessar tölur sýna að fylgið er mjög mismunandi eftir því hverjir eru í boði, en segja má að í opnu spurningunni hafi fylgi annarra verið hverfandi lítið.

Mjög miklu máli skiptir hverjir eru í framboði. Fylgi allra minnkar þegar fleiri kostir eru í boði, en fylgi Andra Snæs þó mest. Einnig vekur athygli að bilið minnkar milli Ólafs Ragnars og Guðna þegar valið er opið. Þetta kann að sýna að fylgi Ólafs sé óstöðugra en talið var þegar hann tilkynnti framboð sitt.

Þess ber að geta að Guðni Th. Jóhannesson hefur ekki tilkynnt að hann ætli að bjóða sig fram til forseta en mun halda fund um málið í Salnum á uppstigningardag klukkan 14.00. Ekki er þó líklegt að hann ætli að tilkynna fyrir fullum sal að hann gefi ekki kost á sér.

Svo eru kosningarnar auðvitað ekki milli tveggja eða þriggja frambjóðenda heldur mun fleiri eins og menn vita. Eins og bent hefur verið á geta slíkar kosningar leitt til þess að frambjóðandi sem meirihlutinn vill ekki nái kjöri með tiltölulega lítið fylgi.

Könnunin fór fram frá 26.4 til 1.5. 2016. Gild svör voru 445 og óvissa miðað við 95% +/-5%.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.