Vinátta er vandskilgreint hugtak. Sumir telja alla sem þeir þekkja góðvini sína, en aðrir leggja áherslu á að skilja skýrt á milli vina og kunningja. Vináttan getur haldist án þess að vinirnir hittist lengi, en taka svo upp þráðinn eins og ekkert hafi í skorist þegar leiðir liggja saman aftur. Oftast verður vináttan betri ef hún er ræktuð, við höfum samband við vinina öðru hvoru. Nú orðið er sjaldgæfara en áður að fólk fari fyrirvaralaust í heimsóknir, þó að flestir hafi gaman af óvæntri uppákomu.
Samfélagsmiðlar verða til þess að endurvekja vinskap og þar finnast fjarskyldir frændur og frænkur og gamlir skóla- og vinnufélagar. Að vísu gerist þar það sama og í heimsóknunum áður fyrr; lítil ánægja er af fulla félaganum sem gjammar út í eitt, er með svigurmæli eða dónaskap. En almennt er gaman að fylgjast með ferðalögum, börnum og öðrum litlum áföngum gamalla vina og kunningja.
Spegilmynd vináttunnar er fengin með því að setja ó fyrir framan. Sumir virðast telja að óvinir eigi að skipa stóran sess í lífi sínu. Eitt þekktasta dæmið er Richard Nixon Bandaríkjaforseti sem hélt lista yfir óvini sína og gerði sér far um að klekkja á þeim með ýmsum hætti. Einhvern tíma hafði rektor Harvard-háskóla verið boðið í Hvíta húsið, þó að hann væri á listanum og Nixon spurði: „Til hvers haldið þið eiginlega að þessi listi sé, ef ekki er farið eftir honum?“ En glöggur stjórnmálaskýrandi hitti naglann á höfuðið þegar hann sagði: „Ef þú þarft að gera lista yfir óvini þína, þá áttu of marga óvini.“
Fyrir hrun áttu ýmsir viðskiptajörfar sér óvini. Undirritaður heyrði einu sinni talað um óvildarmenn sína. Mér brá við, því að mér datt ekki í hug að ég ætti sérstaka óvildarmenn, þó að auðvitað væru til menn sem ég var ekki sammála um margt. Skoðanir og vinátta þurfa ekki að fara saman, þó að stundum gleymist það í hita leiksins. Í stjórnmálabaráttunni er það algengt að ráðast á einstaklingana sem eru í forystu í stað þess að gagnrýna skoðanir þeirra með rökum. Slík orðræða dregur úr virðingu allra fyrir stjórnmálum almennt og þeim stofnunum sem stjórnmálamenn stýra.
Kannski er sitthvað til í því að virðingin fyrir Alþingi verði aldrei meiri en virðingin fyrir þeim alþingismönnum sem minnstrar virðingar njóta. Þar bera félagar þeirra líka ábyrgð. Ef menn verja sín skoðanasystkini, sama hvað þeim verður á, í orði eða æði, eru þeir gagnslausir vinir, því að vinur er sá sem til vamms segir. Og alvöru vinir reiðast ekki þó að þeim sé leiðbeint.