Bömmer á páskum

Fáir hafa heyrt talað um páskaheit. Kannski enginn. En þessa páska ætlaði ég svo sannarlega að láta hendur standa fram úr ermum. Margt var óskrifað – sjálfsagt að taka til á skrifborðinu – lesa svolítið, því þar er maður sannarlega kominn aftur úr þeim göfugu áformum.

Þó að ég láti alltaf bólusetja mig fæ ég ár eftir ár einhverja slæmsku. Veikur? Hvorki né – bæði og. Mæti í vinnuna og … tja kannski ekki mikið meira. Orðum það svo að framleiðnin sé ekki mjög mikil.

Dagana fyrir páska voru einhver þyngsli í lungum dag eftir dag og þegar flóuð mjólk dugði ekki til að aflétta þeim, jafnvel með hunangi út í, fór ráðum að fækka.

Smellti mér í sund. Ég veit ekki hvort fólk sem lætur tattúa sig lítur nokkurn tíma í spegil. Líklega ekki enda er of seint að iðrast eftir dauðann. Næstur mér í sturtunni var ungur maður með syni sína tvo eða þrjá. Á öxlina hafði hann látið rista fallega hauskúpu. Ormar skriðu út um augntóttirnar. „Mikið held ég konan hans hafi verið glöð þegar hann kom heim með þetta listaverk“, hugsaði ég með mér.

Af einhverjum ástæðum var ég ekkert hressari eftir sundsprettinn.

Ég er ekkert mjög mikið fyrir lyf. Að vísu tek ég fjórar pillur á hverjum morgni, en þar af er bara eitt lyf sem heldur niðri blóðþrýstingnum, sem auðvitað er nauðsynlegt fyrir mann lifir jafn æsilegu lífi og ég. Hitt eru vítamín.

Kannski ég ætti að skjóta því inn hér að ég hitti konu um daginn og talið barst að vítamínum. (Við vorum búin með stjörnumerkin, þannig að þetta kom næst). Hún sagðist vera mikill vítamíngúrú og flestir tækju alls ekki inn þau vítamín sem þá – og alla aðra sem hefðu áhuga á því að lifa af.

Ég var auðvitað viss um að hún yrði hrifin af því hve iðinn ég væri við fjörefnin, en við urðum fljótlega fyrir vonbrigðum bæði tvö. Þegar hún spurði hvort ég tæki ekki B-vítamín svaraði ég stoltur með jái.

Þá spurði hún hvaða tegund, svarði ég aftur „B“ því auðvitað gæti henni hafa misheyrst því bé, sé, dé og jafnvel e ríma öll og á veitingastaðnum sem við vorum á var mikill hávaði og auðvelt að villast á öðru eins.

Nei, hún hafði ekki áhuga á því heldur snerist málið um B1, B2, B5, B6, B12 eða fólat. Mér vafðist tunga um tönn. Mínar töflur eru appelsínugular og ílangar, En númer hvað, þar vandaðist málið.

Allt í einu rifjaðist það upp fyrir mér. Auðvitað B-Súper! Ég mundi glöggt eftir því hve vel við hæfi mér fannst að ég tæki B-Súper. Ég gæti jafnvel notað það sem nom de plume öðru hvoru, eða amk dulnefni á FB.

Konan horfði á mig með fyrirlitningu.

Mér leið eins og ég væri að tala við Steingrím vínsmakkara og hann hefði spurt mig hvaða vín mér þætti best og ég hefði svarað rósavín. Hann hefði horft á mig vorkunnaraugum. Maður sem ekki þekkti árganga, undirtegundir, héruð og akra ætti sannarlega ekki að leyfa sér að opna munninn til þess að tala um vín og helst ekki að drekka þau heldur.

Samtalið varð lengra, en eftir þetta var henni ljóst að hún var að tala við fjörefnafávita. Ég vona samt að hún segi mig frekar fjörefnaheftan ef hún segir frá þessu.

Sjálfur var ég kominn með sterkan B-komplex í lok kvöldsins.

En hverfum aftur að kjarna málsins. Ég varð að vinna á lungnabólgunni, því að ég hafði af innsæi greint sjálfan mig og bað líflækni minn að gefa mér penisilín. Auðvitað þarf maður í minni stöðu að hafa aðgang að lækni sem gefur honum þær töflur sem hann krefst hverju sinni. Áður en ég réði minn bað ég um meðmælabréf frá fyrri vinnuveitendum, en þau hafði hann ekki handbær, en ég gúglaði að hann hafði áður stundað bæði Elvis og Michael Jackson. Ég þurfti ekki meiri meðmæli.

Úr Lyfju kom ég klyfjaður af töflum og eins og hlýðinn sjúklingur byrjaði ég átið strax af kappi.

Um nóttina varð mér ekki svefnsamt, engdist saman af kvölum, magaverk, ógleði, klígju, velgju og flökurleika, svo fátt eitt sé nefnt.

Líflæknirinn fékk símtal fyrir klukkan átta og við lyfjaskápinn bættist eitthvert gerlalyf sem átti að koma maganum í jafnvægi. Ég lifði daginn af og það var komið páskafrí.

Á skírdag tók ég daginn snemma og settist við tölvuna um áttaleytið eftir að hafa lesið blöð víða að úr heiminum.

Ekki hafði ég setið lengi en að mér sótti undarleg höfgi. Ég hugsaði með mér að ekki sakaði að halla sér aðeins aftur á helgum degi.

Næst vissi ég af mér um hádegi.

Þeir sem þekkja vel til mín vita að á mínu heimili er skýr verkaskipting. Vigdís vinnur verkin og ég dáist að dugnaði hennar. Mér finnst þetta sanngjarnt en þarf stundum að minna Vigdísi á að svo sé. Sjálfur kýs ég að kalla mig athafnaskáld heimilisins. Allar sögur af athöfnum mínum heima við eru skáldskapur.

Þennan dag fannst henni upplagt að hefja vorverkin úti í garði og ég hafði ekkert út á það að setja að hún ynni þau einmitt þennan dag.

Stundum gleymir hún samt þessu þegjandi samkomulagi okkar á milli (enda er þetta ef til vill einhliða samkomulag, ég bjó það til í hljóði og tók hennar þögn sem sama og samþykki). Ég minnti hana á að rétt eins og munnlegir samningar eru bindandi gilti það sama um þegjandi samkomulag.

Þetta átti hún afar erfitt með að skilja, en heppnin var með mér þennan dag.

„Þú ert búin að lesa fréttirnar, er það ekki?“ byrjaði ég.

„Jú“, svaraði hún með semingi, því að hana grunaði greinilega að fiskur lægi undir steini.

„Þá veistu að ólaunuð vinna er skattskyld. Það segir ríkisskattstjórinn sjálfur og ekki lýgur hann. Það þýðir að við verðum að borga skatta af allri garðvinnu. Og þó að ég feginn vildi taka til hendinni þá höfum við bara ekki efni á því að borga skatta af garðvinnu okkar beggja.“

Það deilir enginn við ríkisskattstjóra, að minnsta kosti ríða menn ekki feitum klári frá slíkri þrætu. Vigdís virtist vera að gefa sig.

„Og ekki eigum við nein aflandsfélög til þess að fjármagna meiri skattgreiðslur.“

Vigdís ranghvolfdi í sér augunum og ég tók það sem fullnaðarsigur og hallaði mér aftur.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.