Hver er versti andstæðingurinn?

Fyrst þegar ég kom frá námi var ég kennari. Kenndi stærðfræði Verslunarskólann og Háskólann. Það er gaman að kenna, sérstaklega líflegum nemendum. Þó að ég kenndi frá átta á morgnana til klukkan sjö á kvöldin var ég samt sjaldan tiltakanlega þreyttur. Einu undantekningarnar voru þegar einhver var dónalegur og gat reitt mig til reiði. Þá varð ég bæði lúinn og leiður. En það var ekki mjög oft.

Þá hugsaði ég stundum: „Rosalega er ég heppinn að hafa aldrei haft nemanda sem var jafn erfiður og ég var, þegar ég var í skóla.“ Þetta var yfirleitt nóg til þess að kæta mig.

Mér dettur þetta oft í hug þegar ég sé hvernig þingmenn láta. Stjórnarþingmenn sýna hroka og yfirgang sem stjórnarandstaðan svarar með frekju og leiðindum.

Einar Kárason lýsir því í grein í dag hvernig einn kunningi hans hætti að hafa samband við gömlu vinina þegar hann varð milljarðamæringur, en hringdi svo strax og spilaborgin hrundi í upphafi hrunsins til að vera viss um að hann ætti einhverja vini sem ekki þyrfti að kaupa.

Rahm Emanuel starfsmannastjóri Hvíta hússins á fyrstu árum Obama gekk fram af mikilli hörku gagnvart þinginu því demókratar höfðu meirihluta í báðum deildum. „Við höfum atkvæðin“, sagði hann keikur. Eftir tvö ár náðu hinir yfirhöndinni og Obama varla komið máli í gegn síðan. Hann hafði ekki atkvæðin lengur og menn gleymdu ekki hvernig hans menn höfðu hagað sér.

Ég hef oft séð hið vænsta fólk breytast til hins verra við að ná metorðum. Það verður stutt í spuna og hreytir ónotum í undirmenn.

Sumir stjórnmálamenn vilja nýta sér aðstæður til þess að klekkja á andstæðingunum, en klekkja um leið á grundvallarstofnunum ríkisins, ríkisstjórn og Alþingi. Allir verða minni.

Þegar ég byrjaði að kenna hélt ég námskeið sem sumir gömlu kennaranna minna sóttu til þess að endurmennta sig. Enginn nýtti tækifærið til þess að jafna reikningana frá því að ég var nemandi. Ég fór aldrei þreyttur heim eftir þá kennslu og er þakklátur þessum gömlu lærifeðrum.

Þess vegna held ég að þegar stjórnmálamenn ættu að hugsa það næst þegar þeir gera lítið úr andstæðingum sínum, beita hótunum um málþóf eða seinkun kosninga: Myndi ég vilja hafa andstæðinga eins og mig í stjórnmálum?

Ef svarið er nei, er kominn tími til að breyta um stíl.


​Sjö spora endurhæfing fyrir stjórnmálamenn (BJ)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.