Sjö spora endurhæfing fyrir stjórnmálamenn (BJ)

Þeir sem villast af réttri leið þurfa að finna hana aftur, en það er ekki alltaf svo auðvelt. Aukakílóin fara ekki öll á einum degi og alkóhólistinn þarf að taka einn dag í einu. Margir fylgja svonefndu tólf spora kerfi. Á Íslandi hefur ekki enn verið skrifuð bók sem tekur saman alla helstu lærdóma af hruninu frá sjónarhóli almennings, fjármálakerfisins og stjórnmálanna. Í Bandaríkjunum hefur komi út bókin After the Music Stopped eftir Alan S. Blinder sem er þekktur bandarískur hagfræðingur sem sat á sínum tíma í Peningastefnunefnd Bandaríkjanna (Federal Reserve Board) sem varaformaður. Hann gefur villuráfandi stjórnmálamönnum eftirfarandi ráð.

Margir töldu að í kjölfar kreppunnar myndi koma fram ný tegund stjórnmálamanna. Menn sem einbeittu sér að lausnum á vanda samfélagsins en ekki eigin pólitískum markmiðum og karpi um aukaatriði. Vandaðir stjórnarhættir yrðu settir í forgang. Raunin hefur verið önnur. Lýðskrum hefur aldrei verið meira og kjósendur fagna loddurum með einfaldar lausnir eins Trump hinum bandaríska, þó að einnig megi finna nærtækari dæmi.

Skrefin sjö

Eins einkennilegt og það virðist hafa fáir Íslendingar sem voru í hringiðu atburðanna árið 2008 reynt að skrifa um lærdóminn af hruninu. Sumir hafa lýst sinni upplifun, sem auðvitað er mikils virði og aðrir eyða miklum krafti í að skýra að allt hafi verið öðrum að kenna. Mest væri gagnið að því að menn litu í eigin barm í ljósi reynslunnar og hugsuðu hvað hefði verið hægt að gera betur. Meðan beðið er eftir slíkri bók verða ráð Blinders að duga í bili:

1. Ekki reyna að gera of margt í einu Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tókst á við mörg stórverkefni samtímis: Umsóknina að Evrópusambandinu, breytingar á stjórnarskránni og umbyltingu skattkerfisins. Öll verkefnin biðu skipbrot vegna þess að um þau var ekki víðtæk sátt og ekki var reynt að skapa slíka sátt. Það var ekki einu sinni samstaða innan stjórnarliðsins, hvað þá að reynt væri að ná til stjórnarandstöð unnar.

2. Útskýrið vandann fyrir almenningi Ef menn ætla að fara í grundvallarbreytingar er nauðsynlegt að hafa sterkan talsmann. Jóhanna Sigurðardóttir var eflaust eini mögulegi forsætisráðherrann fyrir vinstri flokkana á þessum tíma, en hún hafði ekki hæfileika til þess að vera leiðtogi sem skýrði hvert hún vildi stefna og fylkti fólki að baki sér.

3. Notið mál sem almenningur skilur Stjórnmálamenn með mikla reynslu segja frá því að um leið og einhver nefnir hagvöxt, framleiðni eða raungengi sé eins og þoka setjist milli ræðumanns og áheyrenda. Þess vegna er það sem menn eins og Trump og Bill Clinton ná vinsældum. Þeir tala mál sem fólk skilur og setja sínar skoðanir fram á skiljanlegan hátt.

4. Endurtakið skref 2 og 3 Róm var ekki byggð á einum degi og það er stuðningur almennings ekki heldur. Þess vegna þurfa menn að flytja fagnaðarerindið aftur og aftur, kannski með nýrri og nýrri aðferð hverju sinni. Góð vísa er aldrei of oft kveðin.

5. Stillið væntingum í hóf Þessu ráði er erfitt að fylgja. Almenningur skilur ekki hvers vegna hann á að fá smá vægilega hækkun launa meðan stjórnendur og eigendur fyrirtækja fá fúlgur fjár.

6. Fylgist með viðhorfi almennings, fordómum og misskilningi Menn eiga ekki að elta almenningsálitið, en þeir þurfa samt að fylgjast með því. Það er ekki létt verk að ætla að breyta lífsviðhorfi fólks, en það getur þó gerst þegar meiriháttar viðburðir eins og hrunið verða. Þeir stjórnmálamenn sem skilja það verða ofan á, hvort sem það verður almenningi svo til góðs eða ills. Heimsstyrjöldin fyrri leiddi til sjötíu ára kommúnisma í Sovétríkjunum og kreppan til uppgangs nasista í Þýskalandi.

7. Setjið sanngirni í algeran forgang Ef það er eitthvað sem almenningur þolir ekki þá er það að mismunað sé milli Jóns og séra Jóns. Leiðin til þess að komast hjá þessu er að ástunda vandaða stjórnsýslu, gagnsæi og jafnræði. Ekkert af þessu tryggir að menn verði ekki fyrir gagnrýni, en ef almenningur hefur tilfinningu fyrir því allir séu meðhöndlaðir eins dregur það úr tortryggni.

Ekkert er stjórnmálamanni jafnmikils virði og traust. Menn eru lengi að ávinna sér það og fljótir að tapa því aftur. Og þá þurfa þeir að byrja á nýjan leik, sem vel að merkja tekst oft, bæði vegna þess að fólk er gleymið og líka vegna þess að almenningur á auðvelt með að fyrirgefa þeim sem iðrast og sýnir yfirbót. Margir spyrja: Eyddum við hruninu til einskis? Þurfti almenningur víða um lönd að fara gegnum ótrúlegar hremmingar án þess að af því væri dreginn nokkur lærdómur? Hjá stjórnmálamönnum gildir það sama og alkóhólistanum: Enginn nær árangri fyrir þá. Og þó. Það er hægt að skipta um stjórnmálamenn.


​Þessi grein birtist í Vísbendingu 7. mars. Fjórum dögum áður en viðtalið örlagríka við Sigmund Davíð var tekið í ráðherrabústaðnum.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.