Morgunstund gefur gull í mund, segir máltækið, og fyrir hádegi var ég búinn að skrifa snilldarfyrirlestur, ef ég segi sjálfur frá. Hann verður fluttur á ráðstefnu um stjórnarhætti í hátíðasal Háskólans á þriðjudaginn kemur. Með afar djúpri fléttu tekst mér að hafa þemað í fyrirlestrinum eina af bestu plötum Bítlanna. Meira segi ég ekki um það. Ég held að það sé uppselt á þennan fyrirlestur, þannig að þetta er alls ekki auglýsing fyrir hann.
En sem sé þegar ég hafði að loknu góðu dagsverki, klukkan rétt rúmlega tólf, horft yfir fyrirlesturinn og sagt við sjálfan mig: Sjá, það er harla gott, kíkti ég á tölvupóstinn minn. Sé ég þá ekki tilkynningu um að Félag kvenna í atvinnulífinu ætli að halda málþing um Tungumál og viðskipti.
Rétt í þann mund sem ég ætlaði að ýta á delít takkann rak ég augun í að þetta virtust vera býsna áhugaverðir fyrirlestrar. „Kannski ég skelli mér“ hugsaði ég, en sá þá að atburðurinn átti að hefjast klukkan 12.30 sem var ískyggilega nálægt í tíma. Ellefu mínútur. Leit út um gluggann og hætti við.
Ekki veit ég hvað varð til þess að ég skoðaði tilkynninguna aftur, kannski áhugi á konum í atvinnulífinu. Nei, það getur ekki verið. Örugglega fræðilegur áhugi á umfjöllunarefninu. Orðrétt stóð þetta:
„12.30 Húsið opnar, boðið upp á léttar veitingar og tengslamyndun.“
Um þessa setningu mætti margt segja. Jón heitinn Guðmundsson íslenskukennari hefði ekki verið ánægður með þetta hús sem opnar. „Húsið opnar hvað?“ hefði hann spurt. „Húsvörðurinn getur opnað háskólann, eða rektor, en ekki húsið sjálft.“
Þetta var auðvitað rétt á sínum tíma, en Jón vissi ekki þá að árið 2015 væru komin hús sem sem gætu opnað dyrnar án þess að mannshöndin kæmi þar nærri. Kannski gerðist það einmitt klukkan 12.30 í morgun.
„Boðið upp á léttar veitingar …“ hljómar eins og nú eigi að fylla liðið á hádegi á sunnudegi. Að vísu var kalt í veðri og menn hefðu kannski haft gott af brjóstbirtunni til þess að hressa sig þegar þeir kæmu inn úr kuldanum, en samt ekkert fyrir mig.
Tengslamyndun. Lykilorðið í dag. Reyndar áður fyrr líka. Þú gerir mér greiða og ég þér. Gamaldags klíkuskapur. Það er ekki mér að skapi.
Svo ég ákvað að sitja af mér fylleríið og mæta klukkan eitt. Mér fannst Jón Gúmm kinka til mín kolli að handan.
Klukkan var fimm mínútur yfir þegar ég kom á staðinn og dyrnar að hátíðasalnum opnuðust ekki að sjálfu sér þegar ég kom. Ég settist aftarlega og lét lítið fyrir mér fara. Formaður félagsins var enn að setja málþingið.
Fyrsta erindið flutti Auður Hauksdóttir og sagði frá nýju húsi Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur. Stofnun um tungumál. Ég var nýbúinn að heyra hana tala og varð aðeins annars hugar. Tók þó eftir því að við húsið verður einskonar útileikhús í grískum stíl og yfir því svalir, sem tengja starfsemina inni og úti. Mér datt í hug að af þessum svölum væri hægt að halda ávarp fyrir þá sem í útileikhúsinu sætu. Einu mennirnir sem ég man til þess að hafa séð flytja ræður á svölum voru þeir fóstbræður Hitler og Mússólíni. En þeir töluðu báðir útlensku þannig að það eru ekki óviðeigandi tengsl.
Húsið verður flott og mönnum til glöggvunar læt ég þess getið að það verður á horni Suðurgötu og Brynjólfsgötu, svona bara svo allir séu klárir á því.
Auður sletti ensku, áttaði sig á að það var ekki viðeigandi og bætti úr með því að sletta dönsku, sem er auðvitað miklu fínna.
Hún fjallaði um yfirskrift alþjóðadagsins: Make it happen!
„Fer ekki betur á að segja: Drífum í því!“ spurði hún við hrifningu áheyrenda.
Ég fór að líta í kringum mig og sá að í salnum voru margar konur. Og fáir karlar. Ég held að þeir hafi kannski verið tveir fyrir utan mig. Og annar hinna var fyrirlesari. „Kannski hitt sé húsvörðurinn sem opnaði“ hugsaði ég í því að Auður dreif í því að ljúka máli sínu.
Þegar ég áttaði mig á kvennafansinum sem þarna var nagaði ég mig í handarbakið fyrir að hafa ekki mætt klukkan 12.30 í tengslamyndun.
Halldór Guðmundsson var stiginn í stólinn og sagðist hafa ákveðið að semja ræðu í tilefni þess að hann var beðinn að tala. Ég hugsaði með mér að líklega væri þetta snjallræði hjá Halldóri, sem sveiflaði vélrituðum blöðum samtímis því sem hann sagði brandara upp úr sér. Honum fannst útileikhúsið bera vott um stórhug og bjartsýni Auðar. Harpa væri einmitt með svona útisvæði sem hefði verið hægt að nýta fjórum sinnum í fyrrasumar.
Ég reyndi að muna hvar útisvæðið væri, en mundi bara eftir holunni sem lengi var við hliðina á Hörpu, en var svo ekki viss hvort hún hefði verið fyllt aftur. Kannski Stofnun Vigdísar gæti notað holuna sem mokuð var fyrir Hús íslenskra fræða. Gæti kallað holuna grunn íslenskra fræða.
Maður má helst ekki hugsa mikið undir fyrirlestrum því þá tapar maður þræðinum. Halldór var kominn í handritið og las eitthvað á þessa leið: Fyrir um fimmtán árum reiknuðu menn út hve mikið væri hægt að spara með því að hætta að tala íslensku. (Ég set ekki gæsalappir, en mig minnir þetta hafi verið inntakið).
Hann leit upp fyrir kúnstpásu og horfði yfir salinn. Þá kom hann auga á mig í kvennahafinu. Ég sá að hann hvítnaði upp, greip fastar í ræðupúltið og fyrir ofan hann var hugsanabóla: „Andskotinn sjálfur, Benedikt er í salnum og ég sem nennti ekki að fletta því upp hvað hann sagði í þessari grein.“ Hann var nefnilega að vitna í grein eftir mig sem heitir: Hvað kostar að tala íslensku? og birtist í afmælisriti Indriða Gíslasonar, vinar míns og íslenskuprófessors. Greinin er svo löng að menn nenna ekki að lesa hana og gefa sér hver skoðun höfundar er.
Halldór beit á jaxlinn, þóttist hvergi hafa fipast og bætti við: Allt gott um þá útreikninga að segja. Svo leiddi hann áheyrendum fyrir sjónir hversu vitlaust það væri að ætla að spara sér þetta. Enginn í salnum nema ég vissi hvaða menn þetta væru sem hefðu reiknað dæmið á sínum tíma.
Halldór sagði frá því að Baskar hefðu veitt hér hval og til væru nokkur basknesk – íslensk orðasöfn frá því um 1720.
Ég fletti upp í einu af þessum söfnum á Netinu og fann þar dæmi:
I 23 Arnua frans Vyn; arno ‘vín‘. I 24 Nafarra spans Vyn, II 42 navarra rauda vyn; nabarra ‘vín frá Navarra’. I 20 Agorienta Brennevyn, II 40 Agorienta brennevyn; agorrient ‘brennivín’. I 228 Qvadranta Kompass; franska quadrant ‘tæki til að mæla sólarhæð’.
Vín og kompás eru náttúrlega meginatriði fyrir sjófarendur. Svo komu heilar setningar:
II 226 for ju mala gissuna þu ert vondur madur. II 227 presenta for mi berrua usnia eta berria bura gefdu mier heita miölk og nyt smiór.
Þetta er auðvitað það mikilvægasta í samskiptum við hvalveiðimenn.
Halldór var löngu búinn með sinn fyrirlestur og útlend kona sem talaði öll heimsins tungumál farin að tala. Hún talaði að vísu lítið í íslensku og enn minna í basknesku, en hún sagði frá því hve gagnlegt væri að tala tungu innfæddra. Hún heitir Danielle Pamela Neben og situr í stjórn Landsbankans.
Kannski talaði hún á undan Halldóri. Ég var svo niðursokkinn í Baskana að ég ruglaðist. Hún ávarpaði Vigdísi á frönsku og sagðist vera Mosfellingur. Hún var mjög kurteis, en Lúxemborgarar eru ekki sjarmerandi, ef ég skildi hana rétt.
Loks talaði Hildur Einarsdóttir hjá Össuri um gervifætur og hvernig mismunandi þjóðir vilja mismunandi fætur. Svo sagði hún frá samskiptum sínum við starfsmenn Össurar í ýmsum löndum. Það kom mér á óvart að Bandríkjamennirnir þora ekki að taka ákvörðun um smæstu atriði nema með því að spyrja alla yfirmenn sína.
Svo sýndi hún okkur auglýsingar sem eru mismunandi eftir kúltúr. Ég saknaði þess að Óskar Pistaríus, hinn frægi Blade runner, sást hvergi.
Svo var öllu lokið og ég hugsaði með mér: „Assgoti var þetta gott. Fróðlegir fyrirlestrar og tímanum vel varið.“
Svo börðumst við gegnum hríðina, yfir Suðurgötuna og á lóðina að húsinu nýja. Þar voru þrjár rekur og menntamálaráðherra, rektor og Vigdís sjálf tóku fyrstu, aðra og þriðju skóflustungur. Mér fannst að fyrst að þau voru þrjú við þetta að þau hefðu getað farið langt með holu fyrir grunninn, en þau létu þar við sitja. Allir klöppuðu og þau líka eins og gamlir kommúnistaleiðtogar.
Ég hugsaði með mér hvað Vigdís væri glæsileg kona. Væri ekki rétt að skora á hana að bjóða sig fram til forseta næsta ár?
Svo fluttu þau hvert sitt ávarp. Það voru góðar ræður því að þeim var öllum lokið á einni mínútu. Enginn varð úti.
Svona á að gera hlutina. Drífa í því.