Enn eru menn að ræða það hvernig standi á ýmsum ákvörðunum í kringum hrunið. Þó að það sé hverju barni augljóst eftirá að þar hefði margt verið skynsamlegra að gera með öðrum hætti en gert var var þróunin af einhverjum ástæðum ekki eins ljós dagana fyrir hrun. Könnum samtímafrásögn af láni Seðlabankans til Kaupþings 6. október 2008, tveimur dögum áður en bankinn féll.
FIH-bankinn sem veð
Kaupþing hafði keypt banka í Danmörku árið 2004, FIH bankann. Bankinn hafði skilað bærilegri afkomu og var talinn standa styrkum fótum.
Þegar fyrirsjáanlegt var að bankarnir voru að rekast á vegg og enginn vildi lána þeim nefndi stjórnarformaður Kaupþings að hann mætti nota sem veð. Í rannsóknarskýrslu Alþingis segir:
„Í fyrrgreindu minnisblaði Árna M. Mathiesen þar sem rætt er um fund fulltrúa Kaupþings og Landsbankans með ráðherrum segir að minnisblað bankanna feli í sér sameiginlega tillögu. Rætt er um færslu Icesave innlána Landsbankans yfir til dótturfélags bankans, Heritable Bank, með „fast track“. Haft er eftir Sigurði Einarssyni að bankarnir geti sett tryggingar að veði gegn fyrirgreiðslu Seðlabankans. Segir að Sigurður hafi í þessu samhengi nefnt hlutabréf danska bankans FIH. Við skýrslutöku fyrir rannsóknarnefnd Alþingis ræddi Árni M. Mathiesen um minnisblöð sín af fundum með bankamönnum þessa helgi: „Þessir hérna punktar hérna hjá mér, þetta eru lýsingar á fundum þar sem að bankamenn voru að ljúga að okkur.“ Árni segir: „Og verstur var Björgólfur [Thor Björgólfsson] […] og hann var að ljúga að hinum líka og þeir komu svo bara um kvöldið og sögðu: Það er ekkert að marka það sem þessi maður segir. Þeir voru að reyna að finna leið til að sameina Kaupþing og Landsbankann til þess að þeir gætu staðið þetta og Björgólfur sagði bara:Við reddum þessu og við reddum þessu.“
Fundirnir sem vísað er til munu hafa verið um helgina 4.-5. október 2008. Á mánudeginum er ljóst að fallist hefur verið á að veita Kaupþingi þetta lán og það er meira að segja sett inn í texta neyðarlaganna svonefndu og svo tekið út aftur.
Morguninn 6. okt. sótti Jónína S. Lárusdóttir lögfræðingur í viðskiptaráðuneytinu ríkisstjórnarfund. Hún minntist ekki umræðu um stjórnskipuleg vandamál í frumvarpi til neyðarlaga. „Jónína sagði að kl. 13:34 sama dag, þ.e. 6. október 2008, hefðu borist skilaboð frá forsætisráðuneytinu um að setja ætti inn ákvæði í frumvarp til neyðarlaganna um að Seðlabankanum væri heimilt að eiga og reka fjármálafyrirtæki. Tölvubréf frá ritara forsætisráðherra staðfestir þetta. „Þá fékk ég þær skýringar að þetta væri út af því að Seðlabankinn væri búinn að taka allsherjarveð, þarna út af FIH. [….]“
Samkvæmt þessu hefur þetta ekki verið rætt af ríkisstjórninni þennan morgun. Sigríður Logadóttir í Seðlabankanum ræddi málið líka við rannsóknarnefndina.
„Sigríður Logadóttir lýsti því við skýrslutöku að vinnu við frumvarp til neyðarlaga hefði verið haldið áfram á mánudagsmorgninum 6. október 2008: „[…] og þá er það komið upp að Kaupþing er í vandræðum og það endar með því að Seðlabankinn ákveður að lána Kaupþingi gegn veði í öllum FIH-bankanum og það er sem sagt ákveðið á hádegi.“
Vitnisburður Davíðs
Nú er það auðvitað ekki óeðlilegt að Seðlabankinn fái skoðun forsætisráðherra á svo stórri ákvörðun. Það breytir því ekki að ábyrgðin er bankastjóranna. Svo vel vill til að formaður bankastjórnar Seðlabankans var spurður um þetta mál af Sigmari Guðmundssyni í frægu Kastljósviðtali að kvöldi 7. október.
Davíð: Kaupþing ræður sínum málum sjálft. … Þetta lán er 500 milljónir evra ca. 70 milljarðar króna en það er til mjög skamms tíma, svona brúarlán, bara til þess að gefa þessum banka leyfi til þess að spreyta sig og láta hann ekki falla vegna þess að hann hafi verið beittur of harkalegum aðgerðum.
Sigmar: Hvað ef Kaupþing fellur?
Davíð: Þá mun Seðlabankinn eignast mjög góðan banka í Danmörku FIH, því við tókum öll hlutabréfin í þeim banka að veði.
Sigmar: Varstu sammála þeirri aðgerð að veita Kaupþingi þetta lán? Það var orðrómur um ágreining.
Davíð: Það var algjör eining um það og ég tilkynnti bankastjóra Kaupþings það að það hefði verið niðurstaðan. Það hefur verið eining milli okkar þriggja félaganna í öllum málum. Auðvitað ræðum við málin og nálgumst kannski stundum með mismunandi hætti, en það hefur ekkert mál verið afgreitt frá okkur í ágreiningi.
Skoðun Geirs
Í Fréttablaðinu er skerpt á sjálfstæði Seðlabankans þann 9. jan. 2009
„Seðlabankinn er sjálfstæð stofnun og vinnur samkvæmt lögum. Við gerum engar breytingar á bankastjórninni,“ segir Geir H. Haarde forsætisráðherra aðspurður hvort breyting sé fyrirhuguð á bankastjórn eða stýrivextir lækkaðir á næstunni vegna aðstæðna í efnahagslífinu. Seðlabankinn heyrir undir forsætisráðuneyti en hefur sætt harðri gagnrýni síðustu vikur. Geir sagði Seðlabankann vinna í samræmi við lög um bankann en ríkisstjórnin sinni eigin starfi. Hann, sem forsætisráðherra, geti ekki tekið fram fyrir hendurnar á bankanum. Slíkt sé í trássi við lög.
Í ljósi alls þessa þarf ekki að eyða löngum tíma í það hver ákvað að veita lánið til Kaupþings og taka FIH bankann að veði. Það var bankastjórnin sem var einmitt sá aðili sem átti að ákveða lánið. Um það var algjör eininginnan bankastjórnarinnar. Í því sambandi skipta einstök símtöl engu máli, en auðvitað hafa menn stundum skýlt sér bak við það að þeir hafi aðeins fylgt skipunum.