Stefnuföst ríkisstjórn

Nýlega hitti inngróinn framsóknarmaður forustumann í flokknum og spurði hvers vegna í ósköpunum það var enn á dagskrá að slíta viðræðum við Evrópusambandið. Það yrði allt vitlaust. Svarið var stutt og laggott. „Það skaðar okkur ekki neitt. Við erum komin í lágmarksfylgi. Sjálfstæðismenn lenda í vanda, en það er ekki okkar mál.“

Í Frjálsri verslun birtist áhugavert viðtal við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins. Þar fjallar hann meðal annars um Evrópumálin:

Bjarni [2015]: „Stefna ríkisstjórnarinnar hvað varðar aðild að Evrópusambandinu er skýr. Stjórnarflokkarnir eru á móti aðild að sambandinu. Það lá fyrir í kosningabaráttunni og duldist engum kjósanda.  Það á að vera hægt að taka af skarið í jafnstóru máli þegar báðir flokkarnir eru algerlega sammála um stefnuna.“

Þetta er rétt hjá Bjarna. Bæði hann og Sigmundur sögðu fyrir kosningar að rétt væri að kjósa um framhald viðræðna.

Bjarni [2013]: „Ég er sjálfur þeirrar skoðunar að við eigum ekki að ganga í Evrópusambandið og greiddi atkvæði gegn umsókn, en við höfum haft það sem hluta af okkar stefnu að opna fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu til að útkljá þetta mál og við munum standa við það.“

Þetta var auðvitað ekki óeðlilegt því að kosningastefnuskrá Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningarnar 2013 sagði:

„Þjóðin tekur ákvörðun um aðildarviðræður við ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu.“

Engu að síður eru það auðvitað mikilvægar upplýsingar fyrir kjósendur að vita fyrir kosningar hvaða loforð verður staðið við.

Bjarni [2015]: „Mér finnst margt standast illa í umræðunni um að við ætlum að draga umsóknina til baka. Í fyrsta lagi er því haldið fram að við höfum ákveðnar skyldur, m.a. í ljósi þess sem ég hafði sagt í aðdraganda síðustu kosninga um að ég væri opinn fyrir því að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.“

Svo opinn að hann lýsti því sérstaklega yfir að þetta stefnumál yrði staðið við.

Annars hefur Bjarni fjallað um kosningar um þetta mál áður. Til dæmis skrifaði hann í grein í Fréttablaðið í desember 2008 ásamt samráðherra sínum Illuga Gunnarssyni:

Bjarni [2008]: „Verði það niðurstaða endurmats Sjálfstæðisflokksins að hagsmunum þjóðarinnar sé enn betur borgið utan ESB væri það engu síður mjög í samræmi við ríka lýðræðishefð í Sjálfstæðisflokknum að láta málið ganga til þjóðarinnar í kjölfar viðræðna, þar sem ýtrustu hagsmuna hefur verið gætt.“

Bjarni talaði líka um málið árið eftir. Þá sagði hann í viðtali við Fréttablaðið í mars:

Bjarni [2009]: „Þetta er slíkt grundvallarmál að mér finnst ekki ólíklegt að það verði tekist á um það. Það eru skiptar skoðanir á þessu máli innan flokksins. Þeir eru til sem af prinsippástæðum vilja ekki ræða aðild að ESB vegna þeirra afleiðinga sem það hefði á stjórn okkar á fiskveiðiauðlindinni. Á hinum vængnum eru þeir sem telja að innganga í myntbandalag Evrópu sé svo mikilvæg að það megi færa fórnir á sviði sjávarútvegsmála. En það er enginn sem gerir lítið úr þeim fórnum sem þarf að færa. Menn greinir á um hversu miklar þær verða og úr því verður aldrei skorið nema gengið verði til aðildarviðræðna.“

Á Alþingi sumarið 2009 var Bjarni orðinn mun neikvæðari í garð viðræðna. Hann sagði þó í umræðum þann 16. júlí:

Bjarni [2009]: „Ég get líka tekið undir það að á sinn hátt væri betra fyrir okkur Íslendinga að eiga rödd í Brussel, að eiga okkar eigin þingmenn í Brussel. Ég er ekki með þessu að halda því fram að þeir munu ráða neinum úrslitum. Við munum þurfa að kosta þó nokkuð miklu til en það væri fólgið í því betra lýðræði fyrir okkur Íslendinga, og ekki síst í ljósi þess hvernig við höfum verið að framkvæma EES-samninginn, að eiga okkar fulltrúa þar sem fara með okkar atkvæði og láta okkar rödd heyrast þar þannig að allar hinar 27 þjóðirnar heyri. Það er enginn vafi á því að það væri betra en það fyrirkomulag sem byggt er inn í EES-samninginn.“

Bjarni taldi sumarið 2009 enn nauðsynlegt að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort sækja bæri um aðild og flutti ásamt Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur um það tillögu á Alþingi:

Bjarni [2009]: „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort Ísland skuli sækja um aðild að Evrópusambandinu. Skal þjóðaratkvæðagreiðslan fara fram hið allra fyrsta og eigi síðar en innan þriggja mánaða frá samþykkt tillögu þessarar. Verði aðildarumsókn samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu skal ríkisstjórnin leggja inn umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu.“

Þegar tillagan féll með litlum mun sagði Bjarni við atkvæðagreiðsluna:

Bjarni [2009]: „Þeir sem greiða atkvæði gegn þessu máli hljóta að eiga erfitt með að finna nokkurt það annað mál sem tilefni er til að senda í þjóðaratkvæðagreiðslu í framtíðinni. Ég segi já.“

Í Frjálsri verslun segir:

Bjarni [2015] „Svo eru þeir til sem einfaldlega vilja gera ríkisstjórninni erfitt fyrir og kannski í leiðinni að reyna að finna höggstað á mér. Þeir horfa fram hjá því sem ég hef sagt á öllum landsfundum Sjálfstæðisflokksins frá því að ég var fyrst kjörinn á þing og á flokksráðsfundum, nú síðast í haust. Þeir horfa algjörlega fram hjá því sem ég sagði um tengsl Íslands og Evrópusambandsins fyrir síðustu kosningar og líka hvað ég gerði þegar tillagan um að ganga í Evrópusambandið kom fram á þingi, en ég greiddi atkvæði gegn henni. Við lögðum þá til að hin stóra ákvörðun um umsókn yrði borin undir þjóðina. Það var ekki gert.“

Á fundi í Valhöll í janúar 2009 taldi Bjarni að flokksforustan þyrfti nauðsynlegt að stíga næstu skref í Evrópumálum:

Bjarni [2009]: „Heilbrigð skynsemi segir okkur að leiðir sem ekki leitað finnast seint og spurningar sem ekki er spurt, færa engin svör,“

Hann bætti við:

Bjarni [2009]: „Vegna þeirra breytinga sem nú hafa orðið er það mín sannfæring, að samstaðan um að gera ekki neitt, hún sé að rofna. Við því hlýtur Sjálfstæðisflokkurinn að bregðast.“

Flokkurinn hafði ekki brugðist við árið 2010. Þá sagði Bjarni í setningarræðu á landsfundi:

Bjarni [2010]: „Við núverandi aðstæður væri réttast að leggja málið til hliðar, ekki bara vegna framkominna hótana um að ekkert verði af samkomulagi nema við göngum að afarkostum Breta, heldur er líka mikilvægt að við nýtum alla okkar krafta til að sigrast á þeim efnahagserfiðleikum sem við er að glíma. Þegar því verkefni er farsællega lokið verða allar forsendur fyrir hendi til að meta afstöðu okkar til aðildar á ný þar sem þjóðin hefur verið höfð með í ráðum.“

Bjarni [2015]: „Að það sé á valdi eins manns að ákveða hvenær lögum sé skotið til þjóðarinnar. Þá ákvörðun vil ég færa út til fjöldans. Ég er þannig almennt hlynntur því að styrkja beint lýðræði en í tilfelli framhalds á ESB-viðræðum, sem við erum á móti, eru hvorki nægileg rök fyrir því út frá markmiðinu um óbreytta utanríkisstefnu né vilji til þess – og hvað þá að okkur beri skylda til þess.“

Bjarni telur málið í raun smávægilegt, sem skýrir auðvitað hvers vegna ríkisstjórnarflokkarnir leggja svo mikla áherslu á það.

Bjarni [2015]: „Komi fram vilji til að halda viðræðunum áfram erum við hvort sem er á byrjunarreit. Það að draga umsóknina til baka er því ekki jafnstór ákvörðun og menn láta í veðri vaka. Það er miklu frekar formsatriði og afdráttarlaus yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um stöðu málsins; að við séum ekki lengur umsóknarríki.“

Þegar Bjarni er spurður hvort það komi ekki flokknum í koll að slíta viðræðum við Evrópusambandið segi hann:

Bjarni [2015]: „Það er stefna flokksins að halda sig utan Evrópusambandsins. Ég fæ ekki séð hvernig það að fylgja stefnunni á að koma okkur í koll.“

Það er auðvitað erfitt að sjá. Í byrjun febrúar 2013 var fylgi Sjálfstæðisflokksins 38% skv. könnun MMR. Landsfundur samþykkti í þeim mánuði að hætta bæri viðræðum við Evrópusambandið. Í kosningum fór fylgi flokksins í 26,7% og er nú skv. skoðanakönnunum um 20% í höfuðborginni.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.