Tubular Bells fyrir tvo (BJ)

Mig minnti reyndar að Goggi hefði verið mjög hrifinn af TB, en verð að játa að ég spurði Valgerði aldrei. Sem er skrítið því að yfirleitt byrjaði maður samræður við foreldra vina sinna á því að ræða það nýjasta á tónlistarsviðinu. Líklegast hefur hún verið meira fyrir Zappa, en nú er of seint að sanna nokkuð um það því að þau eru hvorugt til svara um þessi mál mæðginin.

Tónleikaferðin byrjaði á Kaffihúsi Vesturbæjar, hippasta og kúlasta veitingahúsi í póstnúmeri 107. Þar þekkti ég fólk frá tæplega þrítugu til áttræðisaldurs. Allt mjög hipp fólk. Ég drakk bjóra ársins, sem er ekki góð hugmynd áður en maður fer á tónleika. Svo fékk ég mér grænmetisborgara sem mér fannst eini rétturinn á matseðlinum fyrir gamalt blómabarn.

Við röltum í bíóið völtum fótum. Ekki út af bjórnum heldur þykkum klaka sem liggur yfir Melunum. Dyravörður kinkaði kolli þegar við komum inn og hafði engan áhuga að að sjá strikamerkið á miðunum mínum. Ég hefði eins getað verið með samanbrotin blöð. „Tuttuguþúsund kall í súginn“ hugsaði ég.

Ég þekkti tíu manns á tónleikunum. Þá er ég sjálfur meðtalinn. Það voru að vísu frekar fáir, en samt fleiri en tíu. Að vísu heilsuðu margir mér, en ég veit ekkert hvaða fólk það var. Sú hugsun leitaði að mér að þetta væri allt fólk sem hefði verið með mér í skóla en væri orðið óþekkjanlegt vegna elli. Að aðrir þekktu mig yljaði mér um hjartarætur, þegar ég uppgötvaði þetta.

Þessir guttar sem spiluðu?

Ég er ekki viss. Eitt af hljóðfærunum sem þér léku á var segulband, þannig að þetta var nú ekki alveg fyrir tvo.

Samt voru þeir ótrúlega nærri frumútgáfunni, þó að hljóðblöndun hafi vissulega verið betri á plötunni. Félagar mínir struku skeggið að leik loknum og sögðu að þetta væri vissulega ekki á pari við vínil-útgáfuna, en miklu betra en geisladiskurinn.

Ég er ekki viss hvað ég á að taka mikið mark á því. Á kaffistofu Vesturbæjar voru spilaðar vínilplötur með Bítlunum, en þeir tóku ekkert eftir því. Það var ekki fyrr en við vorum staðnir upp að annar sagði: „Loksins byrjað að spila Abba þegar maður er að fara.“

Kannski var hann að grínast. Og þó. Mamma hans Gogga var hrifin af Abba.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.