Ég hélt að ég myndi þekkja alla á tónleikunum. Tubular Bells var költ plata ársins 1974 – og áfram reyndar. Mike Oldfield hafði samið sérstætt tónverk 19 ára gamall. Sumir sögðu 17 ára. Við vorum alltaf að bíða eftir næsta snillingi. Snilldin byrjaði á Bítlunum, svo komu Rollingarnir (sem auðvitað voru ekki nærri eins góðir), næsta skref var Led Zeppilin og loks David Bowie. Goggi vinur okkar var fyrstur til þess að átta sig á því hvílíkur snillingur Bowie var.
Nú kom þessi gutti, Mike Oldfield. Var hann næsti Bowie? Þetta verk var assgoti magnað og hann spilaði sjálfur á öll hljóðfærin.
Fjörutíu árum seinna vitum við að svarið var nei. Hann gerði ekki margt annað en Tubular Bells. Nema náttúrlega TB II, TB III, TB Millanium og TB 2003. Kannski eru þær orðnar fleiri, ég hef ekki gáð í dag. Líklega hefur enginn listamaður verið jafnfastur í farinu, nema ef vera skyldi leiðarahöfundur Morgunblaðsins. En þetta skiptir auðvitað engu máli. Menn þurfa ekki að verða snillingar nema einu sinni.
Þess vegna tók hjartað kipp þegar ég sá auglýsingu um að í Háskólabíói yrði sýnd myndin Tubular Bells for two. Ég hafði að vísu aldrei heyrt hennar getið, en réð af bútum á YouTube að einhverjir gaurar hefðu spilað allt verkið tveir í einni lotu. Oldfield tók upp aftur og aftur í tugi skipta til þess að koma öllum hljóðfærunum að. Þessir hlutu að vera miklu klárari en hann. Eflaust líka afar vel hljóðblönduð mynd tekin upp með nýjustu tækni, 4k í hávíðómi. Þessa mynd varð ég að sjá.
Ég hafði rangt fyrir mér. Það var engin mynd heldur tveir ástralskir guttar sem spiluðu á sviðinu. Mér finnst reyndar óþolandi að játa að ég hafi ekki alltaf rétt fyrir mér og myndi aldrei gera það, ef svo ólíklega vildi til (sem ég á ekki von á).
Þess vegna tékkaði ég á því hvort ekki væru til miðar. Þegar svo reyndist vera, tilkynnti ég Vigdísi hvílíkan happafeng hefði rekið á fjörur okkar. Hún reyndist gjörsamlega sneydd innsæinu í sýrupopp áttunda áratugarins og sagðist þurfa að gera annað þarfara þetta kvöld. Sem var reyndar svolítið skrítið, því að ég hafði alls ekki sagt henni hvaða kvöld þetta var.
En ef fólk kann ekki að meta perlurnar verður maður að leita smekkmanna annars staðar. Félagar mínir tveir reyndust tilkippilegir, en þó ekki fyrr en ég sagði þeim að við færum fyrst að fá okkur bjór og borgara. „Goggi hafði ekkert gaman af þessu“ sagði annar. „Spilaði þetta meira að segja fyrir mömmu sína og hún spurði: Hvað ertu að spila?“
Nú runnu næstum á mig tvær grímur. Valgerður mamma hans Gogga var auðvitað átoritet á þessu sviði og ef hún fílaði ekki Mike Oldfield, gat maður verið þekktur fyrir að fara? Við bitum á jaxlinn, félagarnir. Það var ekki endilega víst að Valgerður hefði samþykkt Lennon eða Bowie.
Mig minnti reyndar að Goggi hefði verið mjög hrifinn af TB, en verð að játa að ég spurði Valgerði aldrei. Sem er skrítið því að yfirleitt byrjaði maður samræður við foreldra vina sinna á því að ræða það nýjasta á tónlistarsviðinu. Líklegast hefur hún verið meira fyrir Zappa, en nú er of seint að sanna nokkuð um það því að þau eru hvorugt til svara um þessi mál mæðginin.
Tónleikaferðin byrjaði á Kaffihúsi Vesturbæjar, hippasta og kúlasta veitingahúsi í póstnúmeri 107. Þar þekkti ég fólk frá tæplega þrítugu til áttræðisaldurs. Allt mjög hipp fólk. Ég drakk bjóra ársins, sem er ekki góð hugmynd áður en maður fer á tónleika. Svo fékk ég mér grænmetisborgara sem mér fannst eini rétturinn á matseðlinum fyrir gamalt blómabarn.
Við röltum í bíóið völtum fótum. Ekki út af bjórnum heldur þykkum klaka sem liggur yfir Melunum. Dyravörður kinkaði kolli þegar við komum inn og hafði engan áhuga að að sjá strikamerkið á miðunum mínum. Ég hefði eins getað verið með samanbrotin blöð. „Tuttuguþúsund kall í súginn“ hugsaði ég.
Ég þekkti tíu manns á tónleikunum. Þá er ég sjálfur meðtalinn. Það voru að vísu frekar fáir, en samt fleiri en tíu. Að vísu heilsuðu margir mér, en ég veit ekkert hvaða fólk það var. Sú hugsun leitaði að mér að þetta væri allt fólk sem hefði verið með mér í skóla en væri orðið óþekkjanlegt vegna elli. Að aðrir þekktu mig yljaði mér um hjartarætur, þegar ég uppgötvaði þetta.
Þessir guttar sem spiluðu?
Ég er ekki viss. Eitt af hljóðfærunum sem þér léku á var segulband, þannig að þetta var nú ekki alveg fyrir tvo.
Samt voru þeir ótrúlega nærri frumútgáfunni, þó að hljóðblöndun hafi vissulega verið betri á plötunni. Félagar mínir struku skeggið að leik loknum og sögðu að þetta væri vissulega ekki á pari við vínil-útgáfuna, en miklu betra en geisladiskurinn.
Ég er ekki viss hvað ég á að taka mikið mark á því. Á kaffistofu Vesturbæjar voru spilaðar vínilplötur með Bítlunum, en þeir tóku ekkert eftir því. Það var ekki fyrr en við vorum staðnir upp að annar sagði: „Loksins byrjað að spila Abba þegar maður er að fara.“
Kannski var hann að grínast. Og þó. Mamma hans Gogga var hrifin af Abba.