Ekkert lært og öllu gleymt (BJ)

Þegar ég sá þetta hugsaði ég með mér að honum væri ekki alls varnað utanríkisráðherranum. Auðvitað þarf að ganga frá umsókninni eins og öðrum verkum. Fátt er mikilvægara en frágangurinn. Ráðherrann segir skv. fréttinni:

Gunnar Bragi segir að málið hafi ekki verið rætt sérstaklega við stjórnarandstöðuna. „En þetta mál er þannig statt, bæði hér á Íslandi og í Evrópusambandinu að það væri glórulaust að ganga ekki frá þessu máli.“

Auðvitað er þetta rétt, því að eins og fulltrúar Evrópusambandsins hafa ítrekað áréttað, nú síðast í haust, er þeim ekkert að vanbúnaði að ljúka samningaviðræðunum. Skoðanakannanir hafa aftur og aftur sýnt að um tveir þriðju hlutar kjósenda á Íslandi eru á sama máli. Samningunum ber að ljúka og ganga frá þeim með þeim besta hætti sem völ er á fyrir íslensku þjóðina, sem svo tekur afstöðu til þeirra í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er nefnilega kosturinn við lýðræðið að meirihlutinn á að ráða.

Öfugmælavísur

Ritstjóri Morgunblaðsins skrifar leiðara í morgun af sömu gleði og fyrr og ræðir nú um sama mál og utanríkisráðherrann undir heitinu Öfugmælavísur:

„Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherrann fyrrverandi sem þátt tók í að plata aðildarumsókninni inn á þing og þjóð, var í fréttum Stöðvar 2 í gær fenginn til að spá í ástæður þess að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra vildi afturkalla þessa sömu umsókn. „Fréttaskýring“ Össurar var eins og við var að búast þegar kemur að þessu málefni, fjarstæðu- og spunakennd í senn.

Össur lét eins og sú afstaða forsætisráðherra að draga aðildarumsóknina til baka væri ný af nálinni og að hugmyndin væri sett fram til að leiða umræðuna frá meintum óþægilegum málum. Fréttamaðurinn sá ekkert athugavert við þessa kenningu og spurði einskis þó að fyrir liggi að afturköllun umsóknarinnar hafi verið stefna ríkisstjórnarinnar frá upphafi og að málið hafi þegar verið lagt fyrir Alþingi þó að það hafi þá ekki verið klárað. Slíkar „fréttaskýringar“ pólitískra spunameistara gera lítið fyrir áhorfendur annað en að draga úr trúverðugleika fréttatímans og fréttamannsins.

En kenningum Össurar lauk ekki með þessari fjarstæðu. Næst kom sú staðhæfing að afturköllun umsóknar yrði vatn á myllu Evrópusambandssinna í Sjálfstæðisflokknum sem myndu bjóða fram við næstu þingkosningar ef þessi yrði niðurstaðan. Össur, sem taldi stutt í klofning Sjálfstæðisflokksins vegna málsins, var bersýnilega áhyggjufullur fyrir hönd þess flokks, enda sérstakur áhugamaður um velgengni hans eins og alkunna er.

Þessi spunakenning Össurar varð ekki frekar en fjarstæðukenningin á undan til þess að fréttamaðurinn staldraði við og spyrði nánar út í kenninguna. Fyrir öllum öðrum en samfylkingarmönnum sem vilja spinna vef til að viðhalda aðildarumsókninni er augljóst að það er einmitt staða Íslands sem umsóknarríkis sem viðheldur þeim fámennu og veikburða hópum sem enn berjast fyrir aðild að Evrópusambandinu, nú með þeim orðum að þeir séu „viðræðusinnar“ vegna þess að aðildarsinnar eiga síður upp á pallborðið.

Auðvitað kemur ekki á óvart þó að Össur Skarphéðinsson leiki spunaleiki og reyni að afvegaleiða umræðuna um Evrópusambandið eina ferðina enn. Að fréttastofa taki þátt í spunanum er annað og verra mál.“

Sannarlega má segja að leiðarinn beri nafn með rentu, því í öfugmælavísum er einmitt einhverju fráleitu haldið fram sem sannleika til þess að draga fram bros. Það tókst ágætlega. Eitt öfugmælið er að „að afturköllun umsóknarinnar hafi verið stefna ríkisstjórnarinnar frá upphafi“.

Allir vita sem vilja að ríkisstjórnin ætlaði frá upphafi að láta þjóðina kjósa á kjörtímabilinu um framhald viðræðna við Evrópusambandið. Sjálfsagt er að þjóðin komi að svo stórri ákvörðun og formaður Sjálfstæðisflokksins áréttaði að við það loforð yrði staðið.

Minnisstætt er þegar heilbrigðisráðherra sagði í umræðum um afturköllun umsóknarinnar á Alþingi síðastliðið vor að „ekkert loforð hefði verið svikið enn“. Þetta er hárrétt og skemmtilegur húmor hjá forsætisráðherra að gefa ráðherrum Sjálfstæðisflokksins (og sjálfum sér líka) annað tækifæri til þess að svíkja ekki loforðið með því að fella tillögu um slit.

Morgunblaðið hefur áður haft gaman af öfugmælum. Árið 2001 og aftur 2004 birtist þar þessi vísa Jakobs á Varmalæk í Borgarfirði:

Íslendingar Davíð dá,

dyggðir mannsins prísa,

en þetta er eins og allir sjá

öfugmælavísa.

Svo má auðvitað líka búa til nýtt spakmæli sem á undurvel við: Illt er að hafa ekkert lært og öllu gleymt.

Það má líka nota sem botn í vísu fyrir góða hagyrðinga.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.