Á mörkunum

Ég hafði ekki heyrt neitt af bók Matthíasar Johannessens Sögur úr Vesturbænum þegar ég sá hana í búðinni. Vissi ekki hvort hún var ný eða gömul, ekkert nema það sem ég sá á borðinu. Ég ákvað að kaupa hana og þó að ég hefði ekki átt von á því fyrirfram varð hún fyrsta jólabókin sem ég las frá upphafi til enda. Hún er svolítið skrítin, en það fannst mér kostur.

Stundum er gott að staldra við í árslok og gera upp árið. Svo finnst mörgum ágætt að ákveða hvað þeir ætla að afreka á nýju ári. Hvort tveggja er á dagskránni, en í þetta sinn ætla ég að tala um bók Matthíasar.

Matthías var frægur maður þegar ég var strákur. Þegar ég var sendill á Mogganum voru þrír ritstjórar, Sigurður Bjarnason sem seinna varð sendiherra en þá var þingmaður, Eyjólfur Konráð Jónsson sem seinna varð þingmaður og Matthías sem var skáld. Á þessum árum þótti ekkert að því að þingmenn væru í vinnu annars staðar, þingmennskan var ekki heilsársstarf og á þingi sátu menn með reynslu héðan og þaðan. Þar voru forystumenn úr atvinnulífinu, foringjar úr verkalýðshreyfingunni og rithöfundar. Þá þekkti maður alla þingmenn nema kannski örfáa framsóknarmenn.

Matthías var áberandi í umræðunni. Ég man hvað hann virtist alltaf viss í sinni sök. Hann skrifaði langar greinar í Moggann, greinar sem mældar voru í dálksentímetrum, ef ekki dálkkílómetrum í Þjóðviljanum. Hann var líka atómskáld og í Langholtsskólanum lásum við atómljóð sem vorum í bekk hjá Jennu. Matthías kom einu sinni í heimsókn og hlustaði á okkur lesa ljóð. Ég veit ekki hvernig það var með aðra í bekknum, en eftir þetta fékk ég áhuga á ljóðum sem haldist hefur fram á þennan dag.

Mogginn var á þessum árum oftast 24 síður, stundum 36 síður, örsjaldan lengri. Ég las hvert einasta orð, nema leiðarana og sjaldnast greinar Matthíasar. Þær voru svo langar að ég lagði ekki í þær. Matthías var ritstjóri í áratugi og ég var ekki viss um að hann gerði mikið. Þeir voru saman ritstjórar hann og Styrmir og gerðu blaðið að yfirburðablaði í íslenskri fjölmiðlun. Ekki að það hafi verið neitt slor sem þeir tóku við. En Mogginn var langbesta blað á Íslandi í áratugi. Menn skulfu af hræðslu við áhrifamátt þess og forystumenn á öllum sviðum þjóðlífsins vildu eiga gott samband við blaðið og ritstjórana.

Þegar dagbækur Matthíasar fóru að birtast á Netinu hneyksluðust ýmsir. Þeim fannst með ólíkindum hve margt hann hafði eftir fólki, fólki sem hélt það væri að tala við hann í trúnaði. Ég hef ekki lesið þær frá orði til orðs, gripið niður í þeim hér og þar og mér finnst þetta ágætt hjá honum. Sagnfræðingar framtíðarinnar fá eina heimildina enn. Nýleg bók Styrmis Gunnarssonar sýnir að hann hefur líka haldið saman efni af mikilli eljusemi. Menn geta reiðst ýmsu, en ég dáist að þessum mönnum fyrir skipulagið, þeir hafa haldið mörgu til haga sem annars væri gleymt. Eflaust hafa þeir misskilið margt, enginn skilur allt, og veruleikinn nú er allur annar en hann var þá. En þeir hafa fært okkur veruleikann eins og hann var þá.

Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Fljótlega eftir að Matthías hætti á Mogganum fór blaðinu að hraka. Auðvitað ekki jafnhratt og undanfarin ár, en umburðarlyndið varð minna, skoðanir blaðsins voru ósveigjanlegri og það missti mikið af sínum sjarma. Þá sá ég hve miklu það skiptir að blaði sé stýrt og stýrt af skynsemi. Ég hef síðar lesið um það hve mikla natni ritstjórarnir lögðu í blaðið á þessum árum.

Á síðustu árum vill svo til að ég hef kynnst Matthíasi svolítið. Ég hef heyrt hann rifja upp gamla tíma og spjalla um samtímann. Mér fannst gaman að því þegar hann sagði við mig: „Það sem ég met mest við það að vera hættur að stýra Morgunblaðinu er að nú þarf ég ekki að hafa skoðanir á öllum hlutum.“

Fyrir nokkrum árum eignaðist ég eina af viðtalsbókum Matthíasar. Á reyndar nokkrar, en hinar eru samræður við yfirburðaviðmælendur sem erfitt hefði verið að klúðra. Þessi bók hét einhverju einföldu nafni, Viðtöl eða M minnir mig og í henni eru viðtöl við allskyns fólk, flest fólk sem enginn annar hefði viljað tala við. Ekki af því að það sé ómerkilegra en fólk sem hefur náð í aukahlutverk eða orðið kynnir í sjónvarpsþætti. Nei þvert á móti miklu merkilegra fólk, en merkilegt af þeirri tegund að engum dettur í hug að ræða við það. Nema Matthíasi.

Í mörg ár var Matthías með dálka í helgarblaðinu, Helgispjall, þar sem hann fór um víðan völl. Sjaldan lagði ég í þá, en í maí 1996 birti hann merkilegan dálk sem ég hef tvisvar birt að stofni til í Vísbendingu.

Núna þegar ég les Sögur úr Vesturbænum sé ég að kannski hefði ég átt að lesa dálka Matthíasar oftar, en þó er ég ekki viss um að ég hefði fengið mikið út úr því. Hann velti fyrir sér hlutum sem ég vissi ekki nóg um til þess að geta melt.

Fyrir nokkrum árum missti Matthías konu sína. Hann orti ljóðabók, Söknuð, um missi sinn. Þessa bók á ég og fletti oft í. Hún er eins konar Sonatorrek Matthíasar, tilraun til þess að yrkja sig frá sorginni. Auðvitað er það ekki hægt, en það er hægt að átta sig á að menn geta enn og þess vegna eiga þeir að halda áfram að gera.

Sögur úr Vesturbænum eru af sama meiði. Tilraun til þess að sætta sig við einsemdina. Hún er á mörkum raunveruleikans og ímyndunar, kannski draums.

Bókin er svolítið skrítið samsafn af sögu sem líklega er nokkurn veginn sönn saga Matthíasar, að svo miklu leyti sem nokkur minning er sönn, frásögn af tveimur vinum sem erfitt er að segja hvort voru til að einhverju leyti eða ekki og svo vangaveltur um heimspeki, lífið og tilveruna, ástina, lífið og dauðann, skáldskap og veruleika. Svo koma ljóð eftir ýmsa og tilvitnanir í aðrar bækur. Bæði Matthíasar og annarra.

Ég hafði gaman af þessum sögum. Fannst þær miklu skemmtilegri en ég átti von á, svo ég segi alveg satt. Þær eru undarlegt sambland. Sumt á augljóslega við höfundinn sjálfan, en í öðru var ég alls ekki viss, jafnvel þó að ég reyndi aftur að lesa kaflann yfir vandlega. Mér finnst gaman að því þegar menn láta hugann reika, ef hver kafli um sig er skemmtilegur.

Strákurinn úr Vesturbænum fer víða, á sjóinn og meira að segja til Englands í sumardvöl, allt til þess að mannast. Og einhvern veginn endar það svo að menn mannast á öllu því sem fyrir þá kemur, hvort sem það var allt í raunveruleikanum eða bara í endurminningunni.

Sögur úr Vesturbænum hefðu batnað við að styttast. Flestar bækur batna við það. En ég staldraði við ýmislegt. Mín upptalning er álíka ruglingsleg og bókarinnar, en þannig er það bara.

Jósep nokkur sem flutti til Englands var „farsæll og vinsæll útgerðarmaður sem veitti mörgu fólki nokkuð trygga atvinnu. Þannig höfðu þeir einnig verið gömlu útgerðarmennirnir sem komist höfðu í álnir, þrátt fyrir fátækt í æsku.“ Hann þarf ekki að segja meira. Við vitum muninn á þeim og „nýju útgerðarmönnunum“. Jósep kaus fremur peningana í Grimsby en fátækt á Íslandi. Hann var ekki svo mikill föðurlandsvinur að valið væri erfitt. „Ég hef óttast fátækt og skort allareiðu frá æskuárunum austur í Flóa. … Ég vildi burt frá sultardropanum og þessari rómantísku ættjarðarást sem var einhvern veginn alltaf í slagtogi með honum en átti illa við mig.“

Björn vinur sögumanns bragðaði aldrei áfengi „en þótti heldur fjölþreifinn til kvenna eins og oft er um bindindismenn.“ Hjákona Björns segir aðspurð um sambandið að hún sé „orðrómur“.

Sagan af sundskóm Matthíasar ratar inn í bókina úr tengslum við flest annað, sem þó er ekki nátengt, en hún sýnir að hann hefur gott skopskyn sem hann mætti vel flíka oftar.

Matthías og félagi hans tala um helgimyndina sem búin er til af mönnum, til dæmis stjórnmálamönnum. Við fylgjumst enn í dag með baráttunni um söguna, þar sem menn keppast við að búa til nýja fortíð, þar sem jafnaðar eru gamlar sakir. Sú barátta er ekki endilega vonlaus, en eitt er víst að hetjur verða skúrkar og aftur hetjur eftir því hvernig vindar sagnfræðinnar blása. „Do what you should do, do it well, and let it be known“ sagði Gunnar Már Pétursson, vinur minn úr Almennum tryggingum. Mörgum gleymist fyrri hlutinn af þessari speki. Matthías segir: „Það sem sumir kalla yfirburði, dugnað eða útsjónarsemi kalla aðrir spillingu.“

Í bókinni er vitnað í alls kyns snillinga sem ég þekki ekkert til. Heimspekingurinn Holmes, hver er það? Ég man eftir Sherlock og Larry sem var boxari, en líklega er það hvorugur þeirra. Kirkegaard vitna margir í, en ekkert hef ég í honum lesið. Hann á þessi spekinnar orð: „Gifztu – og þú sérð eftir því. Gifztu ekki – og þú sérð eftir því.“ Kirkegaard kann að hafa verið snjall, en þessu er ég ósammála. Ég hef aldrei séð eftir því að gifta mig, en er auðvitað ekki allur enn. Samt held ég að sú skoðun breytist varla. Þar af leiðandi get ég heldur ekki tekið undir hitt.

Og þó. Ég sé alltaf svolítið eftir að við Vigdís skyldum ekki gifta okkur ári fyrr. Hvers vegna? Þá hefðum við verið gift ári lengur.

Matthías segir að í forngrískum bókmenntum sé fjallað um guðina eins og menn, en það gerist aldrei í Íslendingasögum. Líklega er það rétt, en í þjóðsögunum tala menn við æðri máttarvöld eins og jafningjar. Kerlingin í Sálinni hans Jóns míns rífur kjaft við ráðamenn í himnaríki og sú sem var að raka steytti hnefann og sagði: „Þú nýtur þess guð að ég næ ekki til þín.“ Sumt er kannski líkara en virðist við fyrstu sýn.

Niðurlag bókarinnar er þetta:

„Einveran þokast hægt og sígandi inn í líf okkar, tekur við af dauðanum og sleppir okkur ekki áður en yfir lýkur.

Hún er tryggastur vina.“

Ég var skeptískur á Matthías í gamla daga því að hann var svo viss í sinni sök. Nú er hann ekki lengur handhafi sannleikans og ég hef miklu meiri trú á honum en áður. Líklega var það þess vegna sem mér fannst gaman að Sögum úr Vesturbænum.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.