Allir fá þá eitthvað

Á jólunum er gleði og gaman segir textinn og enginn efast um það. Nema einhver ofboðslega fúll og leiðinlegur. Til dæmis hagfræðingur! Margir hafa haft gaman af bókinni Freakonomics, sem kom út fyrir nokkrum árum. En satt að segja ætti enginn að gefa hana í jólagjöf. Hvers vegna ekki? Jú, það skýrist hér á eftir.

Margir hafa gaman af því að fara í búðir fyrir jólin, sjá eitthvað fallegt og kaupa gjafir fyrir vini og vandamenn. En Stephen Dubner, annar höfunda fyrrnefndrar bókar, segir að það eigi menn ekki að gera. Miklu frekar eigi að versla á Netinu. Þar sé meiri hagkvæmni og minni tilfinningasemi. „Losnum við tilfinningarnar úr jólahaldinu.“ Ekki er víst að aðrir en hagfræðingar skrifi upp á þessa yfirlýsingu. En hagfræð­ ingarnir ganga lengra. Það sé beinlínis óskynsamlegt og afar óhagkvæmt að gefa gjafir. Margir segja að það sé sælla að gefa en þiggja og hagfræðin samþykkir það í sjálfu sér, en samt vill hún ekki fallast á að gjafir séu heppileg leið til þess að öðlast þá sælu.

Allir kannast við það að hafa fengið eitthvað sem þeim finnst lítið spennandi. Ljótt bindi er myndbirting vonlausrar gjafar. En hagfræðin sýnir fram á með hjálp framboðs- og eftirspurnarlína að það sé jafnvel óskynsamlegt að gefa einhverjum það sem hann langar í. Auðvitað eru ekki allir óánægðir með gjafir sem þeir fá. Fjarri því. Eiginlega eru það bara einstakir fúlhausar sem afþakka gjafir. Samt yrðu allir ánægðari, að mati hagfræðinnar, ef þeir fengju peninga í stað þess að fá eitthvað fallegt. Peningum geta menn breytt í hvað sem þá langar í. Það er ólíklegt að tíu þúsund manns myndu þramma út á þriðja í jólum og kaupa nýjustu spennubókina, ef þeir hefðu fengið andvirði hennar í stað bókarinnar sjálfrar.

Menn myndu kaupa sitt lítið af hverju og blóðsúthellingarnar eftir metsöluhöfunda freista sumra eftir sem áður, en aðrir fengju sér ís, konfekt, sokka eða jafnvel bindi, hvað sem hver getur hugsað sér. En þó að hagfræðilega sé þetta rétt, man ég betur eftir orðabókinni sem ég fékk í fermingargjöf en aurunum sem einhverjir réttu mér í umslögum. bj


Birtist fyrst í Vísbendingu

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.