Úr dagbók lögreglunnar

Nýlega skilaði lögreglan skýrslu um Hrunið um starf lögreglunnar sem byggði á dagbókum hennar. Að sjálfsögðu var nafnleyndar gætt í hvívetna.

Kæra dagbók! Björguðum kettlingi úr gömlu eikinni við Grettisgötu. Hún er búin að vera til vandræða í nærri 100 ár, tímabært að fella hana.

Kæra dagbók! Í dag hringdi gömul kona sem hafði týnt páfagauknum sínum. Fundum hann í búri sem hún hafði sett upp á háaloft fyrir mánuði. Hann var dauður, en gamla konan var ánægð að fá búrið aftur.

Kæra dagbók! Í Seljahverfinu fréttum við af átta ára strák með teygjubyssu. Við fundum kauða og gerðum vopnið upptækt, en slepptum honum með tiltal.

Kæra dagbók! Uppþot í miðbænum. Einhver óprúttinn náungi, Guðmundur Franklín Jónsson, hvatti fólk til þess að koma með úldið kál og henda því í bankann (spurning hvaða banka, Landsbanka, Seðlabanka, blóðbanka?). PS Muna að kaupa salat á leiðinni heim.

Kæra dagbók! Í dag hitti ég Álfheiði Ingadóttur. Sjarmerandi kona sem gefur sér tíma til þess að vera stöðugt í sambandi við fjölskylduna, þótt hún sé störfum hlaðin á Alþingi.

Kæra dagbók! Fletti Álfheiði upp í skattskránni. Hún er eini þingmaðurinn sem tímir að greiða auðlegðarskatt til alþýðunnar. Sofnaði í gærkvöldi með lagið Álfheiður Björk á heilanum. Hvað get ég gert? Hvað get ég sagt?

Kæra dagbók! Ég er miður mín. Álfheiður kallaði mig titt.

Kæra dagbók! Hvílíkur hamingjudagur. Norðmenn vinir okkar sendu okkur 150 MP5-hríðskotabyssur. Happiness is a warm gun hefur alltaf verið uppáhaldsbítlalagið mitt.

Kæra dagbók! Þórólfur hringdi fyrir upptökuheimilið í Skagafirði. Þau vantar krakka, hefur verið tómt í þrjú ár og nú er einhver Bragi að kvarta yfir því. Sendum þeim strákinn úr Breiðholtinu, það ætti að kenna honum lexíu.

Kæra dagbók! Hitti ráðherrann í dag. Það er svo gott að tala við hana. Bið strákana að kalla aðstoðarmanninn strax í viðtal fyrir helgi og vera blíðir. You really got a hold on me er uppáhaldsbítlalagið mitt.

Kæra dagbók! Sendi þrjár MP5 í Trékyllisvíkina. Var það ekki þar sem blóðrautt sólarlag gerðist?

Kæra dagbók! Bömmer. Fengum reikning frá Norðmönnum. Bölvaðir skíthælar.


Vísbending var eini fjölmiðillinn sem gerði skýrslunni verðug skil. (Úr 41. tbl.) Í skýrslu lögreglu hafði mátt lesa nafn Álfheiðar Ingadóttur, þó að það væri yfirstrikað. Á sama tíma var gagnrýni á að Norðmenn gáfu Íslendingum gamlar byssur.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.