Friðrik Ólafsson var opinberlega gerður að heiðursborgara Reykjavíkur við hátíðlega athöfn í Höfða í dag. Friðrik hefur alltaf verið einstakur heiðursmaður og aðeins formsatriði að útnefna hann. Það var þó afar snjall leikur og Friðrik er vel að heiðrinum kominn.
Sem Reykvíkingur hlýtur maður líka að fagna því að þessi titill Friðriks sé í höfn. Borgin sjálf getur líka verið afar stolt af Friðrik, því að fáir hafa aukið hróður hennar jafnmikið. Stærsta framlagið er örugglega skákeinvígið 1972 sem engum hefði dottið í hug að halda hér nema Friðriks og afreka hans hefði notið við.
Friðrik er hægur og prúður maður í daglegu lífi og þess vegna kemur það mörgum á óvart hversu djarfur skákmaður hann er. Hann þurfti ekki að sitja lengi að tafli þangað til allt var komið í bál og brand. Margir af sterkustu skákmönnum heims tefla af öryggi, þ.e. þeir taka sjaldan áhættu. Þess vegna er lítið varið í að fylgjast með skákum þeirra. Í kringum skákir Friðriks var alltaf hópur fólks því að hann var sífellt að leita að fallegum fléttum, fórnum og óstöðvandi sókn. Hann er hiklaust einn af rómantísku skákmönnunum á 20. öldinni. Tal var þeirra fremstur, en Friðrik var einn af þeim bestu í þeirra hópi.
Á toppnum var hann einn af tíu bestu skákmönnum heims. Hann hefur lagt marga heimsmeistara í skák að velli. Friðrik teflir ánægjunnar vegna, ekki bara til þess að vinna hvað sem það kostar, þó að auðvitað hafi hann mest gaman af því eins og sannir keppnismenn. Hann hefur gaman af að skilja marga taflmenn eftir í uppnámi sem kallað er, en sjálfur virðist hann aldrei í uppnámi.
Í ræðu sinni í dag vitnaði Friðrik í kvæði Einars Benediktssonar
Ég vil hafa hærra spil
hætta því sem ég á til.
Bráðum slær í faldafeykinn
forlög vitrast gegn um reykinn.
Alls má freista.
Eitt ég vil
upp með taflið. —
Ég á leikinn.
Þannig teflir Friðrik, hann tekur áhættuna. Friðrik Ólafsson er ferskur skákmaður og hann ber utan á sér ferskleikann. Þegar maður hittir hann dettur engum í hug að þar fari áttræður maður. Hann er bóngóður, vingjarnlegur og glaðvær.
Reykjavík er mikill heiður að slíkum borgara.