Drög að geðbilunarruglandi (BJ)

„Hvers vegna eru Evrópumálin svona flókin?“ spurði einhver mig á fundi. „Getum við ekki verið þjóð meðal þjóða nema ganga í Evrópusambandið?“ sagði frænka mín. Gamall félagi minn sendi mér línu. „Þegar yfirvegaðir, skarpgreindir, hörkurökfastir ágætismenn missa sig ítrekað vegna einlægrar skoðunar á því að Íslandi sé algjör nauðsyn að verða aðili að EU, þá staldrar maður við og verður hugsi.“

Við erum orðin vön því að geta leyst alls kyns vanda á svipstundu. Ef við fáum höfuðverk er nóg að taka pillu og skömmu síðar kennum við okkur einskis meins. Hvers vegna getum við ekki einfaldlega skipt á aðra stöð í Evrópuumræðunni, í stað þess að vera föst í veruleika sem við er álíka skemmtilegur og martröð sem engan enda tekur?

Að undanförnu hef ég vitnað í ummæli nokkurra Evrópuandstæðinga, í sumum tilvikum Evrópusambandshatara, á Snjáldrusíðu minni. Sumum finnst að þar með sé ég að gera lítið úr þeim sem ekki eru á sömu skoðun og ég. Þó bæti ég oftast litlu við frá eigin brjósti.

Satt að segja er ástæðan sú að ég hef verið að velta því fyrir mér hvers vegna sumir séu svo harðir á móti Evrópusambandinu. Er það vegna þess að þeir sjá eitthvað sem mér er hulið?

Ágæt kona sagði í athugasemdakerfi DV: „Hverskonar drög að geðbilunarruglandi er það sem hrjáir þetta ESB fársjúka kratastóð, sem þessa dagana safnast saman á Austurvelli til að opinbera andlega fátækt sína, ofstæki og illkvittni? Þetta einkennilega fólk minnir einna helst á holdsveikisjúklinga fortíðarinnar, sem sagðir voru gjarnir á að ota fram kaunum sínum að vegfarendum á fjölförnum stöðum.

Það er vægast sagt sorglegt að sjá fólk, sem maður veit að er bæði heilbrigt og gott, ummyndast í pólitíska vitfirringa sem engu eira og vaða um froðufellandi eins og mannýgir griðungar út af því einu, að ríkisstjórnin ætlar að draga innlimunarumsóknina í ESB til baka. “

Nú þekki ég þessa konu ekki neitt, en af einhverjum ástæðum á ég erfitt með að flokka þetta undir málefnalega umræðu, þó að textinn sé listilega saminn.

Einn þekktur Evrópuandstæðingur sem ég hélt ég þekkti vel, sagði að hann teldi að hættan við Evrópusambandið væri að það myndi í fyllingu tímans breytast í Sovétríki. Það leist honum ekki á.

Aðrir Evrópuandstæðingar telja að sambandið stefni í hina áttina: Að nasisma. Á sínum tíma sagði Steingrímur Hermannsson, sem var forsætisráðherra Íslendinga í sjö ár, að nú væri Helmut Kohl, kanslara Þýskalands, að takast það sem Hitler hefði mistekist.

Ég efast um að Steingrími hafi í alvöru fundist kanslararnir tveir sambærilegir, en ef fólk heldur í alvöru að Evrópusambandið sé nasistasamband er andstaðan skiljanlegt. Afstaðan byggir á vanþekkingu, en úr henni má bæta ef menn vilja.

Í morgun hringdi í mig maður sem sagði mér að eina ástæðan fyrir því að tillagan í þinginu og offors framsóknarmanna væri ekki búinn að gera alla unga hægri menn að Evrópusinnum væri sú að það væru sumir svo ógeðslega leiðinlegir í þeim hópi. Hann notaði ekki orðalagið „fársjúkt kratastóð“ en hugsunin var svipuð.

Ég sagði honum að ég hefði fyrir löngu ákveðið að maður ætti ekki að vera ósammála réttum málstað bara vegna þess að einhver vitleysingur aðhylltist hana, né sammála röngu máli þó einhver ágætismaður héldi því fram. (Ég þorði ekki að nefna það að stöku Evrópuandstæðingur væri ekki hvers manns hugljúfi, þá hefði hann kannski sakað „okkur“ um að fara alltaf í manninn en ekki boltann).

Sumum stendur uggur af fjölmörgum reglugerðum Evrópusambandsins. Um daginn sá ég það í blaði sem borið var til okkar Reykvíkinga að Íslendingar hefðu innleitt 10 þúsund reglur og lög frá Evrópusambandinu frá því að við gengum í það sem aukaaðilar árið 1994. Það er næstum ein og hálf á dag. Auðvitað veltir maður því fyrir sér hvort allar þessar reglur séu nauðsynlegar, en margar þeirra eru fyrst og fremst til þess að tryggja að viðskipti séu gerð með sama hætti í öllum löndunum. Með einfaldri myndlíkingu: Að tryggja það að metrinn sé alls staðar jafnlangur.

Fyrir nokkrum árum kom Evrópuandstæðingurinn mikli Daniel Hannan til Íslands. Ég náði að spjalla við hann á klukkutíma fundi. Hann taldi miklu betra fyrir Breta að eiga viðskipti við Nýja Sjáland en Evrópulönd vegna þess að lagaumhverfi Nýsjálendinga væri svo svipað og í Englandi. Ég spurði hann hvort það væri ekki einmitt tilgangurinn með Evrópusambandinu að samræma reglur þannig að auðvelt væri að eiga viðskipti. Hann svaraði því ekki.

Sumir halda því fram að Evrópusambandið hugsi um fátt annað en hvernig það nái að innlima Ísland eins og konan sem skrifaði athugasemdina á dv.is talaði um. Árni Helgason skrifaði pistil í Kjarnann í dag. Þar segir hann: „Á Íslandi búa um 320 þúsund íbúar en í aðildarríkjum ESB búa um 508 milljónir, þannig að Ísland er 0,06% af íbúafjölda Evrópu. Svipað hlutfall og 200 manna bær væri á Íslandi. Akrahreppur er dæmi um slíkt bæjarfélag hér á landi; þar bjuggu 195 manns um síðustu áramót og með fullri virðingu fyrir Akrahreppi og öðrum slíkum bæjum eru málefni þeirra ekki það sem stjórnkerfið og þingmenn eru með í huga þegar þeir mæta í vinnuna á morgnana.“ Ætli þetta sé ekki einhvern veginn svona úti í Brussel líka?

Árni brýtur svo íslenska umræðuhefð og fer að ræða það málefnalega um hvað Íslendingar ættu að ræða við Evrópusambandið:

„Fyrir það fyrsta að við getum tekið upp nýjan og stöðugri gjaldmiðil, evruna, og þá hve langan tíma það tæki.

Í öðru lagi að við getum fellt niður og fengið fellda niður á móti tolla gagnvart rúmlega 500 milljón manna markaði í ESB. Tollvernd hér á landi er ósanngjörn og óhófleg og gerir ekkert nema að hækka vöruverð til neytenda. Því er stundum haldið fram að við gætum alveg eins bara fellt niður tolla einhliða sjálf og við þurfum ekki ESB til þess. Vissulega er það fræðilega rétt, sá möguleiki er til staðar en hann er því miður fullkomlega óraunhæfur pólitískt. Hann er svo óraunhæfur að þetta er í raun farið að verða notað sem afsökun og fjarvistarsönnun stjórnmálamanna fyrir því að gera ekki neitt í málinu.

Þrátt fyrir allt tal um að við getum nú bara gert helling sjálf í þessu, þá gerist einhverra hluta vegna aldrei neitt í þeim efnum, sama hvort það er vinstri- eða hægristjórn. Það virðist vera einhver pólitísk regla þegar mynduð er ríkisstjórn á Íslandi og búið er að velja ráðherraefnin að sá þjóðlegasti og mest „utan af landi“ í hópnum verði landbúnaðar­ráðherra, þ.e. einhver sem sækir stuðning sinn einkum til bænda og Bændasamtakanna en á engan hátt til neytenda á höfuðborgarsvæðinu.

Í þriðja lagi skiptir máli hvernig sjávarútveginum reiðir af þegar formlegt ákvörðunartökuvald færist út til ESB. Í því samhengi verður samt að forðast heimsendaspár á borð við þær að ESB muni byrja á að úthluta öllum veiðirétti hér til spænskra togara, eða eitthvað í þá veru. Þarna verður hins vegar að gæta mjög vandlega að hagsmunum okkar.“

Ég er sammála Árna að um þetta ættum við að ræða, en ekki um Hitler, holdsveikissjúklinga eða hálfvitahátt þeirra sem eru á öndverðum meiði við okkur. Þá gætum við komist að skynsamlegri niðurstöðu.

Það er auðvitað tilviljun en tímaritið Forbes, sem er eitthvert frjálshyggjusinnaðasta tímarit Bandaríkjanna segir í dag.

„In reality, however, almost every influential anti-EU party in Europe is arguing from protectionist positions. They range from the anti-immigration but otherwise free-market UK Independence Party, to the nationalist socialists from the French National Front, to the openly fascist Greek Golden Dawn. There is every reason to fear that after leaving the EU, these countries would only increase the scope of government coercion. For nations like Greece or Hungary with strong fascist parties, an EU exit would make a rollback to authoritarianism much more likely.

Conservatives should not align themselves with protectionist and nationalist euroskeptics. Instead of arguing against the EU in general and for a return to Europe of nation states, conservatives should specifically target statist regulation and advocate admission of new members while keeping old ones. Britain’s conservative prime-minister David Cameron is rightfully arguing for renegotiation of his country’s role in the EU instead of withdrawing from it altogether. Every major EU reform still requires a consensus, so keeping EU-cautious countries such as the UK in the Union, along with its further geographic expansion, would protect against the slippery slope of the “ever closer union.”

Although European bureaucrats and leftist pro-EU parties do not realize it, the EU has essentially been a free market project. Conservatism is a political philosophy based on the principles of individual liberty and free markets. The EU has brought major improvements on both of these principles. Therefore, conservatives should support it.“

Kannski eru þessi Evrópumál alls ekki svo flókin og líklega er eini raunhæfi möguleiki okkar til þess að vera þjóð meðal þjóða með fullri aðild að Evrópusambandinu.

Og ég held að við Evrópusinnar séum ekki að missa okkur í geðbilunarruglandi.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.