Umfjöllun um Kattarglottið

kattarglottid-bokarkapaFyrir nokkrum dögum birti Auður A. Hafsteinsdóttir umsögn um bókina Kattarglottið eftir Benedikt Jóhannesson, sem kom út árið 2011. Umsögnin birtist á rithringur.is en kemur í heild hér á eftir.

Texti á kápu
Kattarglottið er fyrsta smásagnasafn Benedikts Jóhannessonar. Hann hefur um árabil skrifað greinar í blöð og tímarit, en þó ekkert þessu líkt.
Í bókinni eru fjórtán sögur og höfundur fer um víðan völl. Þekktur pólitíkus slettir ærlega úr klaufunum í New York, frægur blaðamaður nær að plata Guð almáttugan í viðtal og dýrin í skóginum hætta að vera vinir.
Ýmsar spurningar vakna: Voru Frau Himmerfeldt og Arnaldur gift bürgerlich? Ná vísinda afrek NÞ eyrum umheimsins eða verða þau lokuð í fangelsi dásvefnsins um allan aldur? Hvers vegna er Jesús á rölti um miðbæ Reykjavíkur? Sögurnar eru glettnar en þó með alvarlegum undirtón. Söguhetjur eru bæði venjulegt fólk og einkennilegt, óþekkt og heimsfrægt. Eitt er sögunum sameiginlegt: Þær eru ekki allar þar sem þær eru séðar.
Höfundur umfjöllunar: Auður A Hafsteinsdóttir


Ég hef lesið marga pistla eftir Benedikt Jóhannesson. Hann hefur komið inn á margt, stundum er ég sammála honum og stundum ósammála, eins gengur. En pistlar hans eru gegnum sneiddir af gamansemi og skemmtilegum pælingum.
Þessi pistlalestur minn varð kveikjan að því að mig langaði til að lesa smásagnabókina hans Kattarglottið og fleiri sögur.
Reyndar ætlaði ég að vera löngu búin að lesa hana en einhvernvegin fórst það fyrir, en betra er seint en aldrei.
Ég sótti mér bókina á bókasafnið og er þegar búin að lesa tvær smásögur. Ég er frekar hæglæs en einhvernveginn var ég enga stund að lesa þessar tvær sögur.
Sú fyrsta í bókinni er sagan, Þar sem enginn þekkir mann. Er svo smellin og skemmti ég mér konunglega við lesturinn. Hún er um snobbaðan stjórnmálamann sem er líka einstaklega kvensamur og ánægður með sig. Hann fær aldeilis á baukinn í endann og er það gert á mjög grátbroslegan hátt.
Næsta saga, Leitið og þér munið finna, er að sama skapi bráðskemmtileg. Ótrúlegur efniviður en þar spilar tannstöngull stærsta hlutverkið.
Ég iða í skinninu að lesa áfram og á von á að ég verði áfram svona ánægð.
Sumar sögurnar eru draumkenndar en húmorinn er alltaf til staðar, þó að í þeim sé að finna alvarlegan undirtón.
Dæmi um draumkenndar sögur eru t.d.: Bréf frá himnum og Hver dagur.
Sagan Forleikur er svolítið öðruvísi skrifuð. En þar talar sögupersónan beint við lesandann, soldið skemmtilegur máti. En mér finnst sagan of langdregin fyrir minn smekk t.d. er heilmiklu púðri eytt í stærfræðiformúlu sem ég skildi ekki bobs í.
Ég ætla ekki að kryfja hverja einustu sögu til mergjar aðeins að stikla á stóru.
Sögurnar Landnáma hin meiri og sagan sem kemur strax á eftir henni Fallega fólkið, sýnir mjög glögglega hversu höfundur spannar víðan hugarheim.
Fyrri sagan eru vangaveltur/ádeilur á Íslendingasögurnar og uppruna Íslendinga og svo hin síðari ádeila um kvikmyndastjörnur nútímans. Sú saga er sett upp á allt annan máta. Hún er sett upp eins og leikrit. Ég brosti oft þegar ég las hana. Finnst fyrri sagan jafnvel einum of langdregin.
Bókin ber nafnið Kattarglottið og fleiri sögur. Hún er nefnd eftir síðustu sögunni í bókinni. Vel skrifuð saga og vekur upp áhuga. En hún er svolítið tregablandin ólíkt öðrum sögum bókarinnar. Það er ef til vill sniðugt að byrja á gamansögu en enda síðan á tregafullri sögu? Ég velti því fyrir mér… Læt ykkur lesendur dæma um það sjálfir.
Höfundurinn hefur ótrúlegt hugmyndaflug. Sögurnar eru allar svo ólíkar og nokkur stílbrögð notuð. Bókin er að mestu létt og leikandi, með húmor þó með alvarlegum undirtón. Ég hafði mjög gaman af lestrinum og skellti oft uppúr en það er nú bara hollt og gott að hlægja.

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.