Þegar Íslendingar mótuðu utanríkisstefnu í fyrsta sinn var það svo sannarlega ekki sjálfstæð stefna. Utanríkispólitík Íslands snerist um að fá sjálfstæði frá Danmörku og þegar því sleppti að fylgja sömu stefnu og Danmörk í utanríkismálum. Þá voru bæði löndin hlutlaus.
Svo voru bæði löndin hernumin árið 1940 án þess að beðið væri leyfis, Danmörk af Þjóðverjum og Ísland af Bretum. Allt í einu skipti Ísland máli í átökum stórveldanna. Bretarnir fóru og Kaninn kom með samþykki Íslendinga. Íslendingar tóku þátt í alþjóðlegu myntsamstarfi og síðar í Sameinuðu þjóðunum. Þetta var lítt umdeilt, en þegar NATO aðild var samþykkt kostaði það átök á Austurvelli.
Inngangan í EFTA og EES löngu seinna voru líka umdeild, en alltaf var niðurstaðan sú að best væri að fylgja okkar nágrannaþjóðum. Með því að ganga í EES gengu Íslendingar meira en hálfa leið inn í Evrópusambandið undir forystu þeirra Björns Bjarnasonar, Davíðs Oddssonar og fleiri sjálfstæðismanna. Inngangan var ekki óumdeild innan flokksins. Eggert Haukdal, Eyjólfur Konráð og Ingi Björn Albertsson snerust gegn forustunni. Á þeim tíma hefði fáa órað fyrir því að tuttugu árum síðar væri hún öll komin á þeirra band.
Þó að Íslendingar væru fáir höfðu þeir vit á því að mikilvægt væri að ná góðu sambandi við erlenda ráðamenn. Ólafur Thors og Bjarni Benediktsson áttu mjög gott samstarf við þýska og enska ráðamenn, auk kollega á Norðurlöndum. Þetta kom sér oft vel þegar á reyndi. Sömu sögu er að segja um leiðtoga Alþýðuflokksins. Meira að segja Alþýðubandalagsmenn ræktuðu samband við erlenda systurflokka, að vísu mest austan járntjalds, en einangrun var þeim fjarri. Það voru helst framsóknarmenn sem þekktu fáa á erlendri grund, nema helst búlgarska Bændaflokkinn.
Persónuleg kynni Davíðs Oddssonar við bandaríska forseta urðu eflaust til þess með öðrum „sérstökum samböndum“ að herinn var hér á landi miklu lengur en herfræðilegar aðstæður kröfðust.
Árið 2008 var hins vegar svo komið að Íslendingar áttu fáa vini á erlendri grund. Jafnvel Norðurlöndin voru treg í taumi þegar leitað var lána og Bandaríkjamenn vísuðu slíkum umleitunum á bug. Þá hefði öllum átt að vera ljóst að Bandaríkjamenn litu ekki lengur á Ísland sem hluta af sínu ábyrgðarsvæði. Hernaðarþýðing landsins hafði minnkað með langdrægari flugvélum og fjarskiptum. Ameríkanar hugsuðu greinilega að Ísland væri á ábyrgð Evrópu enda Evrópuland.
Íslendingar neituðu hins vegar að viðurkenna þetta og horfðu lengi löngunaraugum vestur um haf til sinna gömlu og traustu vina, sem höfðu gleymt þeim. Gömlu sjálfstæðisforingjarnir,sem áður höfðu af framsýni komið Íslandi hálfa leið inn í Evrópusambandið, þekktu þar ekki lengur nokkurn mann og töldu að þangað ætti Ísland ekki frekara erindi. Jafnvel Kína og Rússland væru betri bandamenn en okkar nágrannaþjóðir.
Í fyrradag undirrituðu Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra og varautanríkisráðherra Kólumbíu, Patti Londoño samkomulag um reglubundið pólitískt samráð milli Íslands og Kólumbíu. Þetta er dagsatt. (Þess skal getið að Búlgaría er nú í Evrópusambandinu og Bændaflokkurinn þar ekki góður bandamaður lengur).
Þetta skilur enginn, nema þeir sem átta sig á því að Evrópusambandið, Samfylkingin og Baugur eru öxulveldi hins illa. Þess vegna er bandalag við eitt af þessu jafngilt því að selja sál sína.
Þess vegna hefur Ísland undanfarinn áratug orðið stefnulaust rekald. Allt sem ekki er Evrópusambandið er gott. Norðvesturbandalagið, heimskautabandalagið og Kanada fela öll í sér „lausn“ fyrir Ísland. Þeir sem komast í snertingu við eitthvað af þessu eru hólpnir. Það er að segja best af öllu er auðvitað að vera í sóttkví frá öllu illu.
Allt í einu vakna menn upp við vondan draum. Norðmenn sem eiga að vera góðir eru allt í einu vondir og leika ljóta leiki. Meira að segja Færeyingar (þú líka bróðir minn Brútus), svíkja á ögurstundu.
Sjálfstæðið er orðið svo mikið að Íslendingar eiga ekki lengur neina bandamenn. Nema auðvitað Kólumbíumenn sem við getum haft samráð við.
Fullveldið felst nefnilega ekki í því að stinga höfðinu í sandinn og þora aldrei að gera samninga við nokkra þjóð, heldur þvert á móti að þora að vera þjóð meðal þjóða, efla vináttu og tengsl við þá sem mestu skipta.
Þegar flokkar skilja stefnuna sína eftir í reiðileysi er ekki ólíklegt að einhverjir aðrir komi og nýti hana. Vestræn samvinna hefur verið Íslandi hagfelld til þessa og engin ástæða til þess að það breytist í framtíðinni.