… når de er mange nok (BJ)

Stundum á ég mjög erfitt með að skilja fólk. Ég hugsa að það eigi líka erfitt með að skilja mig.
Fyrir alþingiskosningarnar síðustu var talað við mig á Eyjunni og ég spurður að því hvort ég væri ósáttur við það að formaður Sjálfstæðisflokksins hefði viljað hætta viðræðum um aðild að Evrópusambandinu kæmist flokkurinn í stjórn. Ég svaraði:
„Bjarni hefur sagt að kjósa beri um framhald viðræðna á fyrri hluta kjörtímabilsins og það sama hefur Hanna Birna sagt. Á fjölmennum fundi nefndi Bjarni að heppilegur tími gæti verið næsta vor með sveitarstjórnarkosningum. Það hljómar skynsamlega, þá verður þátttaka almenn og kostnaður lítill. Í ljósi þessara yfirlýsinga geri ég ekki athugasemdir við ummæli Bjarna. Hann er sjálfum sér samkvæmur.“
Ég hafði enga ástæðu til annars ætla að við þetta loforð yrði staðið. Það var ítrekað eftir að þetta viðtal við mig birtist og sérstaklega tekið fram að við loforðið yrði staðið. Auðvitað er svolítið merkilegt þegar stjórnmálamenn flokka loforð sín með þeim hætti að taka fram að við sum þeirra verði staðið, en það styrkti mig bara í trúnni.
Ekki kom það á óvart að viðræðunum við Evrópusambandið væri ekki haldið áfram eftir kosningar. Innan við viku eftir að nýja stjórnin tók við hitti ég nýja utanríkisráðherrann. Hann sagði að ekki myndu viðræður hefjast undir hans stjórn, en auðvitað yrði kosið um framhaldið. Það væri bara spurning um hvernig sú spurning væri orðuð.
Ein mesta ógæfa þjóðarinnar á síðasta kjörtímabili var að ekki tók við stjórn sem sameinaði krafta úr öllum flokkum til þess að vinna að endurreisninni. Þess í stað var kappkostað að ná í gegn séráhugamálum flokkanna, sem oft áttu sér lítinn hljómgrunn meðal þjóðarinnar, jafnvel hjá samstarfsflokknum. Sumir hafa nefnt að Evrópusambandsumsóknin hafi verið eitt slíkt mál. Það er reyndar ekki rétt því að kannanir sýndu að meirihluti þjóðarinnar vildi sækja um aðild. Í mars 2009 skrifaði ég í Fréttablaðið:
„Kannski er málið svo stórt að það er stjórnmálamönnum ofviða. Líklega er réttast að kjósa um aðildarumsókn samhliða alþingiskosningum í vor. Samþykki þjóðin að sækja um aðild hafa ráðin þar með verið tekin af stjórnmálaflokkunum. Ef ekki væri það þjóðin sjálf sem hefði ákveðið að hér eigi að vera annars flokks þjóðfélag til frambúðar.“
Ég hef ekki breytt um skoðun. Best væri að þjóðin ákvæði um framhaldið. Því miður reyndist ég sannspár um að stjórnmálamenn hafa ekki ráðið við málið. Sum mál eru þannig. Skoðanir fara þvert á flokka.
Nú hafa stjórnarliðar ákveðið að ekki sé nóg að gert að hætta viðræðunum. Draga beri umsóknina til baka án þess að um það fari fram atkvæðagreiðsla. Með þessari skyndilegu stefnubreytingu á að eyðileggja það starf sem þegar hefur verið unnið. Núna vitum við að það tók um það bil eitt ár að Ísland væri viðurkennt sem umsóknarríki og var þó örugglega mikill velvilji í garð umsóknarinnar. Allt það ferli þarf að endurtaka verði umsóknin dregin til baka. Það þarf að brenna brýrnar svo að verði farið yfir þær í framtíðinni.
Ekkert sérstakt hefur gerst á undanförnum dögum sem skýrir þennan mikla hraða, nema ef vera skyldi að ríkisstjórnin vildi nýta þann mikla meðbyr sem forsætisráðherra nýtur eftir viðtalið fræga á sunnudagsmorgni.
Ein skýringin sem heyrst hefur, að stefnubreytingin sé vegna þess að það sé óheiðarlegt gagnvart útlendingum að halda umsókninni á lífi, vegna þess að allir viti að núverandi stjórnarflokkar vilji ekki inn í sambandið.
Þetta getur ekki talist ósennilegt, svo vitnað sé til orða Bastíans bæjarfógeta, þegar ræningjarnir þrír sögðu að góssið frá kaupmönnunum hefði óvart dottið í hærusekk þeirra. Að minnsta kosti sér hver maður að það er miklu mikilvægara að vera heiðarlegur gagnvart útlendingum en eigin kjósendum.
Sumir eiga erfitt með að skilja hvers vegna stjórnarliðar hafa snúist svo hart gegn því að þjóðin fái að ráða í þessu máli. Utanríkisráðherra gaf í skyn að hið illa Evrópusamband, „úlfur í sauðargæru“, bæri ábyrgðina á því að tugir manna væru skotnir af Moskvusinnuðum stjórnvöldum vegna þeirra mistaka „sem Evrópusambandið gerði í málefnum Úkraínu.“ Mistökin fólust í því að gera viðskiptasamning við landið.
Einn af menntuðustu þingmönum Framsóknarflokksins telur að í Evrópu ríki hungursneyð. Ef þingmenn stjórnarinnar, sem líta svo upp til þessa þingmanns að þeir hafa gert hann að formanni valdamestu nefndar þingsins, telja þetta almennt, er ljóst að þeim gengur aðeins gott til að vilja halda Íslandi einangruðu frá þessari hörmungarslóð.
Einn þingmanna stjórnarinnar er Birgir Ármannsson. Hann segir í viðtali um loforð fyrir kosningar að þau hefðu alls ekki verið svikin en: „Það má orða það þannig að menn hefðu sennilega átt að orða hlutina með öðrum hætti.“
Á vef Sjálfstæðisflokksins xd.is hafa menn einmitt tekið þetta til greina. Fyrir kosningar og allt fram í nóvember (og kannski lengur) var þetta stefna flokksins samkvæmt vefnum:
„Sjálfstæðisflokkurinn telur hagsmunum Íslands betur borgið utan Evrópusambandsins en innan. Kjósendur ákveði í þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu hvort aðildarviðræðum skuli haldið áfram.“
Nú hefur seinni setningin verið orðað miklu betur á vefnum: „Kjósendur ákveði í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort aðildarviðræðum skuli haldið áfram.“
Vissulega er hagræði að geta þannig fært stefnuna til betri vegar á vefnum, þótt ekki hafi gefist tóm til þess að gera það fyrir kosningar.
Birgir sagði líka í viðtali: „Það hefur komið upp á undanförnum árum að einhverjir hafi sagt sig úr flokknum vegna Evrópumála og auðvitað kann eitthvað slíkt að gerast nú. En ég túlka það frekar sem brotthlaup einstaka manna.“
Á frægum landsfundi Sjálfstæðisflokksins fyrir nokkrum árum taldi Hanna Birna Kristjánsdóttir nauðsynlegt að bjóða sig fram gegn sitjandi formanni vegna þess að fylgi flokksins væri fast í 36%, þrátt fyrir að kjöraðstæður væru til þess að það væri miklu, miklu meira. Fyrir landsfundinn vorið 2013 var fylgi nálægt þessari tölu.
Eftir landsfund hrundi það og fór undir 20%, þangað til formanninum tókst að hífa það upp á endasprettinum og það endaði í 27%. Sem sé fjórðungur fylgisins var farinn. Sem er auðvitað bara brotthlaup einstakra manna. Svolítið margra að vísu, en ekkert til þess að gera sér rellu út af.
Allmargir hafa skrifað mér eða haft samband við mig með öðrum hætti að undanförnu. Sumir voru í hópi þeirra 4.000 einstöku manna sem voru á Austurvelli í dag. Skilaboðin eru flest lík þessum:
„Sjálfstæðisflokkurinn hefur yfirgefið mig með óskiljanlegri, óskynsamlegri og óupplýstri ákvörðun og sviknum loforðum. Það vantar sárlega frjálslyndan, víðsýnan og alþjóðasinnaðan miðhægriflokk.“
Ég hef svarað með þeim hætti að flokkar séu oftast stofnaðir á Íslandi utan um ákveðna menn. Það hugnast mér ekki, því að flokkar eiga að vera um málefni, þeir eiga að setja almannahagsmuni ofar sérhagsmunum og stuðla að því að sömu reglur gildi um alla. Meðan það eru bara einstakir menn sem eru sama sinnis er tómt mál að tala um slíkt.
Hins vegar syngja Íslendingar oft á góðri stundu:
Fuglene flyver i flok
når de er mange nok.
Það er nokkuð til í því.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.