Almennilegir menn (BJ)

Oftast er maður heppinn og lífið gengur sinn tíðindalitla vanagang. Stundum hlaðast ótíðindin hins vegar upp og maður veltir því fyrir sér hvenær nóg sé komið. Í haust dóu nokkrir vinir okkar Vigdísar á skömmum tíma og ég ætla að fara nokkrum orðum um þessa menn sem ég kynntist og varð ríkari af en áður.

Þegar ég fór að vinna við verkefni hjá Almennum tryggingum árið 1984 voru þar margir skemmtilegir fírar. Einn þeirra var Gunnar Már Pétursson, sem var deildarstjóri í endurtryggingadeildinni. Almennar höfðu tekið að sér að tryggja erlendar stórþjóðir gegn ýmiss konar vá. Ef skæruliðar sprengdu ísraelskar farþegaþotur í loft upp voru Almennar í hópi þeirra sem borguðu brúsann. Flugslysið mikla við Tenerife árið 1977 þegar tvær Boing 747 vélar lentu saman endaði líka á borðum manna við Síðumúlann, en þá borguðu menn ekki lengur með jafnbreiðu brosi á vör og áður.

Gunnar Már var alíslenskur en dvaldi í Danmörku fyrstu tvo áratugi lífsins og beið þess aldrei bætur, talaði alltaf undarlega íslensku, hlutir fóru í kynskipti hjá honum löngu áður en það var orðið sjálfsagt mál og margt sem hann sagði var með undarlegum blæ. Í deildinni vann kona sem mig minnir að hafi verið bresk. Einhvern tíma var spurt um Gunnar og hún kallaði þá um kallkerfið sem náði um allt hús: „Gunnar Már Pétursson er beðinn að koma til sjálfs sín.“

Á árshátíðum Sambands íslenskra tryggingafélaga var Gunnar yfirleitt ræðumaður og fór þá á kostum þegar hann fór með annál ársins. Kannski komst hann upp með að segja ýmislegt sem öðrum hefði ekki leyfst vegna þess hvernig hann talaði.

Erlendu endurtryggingarnar hjá íslensku tryggingafélögunum voru eins konar undanfari útrásarinnar. Um 1980 voru nánast öll tryggingafélögin á hausnum vegna þessa ævintýris.

En hjá Gunnari Má var orden í galskabet og hann hélt vandlega utan um alla samninga sem gerðir höfðu verið, hversu vitlausir sem þeir voru. Eftir að Sjóvá og Almennar sameinuðust hélt Gunnar utan um þessa gömlu gjörninga, sem hann hafði engan þátt átt í, jafnvel löngu eftir að hann var hættur daglegri vinnu. Mig grunar að það hafi ekki bara verið vegna þekkingar hans á einstökum málum heldur líka þess hve gaman menn höfðu af því að spjalla við hann. Gunnar dó fyrir liðlega þremur árum, en hann kom í hugann þegar ég settist niður til þess að rifja upp kynni við tvo félaga hans sem dóu nú í haust.

Magnús Pétursson var glaðlegur í fasi þegar hann heilsaði mér í Síðumúlanum. Hann leit alltaf út eins og hann lumaði á gamansögu sem var líka oft raunin. Þegar hann líftryggði mig í fyrsta sinn fór hann í gegnum nokkrar spurningar sem nú flokkast eflaust undir persónunjósnir, en þóttu þá sjálfsagt mál að svara þegar menn tryggðu sig. Mér fannst ég standa mig vel þegar vikið var að heilsufari, ekki reykti ég en vafðist tunga um tönn þegar spurt var um áfengisnotkun. Magnús var fljótur að skynja það og sagði: „Ég skrái notkun í hófi.“ Ég féllst glaður á það.

Á þeim tíma hafði ég ekki hugmynd um það en Magnús hafði sjálfur alls ekki notað áfengi í „í hófi.“ Þvert á móti hafði Bakkus orðið honum fjötur um fót eins og mörgum öðrum góðum drengjum. Menn lágu ekki á því að hann hefði bara fengið vinnu hjá félaginu vegna þess að hann var náfrændi forstjórans, Ólafs B. Thors. Ekki var búist við miklum afrekum frá honum þegar hann byrjaði, en annar maður hóf störf á svipuðum tíma sem menn væntu mikils af.

Sá var vinnusamur mjög samkvæmt stimpilklukku. Einu sinni hafði hann samkvæmt stimpilkortinu unnið heilan laugardag, sem ekki var óvenjulegt. Í þetta sinn vildi svo illa til að forstjórinn skaust inn til þess að sinna einhverju erindi, en festist í lyftunni milli hæða. Þótt Ólafur lægi á bjöllunni hálfan daginn, sinnti vinnuforkurinn ekkert um forstjóra sinn. Ekki er þess getið að hann hafi unnið fleiri laugardaga hjá fyrirtækinu.

Magnús varð hins vegar frá fyrstu tíð hvers manns hugljúfi. Hann var úrvals sölumaður og sjarmeraði marga fullorðna konuna sem vildi tryggja fyrirtæki sitt hjá Almennum. Hafi nokkur hugsað sér að hætta þeim viðskiptum bráðnaði harðasta hjarta þegar Magnús mætti með vínarbrauðslengjuna.

Magnús hætti störfum fyrir nokkrum árum en enginn gat merkt annað en hann væri við ágæta heilsu eftir aldri. Síðastliðið vor kom þó í ljós sjúkdómur sem menn vilja helst losna við, en ekki var talin þörf á aðgerð þá þegar. Um haustið fór Magnús í skoðun og fékk þá að vita það hjá læknum að nú væri sjúkdómurinn svo langt genginn að hann ætti bara örfáa daga eftir ólifaða.

Flestum yrði lítið um slík tíðindi, en Magnús tók þeim af mikilli ró. Hann var lagður inn á spítala og hringdi í menn til þess að tilkynna þeim hvernig komið væri. Þegar menn komu að heimsækja hann með kökk í hálsi, tók Magnús þeim með sinni vanalegu gleði. „Hafið ekki áhyggjur af mér“, sagði hann. „Þetta er bara skammtímainnlögn.“

Dagarnir urðu heldur fleiri en við var búist, en auðvitað allt of fáir og Magnús dó í byrjun október.

Um svipað leyti dó enn einn félaginn frá Almennum tryggingum. Þegar ég kom þangað fannst mér ég umvafinn úrvalsmönnum. Ég man pabbi spurði mig að því þegar ég fór að vinna fyrir Almennar, hvort ég væri viss um að þetta væri góður félagsskapur. Hann hafði af því pata að menn sem ekki væru með þeim snjöllustu í viðskiptum tengdust félaginu. Þegar þarna var komið sögu höfðu þeir beint kröftum sínum annað.

Sá sem ég lærði líklega mest af í Almennum tryggingum var Guðmundur Jónatansson. Guðmundur stýrði bókhaldinu og á þessum tíma hefði ég verið vís til að lesa ársreikning á haus, því að í bókhaldi kunni ég ekki par. Ég spurði Guðmund einmitt á okkar fyrsta fundi hvaða tala í ársreikningnum væri merkilegust. Ekki hefði mig dreymt um það á þeim tíma að ársreikningar yrðu mitt aðallesefni næstu áratugina.

Guðmundur varð fertugur þetta vor. Hann var nýlega kominn með nýja konu og ég man að margir undruðu sig á því. Fyrri konan og Guðmundur hefðu einmitt átt svo einkar vel saman. En vegir ástarinnar eru illrannsakanlegir eins og síðar kom á daginn.

Fyrstu vikurnar sem ég vann með félaginu þurfti ég að fara gegnum mikið af gögnum. Þegar Ólafur B. Thors hringdi í mig um vorið til þess að spyrja, hvort ég væri til í að vinna fyrir félagið, hefði hann eins getað spurt mig hvort ég vildi ekki hjálpa til við geimferðaáætlunina.

Ólaf þekkti ég auðvitað eins og aðrir Íslendingar, en hann var þekktur úr stjórnmálunum, en sjálfur tryggði ég allt hjá Sjóvá. Þar voru frændur mínir í öðru hvoru herbergi. Annað vissi ég eiginlega ekki um tryggingar.

Ólafur sagði mér að málið snerist um einhvern mismun upp á milljón dollara í erlendum endurtryggingum. Ég lét eins og það væri ekki stórmál fyrir mig, rétt eins og yfirleitt leysti ég milljón dollara málin með morgunmatnum.

Guðmundur afhenti mér mikla möppu með skjölum um málið. Á næstu vikum reyndi á ótrúlega kennsluhæfileika hans og þolinmæði. Fljótlega týndi ég möppunni og fór svo að spyrja Guðmund um ýmis skjöl, sem ég þóttist aldrei hafa fengið. Jú, Guðmundur hélt það, en það var sjálfsagt að útbúa aðra möppu. Sú nýja var varla komin í hendurnar á mér þegar ég fann hina, en á þetta var aldrei minnst fremur en að ekkert væri skemmtilegra en ljósrita gögn fyrir mig.

Þetta endurtryggingamál vatt upp á sig. Tryggingaeftirlitið krafðist ýmissa aðgerða og séruppgjöra. Þegar niðurstaðan úr þeim leiddi til miklu jákvæðari myndar en áður ákváðum við Guðmundur að reikna ekki gjaldþolið, heldur láta það koma sem spælingu fyrir hið kappsfulla eftirlit að nú stæðist félagið prófið, eða svo gott sem a.m.k. Með séruppgjörinu fylgdi svo bréf til eftirlitsins um að gögnin væru trúnaðarmál.

Mér tókst að spilla Guðmundi nóg til þess að hann skrifaði undir bréfið og okkur þótti þetta óskaplega fyndið. Forstjóri eftirlitsins hafði annars konar kímnigáfu og næsta bréf úr eftirlitinu var um að svipta bæri félagið starfsleyfi.

Við tók hálfs árs barátta upp á líf og dauða. Á endanum unnum við málið sem fór fyrir sérstaka úrskurðarnefnd undir stjórn hagstofustjóra, en þetta er líklegast dýrasti brandari sem ég hef komið að. Eftir á að hyggja fannst okkur Guðmundi hann hverrar krónu virði.

Næstu tuttugu árin unnum við náið saman að uppgjörum Almennra og síðar Sjóvá-Almennra. Það voru fín félög og mikill menningarspjöll þegar Íslandsbanki keypti félagið. Reyndum mönnum eins og Guðmundi var skákað til hliðar, þegar einmitt hefði verið ástæða til þess að nýta krafta hans sem lengst. Hann fór hins vegar á eftirlaun rúmlega sextugur og undi sér vel.

Ástamál geta verið einkennileg og fljótlega eftir að ég fór að vinna með Guðmundi skildi hann við aðra konuna. Þetta fannst mér skrítið, því sjálfur hafði ég varla kynnst slíkum jafnaðargeðsmanni og honum. En sem betur fer var hann ekki lengi ógiftur. Í Þórskaffi hitti hann Sirrý, fyrri konuna sína aftur, og eftir það var hann á beinni gæfubraut í einkalífinu.

Um Guðmund gæti ég skrifað miklu meira, en síðastliðið haust varð hann fyrirvaralaust fyrir alvarlegu slysi sem dró hann til dauða. Með honum sá ég á bak góðum manni og góðum vini.

Ég veit ekki hvers vegna það var sem svo margt gott fólk safnaðist saman inn í Almennum tryggingum. Sagt er að eftir höfðinu dansi limirnir og það voru sannarlega forréttindi að vinna hjá manni eins og Ólafi B. Thors. Síðar unnu þeir saman sem einn maður, Ólafur og Einar Sveinsson hjá Sjóvá-Almennum. Þeir náðu að framkalla það besta í fari sinna starfsmanna.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.