Á fallegum degi velti ég stundum fyrir mér hvort fegurð umhverfisins sé tilviljun eða hvort guð gæti verið til. Um þetta geta menn deilt endalaust og kannski er guð hvers og eins bara hans hugmynd, til í eigin sjálfsvitund án þess að það verði frekar rökstutt.
Margir hafa samt sagt að náttúran kunni að verða falleg fyrir tilviljun, en mannanna verk geti ekki orðið óendanlega fögur nema fyrir tilstilli einhvers æðra krafts. Hannes Pétursson tengdi þetta saman í ljóði:
Umhverfi
Hve lengi get ég lofsungið þessi fjöll
lofsungið þetta haf, þessar eyjar og strendur
já menn og alla hluti sem huga minn gleðja
hve lengi, án þeirrar vissu að eitthvað sé til
ofar sérhverjum stað, hverri reynslu og hugsun
sem teflir þessum fjöllum fram, þessu hafi
fjarlægð og nálægð, öllu – lífi og dauða
leikur því fram fyrir augum mér öruggri hendi?
Oft getur þessi skynjun náð hærra í tónlist en nokkurs staðar annars staðar. Jónas Ingimundarson píanóleikari hélt í dag fyrsta fund sinn í Salnum í tilefni af því að hann hefur setið í hálfa öld við slaghörpuna. Jónas kom fram ásamt Þóru Einarsdóttur sem er frábær söngkona og Kristbjörgu Kjeld leikkonu. Kristbjörg er tignarleg kona og las ljóðin sem Þóra söng svo af mikilli reisn og var laus við tilgerð sem einkennir marga leikara. Jónas fór kostum, bæði við píanóið og milli laga, skýrði þau og bætti við. Um eitt lag sagði hann að svona laglínur yrðu til þess að manni fyndist að guð hlyti að vera til. Lagið er Crépuscule eftir Jules Massenet.
Mér fannst hins vegar annað lag gefa mér þessa sömu upplifun, sem kannski rímar við það sem ég sagði að hver hafi sína upplifun af guði. Þetta lag heitir A Chloris eftir Reynaldo Hahn. Í því er meistaralegt undirspil sem ég þykist þekkja (og veit reyndar hvaðan að hluta) en er ekki viss um hvort er hluti af einhverju þekktu lagi. Sá sem veit, eða þykist vita, má gjarnan láta mig vita hvort einhver hefur tekið þetta traustataki og nýtt í lagi. Þarna eru undirspilið og lagið hvort um sig fallegt og einfalt meistaraverk.
Stærðfræðileg fegurð er auðvitað einkennileg að því leyti að þeir sem ekkert kunna í stærðfræði halda að þeir sem sjá fegurð í formúlum séu haldnir guðlegu innsæi af þeirri tegund að helst ætti að loka þá inni á stofnunum. Þeir, sem hafa lært, upplifa fegurðina í einfaldleikanum.
Sagt er að stærðfræðingurinn Euler hafi á sínum tíma sett fram stærðfræðilega sönnun á því við hirð Katrínar miklu að guð væri til.
Sönnunin sem sögunni fylgir er óttalegt bull sem bendir til þess að sagan sé ósönn, en hún nægði til þess að slá út Frakkann Denis Diderot, einn of höfundum fyrstu alfræðiorðabókarinnar, líklega vegna þess að Diderot kunni ekkert í stærðfræði.
Önnur jafna sem kennd er við þennan sama stærðfræðing, er hins vegar miklu nær því að búa yfir stærðfræðilegri fegurð sem getur sannfært menn um að lífið sé ekki allt tilviljun.
Jafna Eulers er:
exp(i·π) + 1 = 0.
exp stendur fyrir veldisfallið, oft táknað e.
Þessi jafna fer miklu lengra með að sanna tilvist guðs en sú sem sögunni fylgir (og ég sleppi hér). Í jöfnunni koma fyrir pí (π) sem hlutfallið á milli ummáls og þvermáls hrings, e, sem er grunntalan í veldisfallinu, i sem er einingin í svonefndum tvinntölum, 1 og 0 sem eru hvor með sínum hætti grunntölur talnakerfisins (margföldunar- og samlagningarhlutleysur). Saman geta þessar tvær tölur reyndar táknað allt talnakerfið í svonefndu tvíundakerfi, sem margir lærðu um í skóla sem undirstöðu tölvunnar. Einhver sagði að tvíundakerfið væri önnur sönnun þess að einn guð (sem táknaður væri með 1) gæti skapað allan heiminn úr engu.
Í bílnum er ég núna með geisladisk eftir Tómas R. Einarsson, nokkurra ára gamlan disk sem heitir Trúnó. Þar syngur Ragnheiður Gröndal flest lögin. Hún er stórkostlegur söngvari og lögin eru hvert öðru betra. Eitt lagið fjallar um tilvist guðs, en það fann ég ekki á Youtube og set inn Stolin stef sem þau syngja saman Ragnheiður og Mugison. Það þarf mikið til að maður hlakki til að setjast í bílinn.
Í líffræðinni sem ég las í menntaskóla var kafli um að ekki væri hægt að sanna tilvist guðs með tilraun, því að væri hann til væri hann alls staðar nálægur og því væri ekki hægt að gera samanburðartilraun án hans. Væri hann ekki væri ekki hægt að gera samanburðartilraun með honum.
Pétur Þorsteinsson bekkjarbróðir minn sem síðar varð prestur Óháða safnaðarins svaraði spurningu kennarans um það hvernig líf gæti hafa kviknað á jörðinni með því að guð hefði skapað það. Hann fékk núll fyrir.
Þetta dæmi sannfærði mig um yfirburði hugvísindanna yfir raunvísindin. Stærðfræðin er, þvert á það sem margir halda, hreinust allra hugvísinda, því að í henni er hægt að skapa alls kyns veraldir sem eiga ekki endilega neitt skylt við þá veröld sem við lifum og hrærumst í. Þess vegna geta stærðfræðingar, tónlistarmenn og skáld sannað tilvist guðs, þó að að eðlisfræðingar og líffræðingar geti það ekki.
Kannski gildir sönnunin bara fyrir einn, en það er nóg fyrir þennan eina.