Nú er rúmlega mánuður síðan ég skrifaði pistil. Ég gerði reyndar tilraun til þess að skrifa á annan í jólum pistil sem byrjaði svona:
Jól á sterum (BJ)
Það er svolítið kómískt að hafa ákveðið að skrifa pistil með þessu heiti og koma sér svo ekki til þess. En satt að segja er tvennt sem veldur: Maður á að vera latur á annan í jólum og hálskirtlarnir sem hafa verið að kitla mig undanfarna viku ákváðu loksins að stækka nóg til þess að ég hljóma eins og ég sé með sandpappír í kokinu.
Tilraunin varð ekki miklu lengri. Mér finnst skelfilegt að hafa eytt þessari góðu fyrirsögn til einskis, en svona er þetta líf.
Ég gæti auðvitað sagt frá frábærum jólagjöfum, snarpri glímu við flugelda á gamlársdag eða veisluhöldum um hátíðarnar. En þetta hafa auðvitað margir reynt og vart í frásögur færandi.
Hvað hafið þér lesið um jólin? var spurt í gamla daga. Ég er búinn að lesa nokkrar ævisögur, reyndar fimm í einni bók eftir Jón frá Grunnavík, frábær bók. Stundum held ég að sé uppi á röngum tíma. Þær bækur sem ég hef legið yfir eru handrit Árna Magnússonar og áðurnefnt ævisögusafn frá því fyrir 300 árum.
Svo las ég Hemma Gunn. Það eina sem ég man er að það truflaði hann ekkert að vera með konum sem voru miklu yngri en hann.
Annars var sú bók ágætlega skrifuð en eins og langt sunnudagsblaðsviðtal. Ég er viss um að höfundurinn hefði getað skrifað miklu skemmtilegri bók ef hann hefði vikið frá handritinu sem hann var búinn að vinna með Hemma.
Bókin sem ég er að lesa núna er líklega merkilegust af öllum. Hún heitir Svartþröstur og er eftir frænda minn Hafliða Vilhelmsson. Þeir sem eru vel að sér í fuglafræði vita að svartþröstur er Blackbird á ensku og nafnið er sótt í samnefnt lag Bítlanna. Stefán félagi minn þýddi á sínum tíma fyrstu línuna sem á ensku er svona: Blackbird singing in the dead of night, en þýðingin var svona: „Svartfugl syngur í dauða nætur.“ Okkur fannst það mikil smámunasemi þegar verðandi fuglafræðingur benti á að svartfugl væri allt annar fugl en svartþrösturinn, sem syngur svo fallega.
Ég þekki ekki Hafliða, en Vilhelm pabba hans þekkti ég vel frá blautu barnsbeini. Mér fannst gaman að Villa, en hann var óneitanlega sérstakur maður. Faðir aðalpersónunnar er afar líkur Villa frænda, en ég veit ekki hvort söguhetjan sjálf er lík Hafliða. Líklega er hún skáldsagan í verkinu. Ég er rúmlega hálfnaður með bókina og finnst þetta einhver besta bókin sem ég hef lesið undanfarið ár.
Einhverjum kynni að þykja nærri Villa sneitt með bókinni, en ég gæti bætt ýmsum sögum við sem ekki flutu með og hefðu líklega talist of ótrúlegar. Ég man að mamma sagði að Villi hefði verið sá maður sem hún þekkti, sem best hefði ræst úr frá unglingsaldri til fullorðinsára. Hann var frændi hennar, en meiri frændi og vinur pabba. Þeir fóru saman á James Bond myndir á gamals aldri. Það fannst mér ágætt. En ég held að pabbi hafi aldrei farið með honum á Kringlukrána. Það var önnur deild.
Nóg þekki ég til fjölskyldunnar til þess að vita að börnin eru ekki nákvæm lýsing á systkinum Hafliða. Þess vegna var svolítið gaman að því að heyra þegar systirin lagði áherslu á jöfn skipti á arfinum; hún fengi helming og bræðurnir hinn helminginn.
Einhver sagði mér um daginn að í fyrstu bók Hafliða, Leið 12 Hlemmur-Fell hefðu verið hressilegri kynlífslýsingar en áður hefðu tíðkast hérlendis, en ég hef því miður ekki lesið þá bók. Sögupersónur í Svartþresti kunna líka sitthvað fyrir sér á því sviði. Ég man ekki hvað það heitir perrafélagið hjá Pétri frænda og vinum hans, en þeir ættu að kynna sér þessa bók hefi þeir ekki þegar gert það.
Svartþröstur hefði átt að vekja miklu meiri athygli en hann hefur gert til þessa. Ætti reyndar að vera ein umtalaðasta bók ársins. En stundum fljóta gullkornin hjá meðan leirinn hleðst upp.