Lífið og hamingjan (BJ)

Aðventan er góður tími til heimspekilegra vangaveltna. Hver er tilgangur lífsins? Er allt stritið til þess eins að fylla upp í tímann milli fyrsta og síðasta andartaks í lífi sérhvers manns? Tækninni og velmeguninni fleygir fram. En erum við hamingjusamari núna en forfeður okkar voru? Eða fer heimurinn kannski versnandi, eins og menn hafa sagt lengi, svo lengi að furðu má sæta að hann sé byggilegur enn þann dag í dag?

Allt eru þetta spurningar sem menn hafa velt fyrir sér kynslóð fram af kynslóð. Flýtur öll mannkynssagan fram í eina átt? Og hvort þá að fagnaðar- eða feigðarósi? Við viljum svör við erfiðum spurningum. Og stundum fáum við svör. Nýlega sá ég póstkort sem á stóð: Það er sama hver spurningin er: Svarið er alltaf súkkulaði. En svarið er samt ekki alltaf svona einfalt.

Stundum finnst okkur aðrir eiga erfitt með að sjá hlutina sömu augum og við. En það er ekkert skrítið. Engir aðrir hafa sömu augu og við eða sama sjónarhorn. Við getum ímyndað okkur að allt okkar líf sé leikrit þar sem við erum miðpunkturinn. Mörgum finnst samt eins og þeir ráði ekki miklu um sitt hlutverk eða framvindu leiksins. Þeir séu jafnvel í aukahlutverki í eigin lífi eða slökkt hafi verið á ljóskastaranum sem lýsti á þá. Sumir eru fastir í rullu í afskaplega langdregnu verki meðan aðrir á sama sviði eru í fjörugum gleðileik. En það er ekki alltaf allt sem sýnist. Pabbi sagði einu sinni: „Mér hafa orðið öll óhöpp í lífinu til láns fyrr eða síðar.“ Í leikritinu vitum við nefnilega ekki alltaf hvað gerist  næst og við getum líka haft áhrif á framvindu leiksins.

Ekki er langt síðan þjóðfélagið var heltekið af draumnum um eilífan lúxus. Menn héldu að hamingjuna væri að finna í því að eiga meira en náunginn. Í Bandaríkjunum orðaði forsetinn, sem þá var, það svo að þjóðfélagið skiptist í tvennt: Þá sem eiga og þá sem eiga meira. Við vitum hvernig sá draumur endaði.

En þessar kenningar hafa ekki alltaf haft yfirhöndina. Einu sinni töldu margir að enginn gæti náð hæstu hæðum nema með því að þola miklar þjáningar. Þórbergur Þórðarson skrifaði á sínum tíma um dýrkunina á fátæktinni. Af einhverjum ástæðum töldu margir að kröpp kjör væru beinlínis forsenda þess að menn gætu þroskast og náð árangri. Þórbergur dró þessa kenninguna um heimsspeki hinnar mannbætandi eymdar sundur og saman í háði. Náðarmeðul eins og örbirgð, hungur, klæðleysi, menntunarskort, kauprán, kaupdeilur, fjárkreppur, heilsuspillandi húsakynni, sjúkdóma sem ill aðbúð dembir yfir smælingjana, skoðanamorð, mansal og styrjaldir taldi meistarinn böl af mannavöldum. Ofan á það bætist barátta við náttúruöflin, fárviðri, eldgos, jarðskjálftar, elli og dauði, sem enginn ræður við.

Öll getum við eflaust tekið undir það að hamfarir séu lítt eftirsóknarverðar og ólíklegt að þær séu nauðsynleg skref á leið til sérstakrar sælu. Samt verðum við að takast á við áföllin þegar þau verða en við sækjumst ekki eftir þeim. Öðru hvoru lýsa rómantískir hugsjónamenn því yfir að Íslendingum hafi liðið miklu betur í torfkofunum en í sterílum steinkumböldum nútímans. Í mörgum okkar leynist lítill Rousseau, franski heimspekingurinn sem hélt því fram að við ættum að hverfa aftur til náttúrunnar. Samt vekur það ekki sérstaka hrifningu þegar náttúran kemur í heimsókn til okkar í formi myglusveppa sem leggja heilar fjölskyldur í einelti. Framleiðendur auglýsa að þeirra vara sé „hrein náttúruafurð“ og því gæðavara. En í náttúrunni eru margar eitraðar plöntur sem geta gert út af við fílhraust fólk við fyrsta munnbita. Þó að náttúran sé góð er hún ekki algóð.

Hér á landi var nýlega fjallamaðurinn Ed Viesturs sem hefur gengið á alla hæstu tinda heims og margoft lagt Everesttind að fótum sér. Gefum honum orðið: „Gangan er óþægileg og erfið, manni er kalt og hún tekur langan tíma. Maður verður að njóta þessara aðstæðna og sá sem hefur ekki ástríðuna getur ekki unnið afrek. Þegar maður er kominn að Everest, hæsta fjalli heims, verður það eina takmarkið að komast á tindinn, sama hversu langan tíma það kann að taka. Þegar hæsta punktinum er náð finnur maður að þetta var erfiðisins virði og veit að allt sem maður lagði í þetta var til þess að finna þennan óútskýranlega unað að hafa náð takmarkinu.“

Við þekkjum þetta sjálf. Tilhlökkunin og undirbúningurinn eru stór hluti af góðu ferðalagi.

Í upphafi nefndi ég hamingjuna. Er lífið allt kannski leitin að hamingjunni? Þessu óræða hugtaki sem virðist oft jafnnálægt og regnbogi á himinhvelfingunni og er um leið jafn lipur að víkja sér undan þegar við reynum að höndla hana. Tæknin bætir lífskjör en færir hún okkur hamingju?

Tölvurnar eru sífellt með meiri reiknigetu, þær verða smærri og hraðvirkari. Alltaf koma fram ný og fullkomnari forrit. Hvernig stendur þá á því, að þrátt fyrir allar þær upplýsingar sem fyrir lágu og allan þann tölvukraft og þekkingu sem menn búa nú yfir, varð einhver mesta kreppa sem um getur í sögunni af mannavöldum? Getur verið að við höfum ekki yfir að búa þeirri visku sem við héldum? Eða fara dómgreind og greind ekki alltaf saman?

Jón Karl Helgason skrifar í bók sinni Ódáinsakur um muninn sem er á manninum sjálfum og þeirri mynd sem aðrir sjá af honum. Þannig getur maðurinn Kjarval hafa verið ólíkur fígúrunni Kjarval sem almenningur þekkti. Sumir vilja búa til af sér ákveðna ímynd. Þegar kveikt er á hljóðnema eða myndavél breytast þeir. Í stað þess að vera það sem hann er, verður viðmælandinn sá sem hann vill að aðrir haldi að hann sé. Oftast eru þetta slæm skipti. Mönnum fer best að vera þeir sjálfir.

Stundum rugla menn saman hamingju og vellíðan. Manni getur liðið vel tímabundið við mat og drykk, svo dæmi sé tekið, en fyllst síðar sektarkennd. Sá sem líður vel dag eftir dag, án þess að fá samviskubit, er hamingjusamur maður.

Það er gæfa að eiga góða vini, og það er mikils virði að hitta gott og gegnheilt fólk. Ég ætla að gamni mínu að nefna mann sem fellur í þann flokk, Tryggva Þorsteinsson lækni. Fyrstu kynni mín af honum voru reyndar ekki með þeim hætti sem ég hefði kosið. Ég varð fyrir slysi á unglingsárum og skarst illa á handlegg, svo mjög að hann hefði getað orðið mér ónýtur. Tryggvi sem var á vakt, skar og saumaði sárið saman, þannig að höndin er nánast jafngóð og áður. Tryggvi mundi ekkert eftir þessu þegar ég nefndi þetta við hann síðar. Honum fannst þetta ekki merkilegra verk en svo, en ég minnist hans alltaf, þegar ég heyri góðs manns getið.

En því kemur mér Tryggvi í hug þegar ég nefni hamingjuna, að hann skrifaði minningar sínar frá því að hann ólst upp í Vatnsfirði við Ísafjarðardjúp. Þar segir hann frá því þegar hann vappar um hagana, lítill drengur:

„Oft trítla ég meðfram bæjarlæknum, sem kemur úr gilinu ofan við túnið. Þetta er grunnur lækur, hættulaus börnum, en hvönn og kraftmikill gróður vex á lækjarbakkanum. Ég er að horfa á hvernig vatnið hringar sig kringum steinana sem standa upp úr og á hvít stjörnulaga blóm, sem eru á gulleitum dýjamosa úti í læknum og þarna eru líka stórar sóleyjar, stærri en þær sem vaxa á túninu. Blöðin á þeim eru líka öðruvísi, þau eru eins og hesthófur í laginu, segir Obba, og þessi blóm heita hófsóleyjar. Framan til og ofan við túnið er klettagil í fjallinu og þar á krummi hreiður. Gilið er bratt og nær alveg upp á fjallsbrún og á eftirmiðdögunum má stundum sjá í því dimma skugga. Neðan við túnið rennur áin og ég fæ að fara með pabba mínum að vitja um netin. Og þegar við komum heim með glansandi silunga í fötu er ég strax búinn að gleyma hvað ég var hræddur við þessa spriklandi fiska á árbakkanum og segi þá stundum dálítið sperrtur við systur mína: Sjáðu hvað við veiddum, við pabbi.“

Er hægt að lýsa hamingjustundum betur?

Ég nefndi áðan pabba minn, sem sneri öllum áföllum sér í vil. Faðir hans og afi minn, Tómas Zoega, var vinnusamur maður. Hann rak sparisjóðinn á Norðfirði og aldrei kom hann heim fyrr en bækurnar stemmdu að kvöldi og mátti þar ekki muna einseyringi. En hann vissi að lífið er ekki bara bankabækur. Einhvern tíma var sagt um hann að hann væri líklega eini sparisjóðstjórinn á landinu sem hefði ljóðabók á skrifborðshorninu til þess að grípa í, ef stund gæfist milli stríða.

Reynir, föðurbróðir minn, sagði mér að einu sinni hefði hann hneykslast á því við afa að menn væru að taka sér frí, í stað þess að vera í vinnunni og hefur eflaust haldið að sú skoðun félli vel í kramið. En þá svaraði afi: Til þess erum við nú að puða að geta notið lífsins inn á milli. Mér finnst eins og enginn sem ég þekki kunni að lifa lífinu jafnvel og Reynir frændi minn. Hann hefur hlustað á pabba sinn, eins og maður á að gera.

Margir hafa leitað hamingjunnar í frægð, völdum eða auðlegð. En krónur og aurar kaupa fasteignir og hlutabréf, en vinátta, virðing og traust verða ekki keypt eða metin til fjár. Við ráðum ekki hvaða spil við fáum á hendi í lífinu, en við ráðum því hvernig við spilum úr þeim. Jafnvel þó að við fáum ekki flesta slagi getur verið gaman að spila.

Ég vil ganga skrefinu lengra en afi. Hamingjan er ekki bara í frístundum, hún er miklu víðar. Hún er í kyrrðinni á morgnana þegar við vöknum, í spjallinu við vinnufélagana yfir fyrsta kaffibollanum, í skurðinum, við skrifborðið eða skenkinn þar sem við vinnum, í kveðjunni þegar við köllum til fjölskyldunnar um að við séum komin heim og í bókinni á náttborðinu á kvöldin.

Lífið er svolítið eins og spegill. Ef maður brosir framan í það, brosir það á móti.

Tilgangurinn með lífinu er ekki að ná ákveðnum markmiðum, þó að það geti verið ágætt að setja sér þau. Rétt eins og í þrekrauninni þegar Everesttindur er klifinn tengist allt saman: Undirbúningurinn, áreynslan, samvinnan, árangurinn og endurminningarnar. Það er góð ferð sem er aðalatriðið, ekki áfangastaðurinn.

Verðmætustu endurminningarnar eru sjaldnast um dýra hluti, séreignasparnað eða hlutdeildarskírteini. Nei, þær eru af leik við börn eða barnabörn, kaffibolla við eldhúsborð foreldra eða frændfólks, gönguferð í rigningunni með vinum eða sólsetri með makanum í sveitinni. Það sem mestu máli skiptir kostar sjaldnast peninga, heldur tíma og framtak til þess að gera það. Hringja eitt símtal, fara í eina heimsókn, segja eitthvað fallegt. Til þess er lífið. Eitt bros getur nefnilega dimmu í dagsljós breytt.

Hannes Pétursson er síðasta þjóðskáld Íslendinga. Stundum finnst mér hann vera skáldið sem þjóðin veit varla að hún á. Frá unga aldri hefur hann ort fallegri og betri ljóð en flestir sem nú kalla sig skáld. Nú er hann gamall maður og yrkir í bókinni Fyrir kvölddyrum:

Svo líða þeir einn og einn
hinir efri dagar.

En hvers vegna loða
þessir löngu skuggar við húð okkar?
Vorum við hlálegir
og hugðum: Innan skamms
verða grópuð
í gangstéttir sýnishorn af skóförum okkar
svo eftirkomendur skilji
að við áttum þar leið um, minnisverðir?
Sulgum við í okkur of lengi
sætabros og raup falsaranna?
Sleiktum við of lengi, eins og væri saltsteinn
söguburð hinna slóttugu?

Illska var okkur samt ekki í blóð borin.
Og margsinnis skalf hjartað
af hamingju, af fögnuði.
Margsinnis stóð hjartað opið
öllum hlýjum veðrum
og þá tókum við undir
orð úr fortíð:
„Guði sé lof fyrir góða menn,
bæði burtu farna, þá sem eru og ókomna …“

Fyrir einhverjar sakir loða
þessir löngu skuggar við húð okkar.

Og kvölddyrnar ljúkast upp senn.
Kvölddyrnar.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.