Jón og ég

Ég hef lesið að einn ókosturinn við að eldast sé að fólk þekki mann ekki lengur. Gamlir vinir og skólafélagar sem maður faðmar úti á götu klóra sér spyrjandi í kollinum eða víkja sér fimlega undan. Einhver orðaði þetta þannig þegar hann kom úr stúdentsafmælinu: „Þetta var hundleiðinlegt. Allir skólafélagarnir voru orðnir svo feitir og sköllóttir að það þekkti mig enginn.“

Þetta hefur sem sé ekki þjakað mig. En ég hef lent í öðru sem ekki er skárra. Ég er farinn að hitta lotin gamalmenni sem heilsa mér mjög kumpánlega með brosi á vör og sögum um gamla tíma. Mér er algerlega útilokað að koma þeim fyrir mig fyrr en þau segja til nafns og kemur þá í ljós að þetta eru fyrrverandi nemendur mínir. Ég get ekki varist því að hugsa: „Ef þau eru orðin svona, þá er maður hissa á að nokkur af kennurunum þeirra sé á lífi.“ Svo klíp ég mig í handarbakið og finn að ég er enn með einhverja tilfinningu.

Um daginn bar nýrra við. Ég hitti konu sem ég hafði kennt og mundi vel eftir. Eins og vera bar spurði ég hvað á daga hennar hefði drifið frá því að hún var í stærðfræðitímum hjá mér. Hún vinnur í fjármálaráðuneytinu, eða réttara sagt fjármála- og efnahagsráðuneytinu eins og það heitir núna. Hafði áður unnið í viðskiptaráðuneytinu sem eflaust hét líka lengra nafni. Þegar þessari einföldu yfirferð var lokið sagði hún, svona eins og til þess að skýra hvers vegna hún myndi eftir mér enn (sem mér fannst óþarfi að skýra):

„Ég sá þig einu sinni í ráðuneytinu.“

Það fannst mér ekki ótrúlegt, því að ég fer öðru hvoru í ráðuneyti, þó að ekki sé ég þar tíður gestur.

„Þú vart með son þinn með þér“, bætti hún við.

Ég varð eins og spurningamerki í framan. „Son minn?“ sagði ég, því að ég hef ekki gert mikið af því að flækjast með börnin mín á milli fyrirtækja eða stofnana síðasta aldarfjórðunginn eða svo.

„Já, það er enginn vafi, hann leit út alveg eins og þú.“

Við þetta hefði ég átt að kætast því að synir mínir eru býsna brattir að sjá, en mér var lífsins ómögulegt að trúa því að þetta gæti staðist.

En ekki fór konan með fleipur.

Skyndilega rann upp fyrir mér ljós. Mörgum finnst að Jón frændi minn Benediktsson sé líkur mér. Það var ekki ólíklegt að hann hefði farið til þess að hitta Bjarna bróður sinn í fjármálaráðuneytinu og jafnvel tekið son sinn með. Það hefði ekki verið í fyrsta sinn sem okkur frændum er ruglað saman.

Okkur kom saman um að svona hlyti þetta að vera og samtalinu lauk. Ég var auðvitað ánægður að hafa leyst gátuna, en hugsaði svo að þetta gæti orðið pínlegt fyrir mig, ef Vigdís frétti af mér vappandi um ráðuneytin með einhvern son sem hún hefði aldrei heyrt um.

Þá vaknaði hjá mér snilldarhugmynd. Jón frændi minn er sómamaður sem má ekki vamm sitt vita. Ég hef reyndar líka verið tiltölulega stilltur hin seinni ár, enda ekki gott ef það spyrðist um mann í minni stöðu að hann hefði verið í sollinum í bænum.

En nú opnaðist nýr möguleiki. Ég get farið að sækja alls kyns öldurhús á öllum tímum sólarhringsins og látið mér í léttu rúmi liggja hvað til mín spyrst. Ef einhver spyr síðan: „Heyrðu Benedikt, sá ég þig ekki á Skippernum skömmu fyrir dagrenningu“, þá get ég svarað: „Ætli það hafi ekki verið Jón frændi minn, fólk ruglar okkur mikið saman.“

Ef sá hinn sami heldur áfram að spyrja hvort Jón eigi vanda til þess að vera úti á síðkvöldum, svara ég: „Ekki veit ég það, en ég er farinn að heyra fleiri og fleiri sögur af þessu tagi.“ Svo lít ég undan og þykist strjúka tár úr augnhvarminum og segi: „En þetta er náttúrlega leiðinlegt fyrir fjölskylduna þegar svona sögur komast á kreik, svo að við skulum bara hafa þetta okkar á milli.“

Þannig tryggi ég að sagan um frænda minn og tvífara verður á hvers manns vörum og jafnframt hve erfitt það hljóti að vera fyrir mig og fjölskylduna að lenda í svona söguburði.

Svona urðu þessir endurfundir við fyrrverandi nemanda til þess að við mér blasir nú hið ljúfa líf án þess að nokkurt kusk falli á minn hvíta flibba.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.