Djísus Kræstur maður (BJ)

Margir eru spældir eftir kosningarnar í Sjálfstæðisflokknum. Það gefur augaleið að þegar fjórir sækjast eftir efsta sætinu verða þrír óánægðir. Ég hef ekki verið mikið fyrir það að lýsa opinberlega yfir því hvern ég ætli að kjósa í prófkjörum, en í þetta sinn ákvað ég að lýsa yfir stuðningi við Halldór Halldórsson. Hann hefur mikla þekkingu á sveitarstjórnarmálum og var farsæll bæjarstjóri á Ísafirði.

Einhver spurði mig hvort ég styddi Halldór vegna þess að hann sé Evrópusinni. Ég svaraði því til að mér fyndist ólíklegt að Reykjavík gengi í Evrópusambandið ein og sér. Í gær mætti ég á kosningaskrifstofu Halldórs og hitti þar frænda minn sem sagðist hafa valið hann í efsta sæti. Í óspurðum fréttum sagðist hann hafa sleppt Þorbjörgu. „Fólk man ennþá Húsasmiðjumálið,“ sagði hann og ég kinkaði kolli, því að ég vildi ekki láta spyrjast að ég myndi það ekki nógu vel. Ég mundi eftir viðtalinu í Nýju lífi.

Ég sé að Björn Bjarnason segir á vef sínum: „Fyrstu fréttir herma að Halldór Halldórsson hafi hlotið fyrsta sætið í prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík. Mér finnst það lofa góðu.“ Ætli nokkur hafi spurt Björn hvort hann hafi stutt Halldór vegna þess að hann sé Evrópusinni?

Ég er ekki í vafa um að Halldór er besti kosturinn sem í boði var. Hann er auðvitað ekki Geir Hallgrímsson eða Davíð Oddsson. Þannig borgarstjórar eru ekki á hverju strái, en hann er örugglega betri en flestir þeir sem boðið hefur verið upp á undanfarin ár.

Fólk veltir því fyrir sér hvers vegna konur nái ekki betri árangri. Þessi umræða er ekki alveg einföld. Ég finn ekki til sérstakrar kynjasamkenndar. Ég tel Áslaugu Friðriksdóttur og Hildi Sverrisdóttur betri fulltrúa mína en flesta karlana í hópnum. Ekki vegna þess að þær eru konur (sem er vissulega enginn ókostur) heldur vegna þess að þeirra málflutningur höfðar til mín. Fyrst og fremst tel ég þær þó heilsteypta einstaklinga sem geti tekist vel á við borgarmálin. Aldrei leit ég svo á að Þór Saari eða Björn Valur væru mínir fulltrúar þó að þeir séu karlar.

Segjum að Margrét Friðriksdóttir, sem var frambjóðandi í prófkjörinu, hefði verið eina konan í framboði. Hefði það verið skandall að hún hefði ekki verið í efstu sætum? Hún sagði: „Gona bring Jesus back to the City Hall á Facebook síðu sinni en hún sóttist eftir öðru til fjórða sæti á framboðslistanum. Hún hélt áfram: „Íslensk þjóð er Kristin þjóð meira að segja stjórnarskrá varin og er ég svo stolt af því, ég vildi óska þess að Reykvíkingar fari að sjá birtuna og góðmennskuna sem fylgir Jesus Christ,“

Áhyggjuefni sjálfstæðismanna ætti að vera er hversu fáir þeir eru orðnir. Ég held að fylgi flokksins sé orðið sáralítið hjá fólki undir fertugu. Ég sé það á vefnum að margir félagar mínir tala háðslega um trúðana í Besta flokknum. Spurningin sem máli skiptir er hvers vegna þeir fengu fleiri fulltrúa en allir gömlu flokkarnir. Það hlýtur að vera eitthvað að þegar „trúðar“ fá fleiri atkvæði en flokkar sem vilja láta taka sig alvarlega.

Það er kúnst að fá hæfileikaríka einstaklinga með kjörþokka til þess að gefa sig að stjórnmálum. Fátt gerir þau störf áhugaverð. Sumir vilja eflaust telja prófkjör sem ekki er meiri þátttaka í misheppnað. Er líklegt að kjörnefnd hefði þorað að setja inn nýjan oddvita, sem er þó greinilega vilji fólksins?

Ungt fólk flykkti sér um Sjálfstæðisflokkinn árið 2007. Það hefur örugglega fæst breytt um lífsskoðun, en því finnst flokkurinn ekki lengur höfða til sín. Landsfundur sem vill loka erlendum sendiskrifstofum og að gildi Jesus Christ séu allsráðandi er ekki í góðum takti við venjulegt fólk í landinu. Á næstu vikum og mánuðum verður lagt þungt próf fyrir þingmenn flokksins. Framtíð hans kann að velta á því hvernig hann stendur sig á því. Og þar ræður bæði skynsemi og áróðurstækni.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.