Það er merkilegt að um það leyti sem Davíð Oddsson fór að stýra Mogganum tóku fjórir frændur mínir og vinir við málfarsþættinum í sunnudagsblaðinu, sem kemur á laugardögum. Auðvitað er aðdáunarvert að halda uppi málfarsáróðri í blaði sumra landsmanna. Þessar fjórar málpípur íslenskunnar eru þeir Baldur Hafstað, Baldur Sigurðsson, Gísli Sigurðsson og Þórður Helgason. Við Þórður kenndum saman við Verslunarskólann, hinir eru tvöfaldir þremenningar við mig. Sumir hafa haft orð á því að Davíð hafi fyllt ritstjórnina af Heimdellingum, en ég get staðfest að allir eru þessir menn vaxnir upp úr Heimdalli.
Af pistlum sem ég hef lesið eftir þá félaga má nefna skrif Gísla um jólavísuna alkunnu Jólasveinar ganga um gólf sem fóstrur höfðu breytt með aðstoð Helga Hálfdanarsonar, sem mun hafa skrifað gamanbréf til sjálfs sín í blöð þar sem sveinarnir hættu að ganga um gólf, en fóru í stað þess um gátt.
Nýlega benti Þórður á það að ekki er samband milli þess að vera góður og að vera mettur, þó svo að það geti farið saman. Nú síðast fjallaði Baldur frændi Hafstað um mig í sama orðinu og Ugluspegil, Þórarinn Eldjárn og Eið Svanberg. Þetta er ágætur félagsskapur málfarsspekinga að vera í. Baldur vísaði í nýlegan pistil minn um orð sem vísa til sjálfra sín. Svo hótar hann því „að fá Benedikt inn í skólastofuna til að rabba um leyndardóma orðanna“, væntanlega til þess að halda niðri aðsókn að námskeiðum sínum.
Þess ber að geta að Baldur er sérlegur ráðgjafi minn í öllu sem lýtur að íslensku og bókmenntum og hans ráð hafa gefist vel. Í greininni setur hann sig í prófdómarahlutverkið:
„Í ljósi þess að mikið hefur verið fjallað um hleranir að undanförnu gæti kennarinn (eða foreldrar) varpað fram eftirfarandi spurningu: Hvers vegna er þessi fyrirsögn undarleg: „Angela Merkel æf vegna hleranna“? (Beitið málfræðihugtökum!)“
Það er synd að þessir pistlar hinna fjögurra fræknu íslenskumanna fái ekki meiri útbreiðslu og umfjöllun en raun ber vitni. Ég læt mér þá vel líka þegar ég sé þá.
Sjálfur var ég um helgina keppandi í fyrsta Íslandsmótinu í skrafli. Ég fór ekki með verðlaun af hólmi, en reynslunni ríkari. Mér sýndist keppendur skiptast í fjóra hópa: Sérvitra íslenskunörda, vaskar konur með mikið keppnisskap, frændur Jóhannesar sonar míns, en hann er formaður Skraflfélagsins og loks vinir Jóhannesar. Nokkur skörun var á milli hópa.
Andrúmsloftið var tiltölulega þægilegt, en þó voru keppendur miskappsamir. Nokkrir drukku bjór meðan á leikum stóð og fóru út og reyktu þess á milli. Þetta virtist vera sá „banvæni kokteill“ sem þurfti til þess að vinna mótið.
En við sem skipuðum neðri sætin höfðum þó mikilvægt hlutverk eins og einn sem var jafnvel fyrir neðan mig benti á: Það var okkur að þakka hvað hinir voru ofarlega.