Hvað er að þér? (BJ)

Ég fór til læknis í vikunni, sem er í frásögur færandi því að þá heimsæki ég sjaldan. Ekki af því að mér leiðist þeir eða sé hræddur við þá. Það er bara sem betur fer sjaldan neitt að mér. Einu sinni á ári fer ég til heimilislæknisins og fæ hann til þess að gefa mér ársskammt af blóðþrýstingstöflum. Ekki veit ég hvað veldur háum blóðþrýstingi, líklegast mikil spenna og hættulegt líferni. Ég byrjaði fyrst að mælast með háan blóðþrýsting skömmu eftir að ég giftist Vigdísi, þannig að ég reikna með að þetta sé af hennar völdum, en var reyndar aldrei mældur áður svo ég muni. Ég man að foreldrar mínir voru bæði með of háan blóðþrýsting, en ekki fannst manni þeirra líf samt sérstaklega spennandi þegar ég var ungur. Kannski er einhver önnur skýring á þessum háþrýstingi.

Hvað sem veldur, þá hef ég tekið töflur til þess að halda blóðþrýstingnum niðri býsna lengi. Ég reyni svo að ná honum upp aftur með því að salta allan mat áður en ég bragða hann. Nú er farið að sjá í botninn á töflukassanum og því tímabært að heimsækja lækninn aftur. Ég hef líka látið taka blóðprufu úr mér einu sinni á ári, alltaf í október, þó ekki væri nema til þess að sýna fram að ég sé með lægra kólesteról en vinir mínir, þvengmjóir vesalingar sem þurfa að berjast við þennan vágest.
Vegna þess að ég er ekki góður til þess að hugsa um svona mál bað ég Vigdísi að minna mig á að panta tíma. Auðvitað hefði ég átt að biðja hana að sjá um það fyrir mig, en það datt mér ekki í hug fyrr en meðan ég skrifa þetta. Hún klikkaði auðvitað ekki og sendi mér tölvupóst: Panta tíma vegna blóðprufu. (Við gætum þess alltaf hjónin að samskipti milli okkar séu rekjanleg þegar um svo mikilvæg mál er að ræða). Dögum saman gerðist ekki neitt en síðasta dag mánaðarins tók ég á mig rögg.
Á fimmtudaginn hringdi ég sem sé í læknamiðstöðina. Nú hefur maður ekki lengur sérstakan heimilislækni heldur einhvern hóp sem er saman á stofu. Það er allt í lagi. Gamli heimilislæknirinn var ósköp þægilegur og í rúmlega hálfa öld hafði ég bara haft tvo slíka, en nú hefur heil nefnd tekið við. Miðað við frásagnir lækna af bágu standi heilbrigðiskerfisins hafði ég búist við að hringja frameftir degi, gott ef ekki vikunni til þess eins að ná sambandi. Hvort tíminn næðist fyrir jól var alls óvíst. Ég hringdi í númerið og mér til mikillar undrunar svaraði þægileg kona á fyrstu hringingu. Mér varð nánast orðfall en get loks stunið upp erindinu. Ég bjó mig undir að skrá tímann í janúar, en hún sagði að bragði: „Komdu í fyrramálið klukkan kortér fyrir níu.“ Ég hváði og lét segja mér þetta aftur, en þetta var ekki misheyrn.
Klukkan 8.47 morguninn eftir stóð ég fyrir framan þessa sömu konu og kynnti mig. Hún bað mig að fá mér sæti, sem ég gerði reyndar ekki, heldur ráfaði um stofuna, hvort sem það stafaði af ótta við að fá á mig sýkla af stólunum eða taugaveiklun fyrir viðtalið við lækninn. Í ljós kom að rík ástæða var til þess síðarnefnda.
Þremur og hálfri mínútu síðar stóð ég framan við lækninn, þuldi kennitöluna mína og erindið. Ég sagðist alltaf koma í október, en í ár væri ég degi of seinn, þrátt fyrir að hafa fengið góða áminningu um að mæta.
„Við minnum fólk aldrei á að mæta til okkar,“ sagði læknirinn og taldi greinilega að þetta væri dulbúin árás á sig.
Ég var strax kominn í vörn og sagðist alls ekki hafa verið að tala um hann eða læknastöðina heldur hefði konan mín gætt þess samviskusamlega að ég mætti.
Þetta breytti engu. „Sumir sérfræðingar boða menn í tíma, en það er ekki venja hjá okkur,“ bætti hann við og var greinilega kominn úr jafnvægi yfir þessari ófyrirleitnu árás minni.
Úr því sem komið var var ekkert annað að gera en stynja upp erindinu. Hann sagði mér að fá mér sæti og bretta upp ermina. Ég spurði hvort ég ætti að kreppa lófann, en hann hristi pirraður höfuðið. Tölurnar reyndust 140/90 sem hljómuðu ekki vel því síðast voru þær 110/70, en hann sagði stuttur í spuna: „Þetta er allt í lagi. Þú hefur reynt á þig við að hlaupa upp.“
Ég tók reyndar lyftuna upp, þannig að í þessu var greinilega háð, enda sá ég núna að hann hugsaði: (Þú ert greinilega ekki í neinni æfingu og mátt þakka fyrir að hafa komist alla leið inn á stofuna til mín).
Við þessu átti ég ekkert svar, en leiddi talið að blóðprufunni. Læknirinn sló eitthvað inn í tölvuna. Ég ætlaði að leggja til að hann bætti við einhverjum mælingum, en hann varð fyrri til og sagði: „Ég er búinn að bæta þeim við.“ Það var greinilegt að hann sá líka hvað ég hugsaði.
Hann spurði spurði hvort ég kenndi mér nokkurs meins, en þegar ég gat ekki nefnt neitt sem heitið gat, nema kviðslitið sem Jón Tómasson læknir hefði lagað af mikilli snilld dimmdi yfir svipnum og hann sagði stuttur í spuna: „Tómas Jónsson“ og ég hugsaði, auðvitað Tómas Jónsson, metsölubók, þannig hafði ég lagt nafnið hans á minnið.
Svo sagði hann: „Annars er engin ástæða til þess að fara í reglulega skoðun hjá lækni ef það er ekkert að þér.“ Ég hugsaði: (Til þess er ég að fara til læknisins að vita hvort eitthvað er að).
Hann bætti við: „Engar lýðfræðilegar rannsóknir styðja það að það borgi sig almennt að fara reglulega í skoðun. Þú heldur kannski að þú eigir að fara með sjálfan þig í skoðun eins og bílinn þinn, en það er bara vitleysa.
Ég: (Mér er alveg sama hvað gildir almennt, ég er bara að hugsa um mig).
Hann gaf sig ekki: „Það eina sem skiptir máli er heilbrigður lífsstíll, að hreyfa sig og hvað þú borðar.“ (Og það lítur ekki út fyrir að þú ástundir sérlega hollt líferni, kallinn minn). Hann horfði ásakandi á mig.
Ég: (Ekki reyki ég, borða ekki feitt kjöt, drekk ekki einu sinni kaffi … tek ekki stera, en það hefði víst engum dottið í hug).
L: (Fiskur, grænmeti, ávextir, ekkert smjör …)
Ég varð sífellt vesældarlegri en sá að hann sótti í sig veðrið:
(Það eru svona menn eins og þú sem halda uppi kostnaðinum í heilbrigðiskerfinu. Nenna ekki að ganga í vinnuna, borða egg og kartöflur og mæta í ónauðsynlegar rannsóknir).
Ég hugsaði með mér að ég hefði gert honum greiða með því að fylla upp í tíma, en svipurinn leyndi því ekki að það vó ekki þungt:
„Ertu fastandi?“ spurði hann og rauf þögnina. Þegar ég gat ekki játað því að ég hafði fengið mér ristað brauð áður en ég fór út, sá ég að honum var öllum lokið.
(Það er fólk sem sveltur í Afríku og þú getur ekki haldið aftur af átinu fyrir klukkan níu að morgni). Hann sagið upphátt: „Mættu þá á mánudaginn í rannsóknina.“ Stutt þögn. Og til þess að ég vissu örugglega um hvað málið snerist: „Fastandi.“
Ég umlaði samþykki og hrökklaðist út. Hjá konunni frammi rétti ég fram kortið.
„Fimmhundruð áttatíu og fimm krónur,“ sagði hún. Þetta voru lokaskilaboð frá lækninum. (Ég kæri mig ekki um nema smápeninga frá manni eins og þér sem tekur að ástæðulausu læknistíma og blóðrannsókn frá sveltandi börnum).
Ég stakk á mig kortinu og staulaðist út aftur og leið ólíkt verr en þegar ég kom. Það er greinilega engin lygi að það er ekki nema fyrir fílhrausta menn að fara til læknis.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.