ÍSLENSKA stærðfræðafélagið og Félag raungreinakennara í framhaldsskólum gengust fyrir ráðstefnu á laugardaginn um stærðfræðikennslu og menntun kennara í framhaldsskólum.
Benedikt Jóhannesson, framkvæmdastjóri Talnakönnunar, sagði að aldrei hefðu jafnmargir kennarar miðlað jafnlitlu jafnstórum hópi nemenda og nú. Hann hefði trúað því til skamms tíma að stærðfræðikunnátta efldi rökhugsun. Stærðfræðingar ættu sameiginlegt táknmál og ættu því að eiga auðvelt með að komast að sameiginlegri niðurstöðu á ráðstefnunni. Þeir myndu hins vegar ekki komast að sameiginlegri niðurstöðu um lausn á kennaraskortinum á næstunni.
Benedikt sagði, að menn hefðu verið lítt hrifnir af þeirri tillögu hans að setja þyrfti á laggirnar „breiða“ raungreinabraut í Háskóla Íslands. Stærðfræðingar þurfi hins vegar t.d. að þekkja sögu stærðfræðinnar; þá sögu sem liggi að baki sönnunum. Hugsanlegt væri að hafa fyrstu námsárin í HÍ sameiginleg, t.d. í heimspeki, almennum félagsvísindum og hagfræði.
Saga stærðfræðinnar og almenn heimspeki hennar væru hins vegar eðlilegar námsgreinar í stærðfræðiskor skólans þar sem grunnfögin yrðu t.d. stærðfræðigreining og línulegur bókstafareikningur: Þróunin yrði sennilega sú að þeir sem útskrifuðust frá Kennaraháskólanum færu að kenna í framhaldsskólunum. Stærðfræðikennslan í Kennaraháskólanum mætti hins vegar vera meiri og því færi fjarri að stærðfræðinámið þar væri nægjanlegt framhaldsskólakennurum. Benedikt sagðist einnig telja að engin von væri til þess að ástandið í þessum málum lagaðist því þeir sem gætu lagað það vildu það ekki.
Úr Morgunblaðinu 25. mars 1988