Tímarnir eru að breytast

Í vikunni varð Bob Dylan áttræður. Merkisberi heillar kynslóðar meðan kalda stríðið stóð sem hæst. Fyrsta platan hans kom út í febrúar 1962, hálfu ári eftir að Berlínarmúrinn var reistur. Múrinn er fyrir löngu jafnaður við jörðu, en Dylan enn sprækur. Hann byrjaði sem þjóðlagasöngvari en samdi fljótlega vinsæl lög. Mesta athygli vöktu samt beittir textar. Árið 1963 spurði trúbadorinn: How many years can some people exist, before they’re allowed to be free? Lagið varð einskonar þjóðsöngur heillar kynslóðar.

Ári síðar kom þetta:

The order is rapidly fadin’
And the first one now
Will later be last
For the times they are a-changin’

Mörgum aðdáendum fannst þeir sviknir þegar goðið kom fram með rafmagnaða hljómsveit og kölluðu: Júdas!  Síðar varð það deiluefni hvort söngröddin hefði breyst til hins verra eftir að hann lenti í mótórhjólaslysi. Sumir töldu Dylan reyndar aldrei mikinn söngvara. Sjálfur sagði meistarinn keikur að eina lagið sem annar hefði tekið betur væri All Along the Watchtower með Hendrix.

Kappinn þótti alltaf var um sig og söng, kannski ekki að ástæðulausu:

Someone’s got it in for me, they’re planting stories in the press.
Whoever it is I wish they’d cut it out quick, but when they will I can only guess.

Skáldið hélt alltaf áfram að spyrja spurninga um heiminn og stöðu sína. Árið 1989 kom þetta:

Is the scenery changing?
Am I getting it wrong?
Is the whole thing going backwards?
Are they playing our song?
Where were you when it started?
Do you want it for free?
What was it you wanted?
Are you talking to me?

Á sínum tíma sagði Dylan við Bítlana: „Lögin ykkar eru ágæt, en þið segið ekki neitt.“ Textarnir hans eru vissulega ekkert slor. Margir urðu samt hissa þegar hann fékk Nóbelsverðlaun í bókmenntum árið 2016 og fannst dómnefndin reyna að vera hipp og kúl. Dylan lætur sér fátt um finnast og gerir það sem honum sýnist. Á nýjustu plötu sinni fetar verðlaunahafinn í fótspor Sesars sem mælti Teningunum er kastað og fór yfir Rúbikon-fljótið. Þá varð ekki aftur snúið.

Tell me how many men I need
And who can I count upon.
I strapped my belt, I buttoned my coat
And I crossed the Rubicon.

Enginn á von á því að Dylan breyti um stefnu núna, en hver veit? Svarið bærist í vindinum.


Birtist í Morgunblaðinu 29.5.2021

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.