Liðleskjur lýðræðisins

Líklega hef ég verið óvenjulegur unglingur. Á þeim árum skipuðu flestir sér í skoðanafylkingar og fylgdu svo sínu liði gegnum þykkt og þunnt. Fyrir tvítugt hafði ég aftur á móti mótmælt við sendiráð þriggja ríkja, Sovétríkjanna, Bandaríkjanna og Bretlands.

Sovétríkin drottnuðu yfir Austur-Evrópu og heftu skoðanafrelsi, málfrelsi og önnur mannréttindi. Á Vesturlöndum báru stjórnvöld virðingu fyrir rétti einstaklinganna sem höfðu frelsi til orða og athafna. Meira frelsi fylgdu betri lífskjör. Valið var auðvelt um hvar maður skipaði sér í sveit. Þegar Sovétríkin réðust inn í Tékkóslóvakíu ásamt leppríkjum sínum tók ég, fjórtán ára gamall, þátt í mótmælum gegn ofbeldinu.

En ekki var allt með felldu í Paradís. Bandaríkjamenn voru í blóðugu stríði í Indókína og sendu hundruð þúsunda ungra manna til þess að berjast við kommúnista í Víetnam. Ég hélt að Bandaríkjamenn hlytu að vera „góðu gæjarnir“. Svo kom í ljós að bandamenn þeirra í Saigon voru gerspilltir eiginhagsmunaseggir. Fréttir bárust af fjöldamorðum og ódæðisverkum Bandaríkjamanna. Ég spurði mig: „Hvers vegna eigum við að velja á milli glæpagengja?“ og mætti á mótmælafund við sendiráð Bandaríkjanna. Ég gerði meiri kröfur til „minna manna“ en hinna. Mér varð ljóst að það er málstaðurinn, ekki liðið, sem öllu skiptir.

Guðni Th. Jóhannesson segir frá mótmælum árið 1973 í kjölfar þess að Bretar sendu herskipaflota á Íslandsmið: „Tveimur dögum fyrr hafði skríll ruðst inn að sendiráði Bretlands í Reykjavík, valdið þar stórskemmdum og verið að því kominn að brenna það til grunna þegar lögregluþjónum tókst að taka í taumana.“ Frásögnin er dramatísk; þúsundir manna höfðu komið gangandi af mótmælafundi á Lækjartorgi en skrílmenni fá. Ég var á staðnum með Vigdísi, kærustu minni. Foreldrar mínir voru meira að segja með í för. Við stóðum flest þegjandi álengdar og munduðum hvorki grjóthnullunga né veifuðum logandi kyndlum, ekki einu sinni mamma.

Öllum mótmælunum var sameiginlegt að lítill hópur mætti klyfjaður eggjum, grjóti og málningu, með það í huga að skemma. Ég hef alltaf haft skömm á slíku. Maður andæfir yfirgangi best með friði. Gandí og Mandela unnu sín stríð hvorki með brugðnum brandi né byssum heldur orðum og friðsamlegri mótspyrnu.

Nú reyna forseti Bandaríkjanna og fylgismenn hans að halda völdum með falsi og bolabrögðum. Í lýðræðisríki ræður vilji kjósenda því hverjir veljast til forystu og leikreglurnar vernda rétt almennings. Þegar annar stóru flokkanna virðir hvorki niðurstöðu dómstóla né vilja kjósenda er ástæða til þess að hafa áhyggjur. Helsta ógn við lýðræðið er stjórnmálamenn sem virða ekki lög og þeir nytsömu sakleysingjar sem láta sér vel líka eða þegja af ótta við reiði ruglaðs leiðtoga.


Birtist í Morgunblaðinu 14.12.2020

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.