Vér óskum oss meiri kvóta

Einn laug­ar­dag í maí árið 2017 skein sól í heiði og allir voru glaðir á Siglu­firði. Allur bær­inn var mættur til að taka á móti Sól­bergi ÓF, glæsi­legu skipi, ísfisk­tog­ara með full­kom­inn fisk­vinnslu­sal með fín­ustu tæki frá ýmsum tækni­fyr­ir­tækj­um, bæði innan lands og utan. Á staðnum voru fjöl­margir vel­unn­arar og glödd­ust með bæj­ar­bú­um, meðal ann­arra ráð­herrar og útgerð­ar­menn. 

Auð­vitað voru ræð­ur, stuttar og snarp­ar. Þor­gerður Katrín Gunn­ars­dóttir sjáv­ar­út­vegs­ráð­herra flutti ágæta ræðu og Ólafur Mart­eins­son, for­stjóri Ramma hf., tal­aði líka stutt. Mér er minn­is­stætt að þegar gefa átti skip­inu nafn brotn­aði kampa­víns­flaskan ekki á stefni skips­ins, þrátt fyrir ítrek­aðar til­raun­ir. Loks greip for­stjór­inn sjálfur inn í, kastaði flösk­unni af krafti og þá brotn­aði hún loks við fögnuð við­staddra.

Varla hvarfl­aði það að nokkrum þá að skipið væri verð­mæt­ara en allt íbúð­ar­hús­næði á Ólafs­firði, heima­bær Sól­bergs ÓF. Ólafur kom því fyrst á fram­færi við þjóð­ina í grein um mig, sem hann birti í Morg­un­blað­inu þriðju­dag­inn 8. des­em­ber.

Mér sýn­ist að í grein­inni sé ég nefndur á nafn tíu sinnum og auk þess vísað til mín níu sinnum sem „hann“, „hon­um“ eða „hans“. Ég er því aðal­efnið í nán­ast hverri ein­ustu setn­ingu. Mér er auð­vitað heiður að því. Sjaldn­ast ná menn svo háu hlut­falli í minn­ing­ar­grein­um. 

Reyndar er tónn­inn heldur kulda­legri en í flestum eft­ir­mæl­um, því höf­undur tekur fram að „bak við grímuna er maður sem hirðir ekki um stað­reynd­ir, beitir talna­brellum til þess að leiða upp­lýsta umræðu af vegi … þegar nánar er að gáð, ísmeygi­leg útgáfa af popúlista.“ Varla þarf að taka fram ísmeygi­legi popúlist­inn bak­við grímuna mun vera und­ir­rit­að­ur.

Útgerðin á „hund­rað Ólafs­firði“

Mark­miðið með grein­inni, sem Ólafur Mart­eins­son skrifar undir sem for­maður Sam­taka fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi (SFS), mun vera að reyna að hrekja stuttan pistil minn sem birt­ist nokkrum dögum áður í Morg­un­blað­inu. En svo mikið er kappið að lýsa því hvaða mann ég hafi að geyma að grein­ar­höf­undur hrekur enga stað­hæf­ingu í minni grein. Rekjum pistil SFS, lið fyrir lið. Greinin seg­ir: „Bene­dikt fer í talna­leik „sem fæstir skilja“ eins og hann segir sjálf­ur.“ 

Svar: Hér er farið rangt með. Ég sagði: „Til hvers er allur þessi talna­leikur sem skilar svo háum tölum að fæstir skilja þær vel? Jú, setjum þær í sam­band við gróða útgerð­ar­manna und­an­far­inn ára­tug.“ 

Glöggur les­andi áttar sig því á að hér er aðeins verið að setja geysistórar töl­ur, hagnað og arð­greiðslur til útgerð­ar­manna í ára­tug, í sam­band við önnur verð­mæti og áþreif­an­legri. Ólafur bætir svo um betur og sýnir fram á að eitt skip er mun verð­mæt­ara en öll íbúð­ar­hús í 800 manna heima­byggð þess. Verð­mæti hins glæsi­lega Sól­bergs er aðeins um 1% af heild­ar­eignum útvegs­manna (heild­ar­eign­um, ekki hreinni eign). Kann ég Ólafi hinar bestu þakkir fyrir að benda á að þær jafn­gilda meira en 100 búsæld­ar­legum sjáv­ar­pláss­um. Almenn­ingi er mik­il­vægt að fá skilj­an­legan sam­an­burð við ofur­tölur í sjáv­ar­út­vegi.

Talna­leikir og sleikip­innar

Í grein­inni seg­ir: „Bene­dikt lætur í veðri vaka að hagn­aður sé það sem eftir stendur þegar útgerðir hafa greitt bæði verk­smiðjur og skipa­stól.“ Svo mik­il­vægt telur sá sem heldur um penna þetta vera að nokkrum línum neðar seg­ir: „Bene­dikt veit líka vel að fjár­fest­ingar eru gjald­færðar á löngum tíma, en hann lætur samt í veðri vaka að þær séu gjald­færðar í heild sinni við kaup.“

Svar: Hér snýr höf­undur út úr orðum mín­um: „Munum líka að hér erum við að tala um afkom­una eftir að tekið hefur verið til­lit til þess að flestar útgerðir hafa end­ur­nýjað skipa­stól sinn og verk­smiðjur á sama tíma.“ Setn­ingin er hár­rétt. Það eru fleiri en Rammi hf. sem hafa end­ur­nýjað skip af mynd­ar­skap. Fjár­fest­ingar í var­an­legum rekstr­ar­fjár­munum námu 23 millj­örðum króna að með­al­tali und­an­farin sex ár eða um 140 millj­örðum króna alls. Á sex árum voru fjár­fest­ingar í skip­um, verk­smiðjum og öðrum rekstr­ar­fjár­munum meiri en heild­ar­verð­mæti slíkra eigna útgerð­anna voru í árs­byrjun 2014. Afskrifta­stofn stækkar og afskriftir aukast frá því sem áður var. Engum dettur í hug að les­endur Morg­un­blaðs­ins eða ann­arra íslenskra fjöl­miðla haldi að kaup á skipi eða loðnu­verk­smiðju séu eins og sleikip­inni sem hverfi úr öllu bók­haldi dag­inn sem þau eru afgreidd.

Ein rétt full­yrð­ing og margar rangar

Í grein­ar­gerð SFS kemur fram að ég hef setið í stjórnum margra fyr­ir­tækja. Það er rétt, og nán­ast það eina rétta í grein­inni. Strax í kjöl­farið koma tvær rangar setn­ing­ar: „Bene­dikt … er því vel ljóst að arð­greiðslur í sjáv­ar­út­vegi eru ekki umfram það sem almennt ger­ist í atvinnu­líf­inu. Hann veit líka vel að arð­semi eig­in­fjár í sjáv­ar­út­vegi er minni en gengur og ger­ist meðal félaga sem skráð eru í Kaup­höll­inn­i.“

Svar: Ræðum arð­greiðsl­ur. Vissu­lega er erfitt að bera saman hlut­föll milli atvinnu­greina, en tökum tölur Hag­stof­unnar um arð og hagn­að, ann­ars vegar í sjáv­ar­út­vegi og hins vegar í við­skipta­hag­kerf­inu að und­an­skil­inni lyfja­fram­leiðslu, sorp­hirðu, fjár­mála- og vátrygg­inga­starf­semi og sjáv­ar­út­vegi. Við getum borið saman tölur úr árs­reikn­ingum árin 2014-18 (sem eru nýj­ustu tölur úr árs­reikn­ingum á vef Hag­stof­unn­ar).

Hvort sem litið er á arð eða hagnað eru töl­urnar mun hærri hjá sjáv­ar­út­veg­inum þessi fimm ár.

Seinni full­yrð­ing SFS um að arð­semi eig­in­fjár sé minni í sjáv­ar­út­vegi hjá félögum í Kaup­höll­inni er sér­stæð. Tökum sam­an­lagðan hagnað félaga í Kaup­höll­inni að Brimi, eina skráða sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæk­inu, slepptu. Nið­ur­staðan er á þess­ari mynd:

Myndin sýnir að full­yrð­ingin er bæði sér­stæð og röng. Verð á Brimi í Kaup­höll­inni gefur til kynna að heild­ar­verð­mæti útgerð­ar­inn­ar, reiknað út frá hagn­aði, sé á bil­inu 600 til 850 millj­arðar króna.

Og svo nokkrar skrítnar setn­ingar í lokin

Enn heldur sá sem skrifar áfram: „Sjáv­ar­út­vegur er fjár­magns­frek atvinnu­grein og til þess að standa undir þeirri kröfu sem til hennar eru gerðar þarf hún að hafa meira eigið fé en flestar aðrar atvinnu­greinar á Íslandi. Meðal ann­ars þess vegna er arð­semi eig­in­fjár minni í sjáv­ar­út­vegi en í mörgum öðrum atvinnu­greinum sem ekki þurfa að binda eins mikið fé í rekstri sín­um. Allt þetta veit Bene­dikt.“

Hér er Bene­dikt eignuð ýmis kunn­átta, sem virð­ist byggja á ein­hvers konar hlið­stæðum vís­ind­um, óháð stað­reynd­um. Sam­kvæmt tölum Hag­stof­unnar eiga sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæki hluti í öðrum félögum fyrir hátt á annað hund­rað millj­arða króna. Til dæmis á Rammi ehf. ekki bara Sól­berg Ólafs­fjarð­ar­jafna, heldur einnig tæp­lega 7% hlut í Árvakri, þekktu fjöl­miðla­fyr­ir­tæki. Ég skil að í sjáv­ar­út­veg þurfi skip og vinnslu, en hluta­bréf? Ég hef verið fjar­ver­andi þegar það var kennt.

Lík­lega eru fáar atvinnu­greinar sem búa við það öryggi sem útgerðin hefur notið eftir að kvóta­kerf­inu var komið á. Einmitt á sjáv­ar­út­vegs­deg­inum er brugðið ljósi á þetta með snjallri mynd Jónasar Gests Jón­as­sonar lög­gilts end­ur­skoð­anda hjá Deloitte, sem sýnir hvernig svo­nefnd EBID­TA-fram­legð hefur þró­ast allt frá 1979 til 2019. Eins og glæran sýnir er hún á upp­leið. Ég man þá tíð þegar útgerðir kepptu að því að ná 20% EBID­TA-fram­legð. Und­an­farin ár hefur hún oft­ast verið miklu hærri og var 26% í fyrra. Kost­ur­inn við að horfa á slíka stærð yfir langt tíma­bil er að hún er óháð­ari fjár­mögnun og fjár­fest­ingum en hagn­aður árs­ins og hentar því til sam­an­burð­ar.

Engin mynd sýnir betur hag­ræðið af kvóta­kerf­inu, þegar sam­eig­in­leg auð­lind þjóð­ar­innar var sett undir stífa stjórn og vernd. Kvóta­kerfið er gott, en ósann­girnin felst í ein­ok­un­ar­að­stöðu útgerð­ar­manna í lok­uðu kerf­i. 

Aldrei verður sátt um kerfið fyrr en auð­linda­gjald­ið, aðgöngu­mið­inn að mið­un­um, verður mark­aðstengt. Oft mun mark­að­teng­ing eflaust skila meiri tekjum en nú, ef á móti blæs kannski minni tekjum ein­hver ár. Því munu útgerð­ar­menn ráða sjálfir, því þeir mynda eft­ir­spurn­ina.

Líklega er ein­kenni­leg­asta full­yrð­ingin í grein­ar­gerð SFS: „Það er lík­lega af ráðnum hug að hann notar alltaf orðið útgerð­ar­menn í stað sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækja, enda er það í takt við skrum­skæl­ingu hans um að sjáv­ar­út­vegur hafi að geyma örfáa ein­stak­linga sem maka krók­inn. Það er auð­vitað fjarri sann­i.“ 

Hið ágæta félag Ólafs, Rammi hf., er ell­efta stærsta útgerð lands­ins með um 3,5% kvóta­hlut­deild. Þar eiga tíu ein­stak­lingar meira en 90% hluta­fjár. Engum dettur í hug annað en að þeir séu allir óskyld­ir. Sumir starfs­menn SFS hafa skamma starfs­reynslu, en ég veit að Ólafur Mart­eins­son man það vel að for­veri SFS var LÍÚ, Lands­sam­band íslenskra útvegs­manna. Þá voru menn stoltir af því að vera útgerð­ar­menn. 

Ekk­ert af þessu er samt aðal­at­rið­ið, heldur hitt, að gæðum þjóð­ar­innar er deilt á und­ir­verði til lok­aðs hóps. Um það verður aldrei sátt.


Birtist á Kjarnanum 10. desember 2020.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.