Viðreisn hefur framtíðarsýn sem má treysta

Guðbjörn Guðbjörnsson er íhugull þjóðfélagsrýnandi og hefur virt samfélagið fyrir sér bæði að innan og utan. Ég er ekki alltaf sammála hans hugmyndum, en les þær með athygli.

Í gær (23.2) setti hann inn færslu þar sem hann kvartar undan því að stjórnmálamenn skorti framtíðarsýn. Þetta er auðvitað í flestum tilvikum eins og þeir sem fylgjast með stjórnmálum vita. Viðreisn var einmitt stofnuð til þess að breyta þessu.

Ég svaraði honum þess vegna og birti nokkur af meginstefnumálum Viðreisnar. Alls sjö atriði sem skipta hvert um sig miklu máli. Ekki hafði svar mitt staðið lengi þegar Sigurður Hrafnkelsson kom fram á sjónarsviðið og taldi mig fara með fleipur.

Nú þekki ég ekki Sigurð og auðvitað hefði ég getað afgreitt hann sem nettröll og kjána, en það er ekki skynsamleg nálgun, þannig að ég svaraði því að allt hefði þetta verið á dagskrá hjá okkur, en tími ekki gefist til þess að ljúka málum. Sigurður svaraði með sínum hætti.

Ég læt orðaskipti okkar fylgja:

Sigurður Hrafnkelsson Þù sópađir þessu öllu burt af borđinu fyrir stólana meď Bjarna Ben.

Þaď er ekkert aď marka þennan flokk.

Benedikt Jóhannesson Nei, allt var þetta á dagskrá hjá okkur, en við fengum ekki nægan tima til þess að hrinda því í framkvæmd.

Sigurður Hrafnkelsson Ekkert af þessu komst í stjórnarsáttmálann.

Ekkert.

Ég hugsaði með mér. Þetta er ekki rétt hjá honum, en hafði ekki tíma í gærkvöldi til þess að fletta upp í sáttmálanum í stjórninni sem Viðreisn sat í með Sjálfstæðisflokki og Bjartri framtíð. Ég náði því í kvöld og birti svörin hér á eftir. Vissulega er sumt með því loðna orðalagi sem einkennir málamiðlanir. En meirihlutinn er inni og við hefðum örugglega náð áföngum í þessum málum. Ég er þeirrar skoðunar að betri sé hálfur sigur en enginn, en ég veit að sumir eru mér ekki sammála.

  1. Ríkið hætti að úthluta gæðum til ákveðinna hópa án endurgjalds. Sjávarútvegur greiði markaðstengt auðlindagjald með því að árlega fari hluti kvótans á markað. Gjaldið renni til innviðauppbyggingar á heimasvæðum.

Sáttmáli: Kannaðir verða kostir þess að í stað ótímabundinnar úthlutunar verði byggt á langtímasamningum og samhliða verði unnið að mati á þeim kostum sem tækir eru, svo sem markaðstengingu, sérstöku afkomutengdu gjaldi eða öðrum leiðum, til að tryggja betur að gjald fyrir aðgang að sameiginlegri auðlind verði í eðlilegu hlutfalli við afrakstur veiðanna.

  1. Landbúnaður lúti lögmálum almennrar samkeppni. Innflutningshöft og tollar á landbúnaðarvörur verði afnumin í áföngum og bændur leystir úr fátæktargildru.

Sáttmáli: Endurskoðun búvörusamnings verður grunnur að nýju samkomulagi við bændur sem miðað er við að ljúki eigi síðar en árið 2019. Verður af hálfu stjórnvalda hvatt til að vægi almennari stuðnings verði aukið, svo sem til jarðræktar, fjárfestingar, nýsköpunar, umhverfisverndar og nýliðunar, en dregið úr sértækum búgreinastyrkjum.

  1. Enginn verði þvingaður af vinnumarkaði eingöngu vegna aldurs.

Sáttmáli: Aldraðir geti nýtt starfsgetu sína og reynslu með því að sveigjanleg starfslok verði meginregla.

  1. Hagur fólks og fyrirtækja bættur með því að lækka vexti og verðbólgu til samræmis við nágrannalönd með upptöku stöðugs gjaldmiðils.

Sáttmáli: Unnið verður að því að draga úr þeim miklu sveiflum sem verið hafa á gengi krónunnar. Slíkar sveiflur stuðla að óstöðugleika og skýra að nokkru hvers vegna vextir eru að jafnaði hærri hér á landi en erlendis. Byggt verður á niðurstöðum skýrslu Seðlabanka Íslands frá árinu 2012 um valkosti Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum. Þar var meðal annars lagt mat á framkvæmd verðbólgumarkmiðs, myntráð, fastgengisstefnu og ýmsa aðra kosti.

Forsendur peninga- og gjaldmiðilsstefnu Íslands verða endurmetnar,

  1. Námsárangur nái að minnsta kosti meðaltali innan OECD. Nám á bæði grunn- og framhaldsskólastigi verði markvissara en nú er. Til dæmis mætti gefa samræmdum prófum vægi á ný.

Sáttmáli: Tekið verði upp námsstyrkjakerfi að norrænni fyrirmynd og lánveitingar LÍN miðaðar við fulla framfærslu og hvatningu til námsframvindu. Hugað verði að félagslegu hlutverki sjóðsins.

Nauðsynlegt er að efla kennaramenntun til að bregðast við fækkun kennara og minnkandi aðsókn í kennaranám fyrir leikskóla og grunn- og framhaldsskóla.

  1. Kosningaréttur verði jafn, óháð búsetu. Jafnrétti þegnanna er grundvallarhugsjón lýðræðisins.

Sáttmáli: Kosningalöggjöf verði yfirfarin samhliða því starfi með það fyrir augum að hún verði einfaldari og miði að meira jafnræði í atkvæðavægi.

  1. Þjóðaratkvæði um að ljúka aðildarviðræðum við Evrópusambandið til þess að ná aðildarsamningi sem borinn verður undir þjóðina.

Sáttmáli: Komi fram þingmál um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður við Evrópusambandið eru stjórnarflokkarnir sammála um að greiða skuli atkvæði um málið og leiða það til lykta á Alþingi undir lok kjörtímabilsins.

Viðreisn stóð vel málefnalega og við þurfum ekki að skammast okkar fyrir sáttmálann. Lengra varð ekki komist að sinni. Í viðræðum kom fram að það var borin von að ná þó svona langt í samningum við VG. Kjósendur geta treyst því að boðskapur Viðreisnar er og verður sá sami fyrir og eftir kosningar.

En mér finnst brýning Guðbjörns þörf og allt of sönn í íslenskum stjórnmálum almennt. Enn verra finnst mér þegar ungt fólk stillir sér upp sem varðmönnum kerfisins eða sinnulausum meðreiðarsveinum stöðnunar og óréttlætis.

Þess vegna fannst mér gaman að sjá þessa vísu á svæði sem Ragnheiður Ragnarsdóttir heldur úti með nýrri vísu daglega:

Gott er að vera ennþá ungur,
eiga í vændum langan dag.
Numið geta nýjar tungur,
nýja siði og háttalag.

Geta bætt úr mörgum meinum,
margri heimsku úr völdum steypt.
Fá úr vegi velt þeim steinum,
við sem aldrei gátum hreyft.

Indriði Þórkelsson, bóndi og skáld, Fjalli í Aðaldal í S. – Þing.( 1869 – 1943 )

Þessi orð eiga við ungt fólk á öllum aldri að hafa í huga. Aldrei hefur verið brýnna að „steypa margri heimsku úr völdum“.

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.