Fjandi leiðinlegur, þver og svæfandi

Laugardaginn 19. nóvember 1938 birtist í Vísi venju samkvæmt pistill um útvarpsdagskrá liðinnar viku, skrifaður af „br.“ Þessi pistill fékk óvænt eilíft líf. Höfundurinn, br., var þekktur maður í Reykjavík, Guðbrandur Jónsson. Hann þótti fljótfær og í þetta urðu honum á eftirminnileg mistök. Auglýst hafði verið að í útvarpinu yrði haldið erindi og Guðbrandur fór hörðum orðum um það eins og sjá má hér á eftir.

Mamma sagði mér á sínum tíma frá þessu dómi Guðbrands um erindið, því hann var altalaður í bænum og öllum minnisstæður því svo illa vildi til að erindinu hafði alls ekki verið útvarpað, heldur var flutt minningarathöfn um drukknaða sjómenn á þeim tíma sem það hafði verið auglýst. Þetta varð að sjálfsögðu Reykvíkingum aðhlátursefni og auðvitað ómögulegt fyrir Guðbrand að snúa sig út úr þessum vanda.

Lesum fyrst upphaf pistils Guðbrands:

„Útvarpið vikuna 8.—14. nóvember var óhemjulega ómerkilegt. Það má í sjálfu sér segja, að ekki hafi verið bitastætt i henni, því þau tvö atriði, sem skáru sig úr, gátu engan vegin hafið alla meðalmensku hins upp svo, að heildarniðurstaðan yrði sæmileg. Á þriðjudaginn flutti dr. Björn Þórólfsson erindi um upphaf einokunarverslunar á Íslandi. Erindið var að vísu efnisríkt, en of þurt, þó efnið gæfi ekkert tilefni til þess, og flutningurinn var of þver og svæfandi. Þetta er því einkennilegra, sem doktorinn er í sjálfu sér kíminn, og finnur eftir atvikum tiltölulega vel, hvað feitt er á stykkinu. Sama dag, utan dagskrár sem kallað er flutti Theódór Arinbjörnsson, í forföllum Páls Zóphóníassonar, ljómandi skemtilegt erindi um fóðurgildi fjörugróðurs og þangmjöl, sem nú er búið til hér. Var erindið svo almenns eðlis, að allir gátu hlustað á það sér til ánægju og fróðleiks, og svo skipulegt og vel flutt, að það hefði farið miklu betur á því sem aðalefni dagskrárinnar mælt af munni fram, en erindi dr. Björns.“

Illu heilli reyndi Guðbrandur samt að klóra í bakkann. Í stað þess að þegja, eða viðurkenna mistök sín, skrifaði Guðbrandur aðra grein í Vísi. Þar kvaðst hann ætíð hraðrita hugsanir sínar þegar hann hlustaði á útvarp og birti í blaðinu langa runu af stöfum sem hann kvað vera hraðritunartákn sín. Hann hefði hins vegar misskilið táknin þegar hann ætlaði að lesa úr þeim.

Þessi „leiðrétting“ er líklega einstæð í íslenskri blaðamennsku. Rennum yfir hana:

Leiðrétting

Í ummælum „br“ um útvarpið vikuna 8.—14. þ. m. í Vísi hefir mér orðið á ákaflega hvimleið skissa, sem eg þegar er eg las klausuna í blaðinu í þessum svifum sá að var endileysa ein. Eg á hér við ummæli mín um erindi dr. Björns Þórólfssonar. Dr. Björn flutti ekkert erindi, heldur féll erindið niður, og var mér fullkunnugt um það.

Ástæðan til þessara mistaka, sem eg hér með bið dr. Björn afsökunar á, er sem hér segir: Athugasemdir mínar rita eg jafnóðum niður á blað mjög lauslega og með blýanti og hefi sama blað undir eina viku í senn. Fyrir vikuna 8.—14. lítur blaðið svona út, stafrétt og orðrétt:

„Th Ar(?) skipulov. fl. efn alm

B. Þ. f. leiðinl þver svæf

hjá Sv. S og öll kvöldvakan ekkert

Á Solb. í meðall.

Bindþ. ekki aðalefni

E Magg fyrirt.

Ekki púður , Pirandello

Við ekki með börn á brjósti“

B. Þ. f * átti vitanlega að lesa „B. Þ. féll (niður)“ í staðinn mun eg hafa tekið „f.“ saman við línuna fyrir neðan og lesið úr því „fjandi leiðinlegur, þver og svæfandi“, en að réttu lagi eiga þau orð við línuna fyrir neðan, og skal það ekki útskýrt frekar. Það er því greinilegt, að eg, þegar eg var að semja klausuna upp úr þessum lausu drögum, hefi verið annars hugar, og ekki gætt þess, sem eg vissi sjálfur, og hefur þetta því æxlast svona. Það vildi og til ólukku, að eg las vegna annríkis ekki próförk af klausunni, eins og eg var vanur, því þá hefði þetta lagast. Bréfsnuddan, sem eg ritaði þetta á, er nú í vörslum Vísis.

Skeytingar- og athugaleysi slíkt sem þetta, jafnvel þó afbatanir kunni að vera til, er óþolandi. Þar sem ekki er hægt að ætlast til þess, að lesendur taki mark á ummælum „br“ um útvarpið, þegar þeir hafa rekist á að svona vinnubrögð geti átt sér stað, fæ eg ekki betur séð, en að „br“ verði að hætta að gera dagskrá Útvarpsins að umtalsefni opinberlega, og að honum sé það mátulegt, úr þvi að hann gat ekki verið vakandi við verk sitt.

Dr. Björn bið eg enn afsökunar.

Reykjavik, 19. nóv. 1938.

Guðbr. Jónsson.“

Guðbrandur var látinn fara sem pistlahöfundur frá Vísi fyrir þessi mistök og ritstjórinn baðst afsökunar:

„Þótt Vísir eigi enga sök á þeim mistökum, sem orðið hafa hjá gagnrýnanda blaðsins, og hann láti af störfum i þágu þess, eins og hann getur um í grein sinni, vill blaðið fyrir sitt leyti biðja dr Björn Þórólfsson afsökunar á mistökum gagnrýnandans.“

Jón Helgason kvað um þennan atburði í bók sinni Úr landssuðri, sem kom út árið 1939:

Að temja sér hraðritun fýsir nú margan mann

og misjafnt á hvert kerfi menn leggja stund.

Þótt góð séu táknin, sem Gabelsberger fann

er guðbrenska kerfið samt hentugt á marga lund.

Því allt eins er skrifað þar „erindið var ekki flutt“

og „öll þessi ræða var svæfandi déskotans mærð“;

Kvæðið endaði svona:

En innræti mannsins sem úr hinu skrifaða les

er auðvitað dálítill þáttur í svona kerfi.

Gabelsberger þessi fann upp hraðritunarkerfi.

Þetta kvæði var fellt niður úr endurútgáfu bókarinnar, en ekki veit ég hvers vegna.

Svo enginn haldi að Guðbrandi hafi verið alls varnað er rétt að rifja upp það sem Finnur Sigmundsson landsbókavörður sagði um hann í minningargrein:

„Guðbrandur var léttur á fæti og sópaði að honum, hvar sem hann fór. Hann var skemmtinn maður og hress í máli, hvort sem móti blés eða með, hafði jafnan gamanyrði á hraðbergi og miðlaði óspart af margháttaðri þekkingu á mönnum og málefnum að fornu og nýju. Leituðu margir til hans um hin ólíkustu úrlausnarefni og komu sjaldan að tómum kofunum. Hann var hjálpfús að eðlisfari og naut þess að miðla fróðleik, þegar hans var leitað. Vini sína rækti hann af alúð og var minnugur á allt, sem honum þótti sér vel gert. Hins vegar gat hann verið harður í horn að taka, þunghöggur og langminnugur, þegar honum þótti gert á hluta sinn.“

En þó að Guðbrandur væri langminnugur, var hann samt „annars hugar“ undir svæfandi erindi sem aldrei var flutt.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.