Sjaldnast er einfalt að túlka úrslit í sveitarstjórnarkosningum því að þau eru oftast ekki á eina lund. Flokkar hækka hér og lækka þar, staðbundin mál hafa áhrif, mikill sigur síðast veldur því að ágætis afkoma núna lítur út sem tap og öfugt. Að öllum fyrirvörum höfðum ætla ég að renna yfir úrslit kosninganna eins og ég hef oft gert daginn eftir kjördag.
Ríkisstjórnarflokkar í vanda
Athygli vekur fylgistap VG víða um land. Á höfuðborgarsvæðinu geldur flokkurinn afhroð og þau úrslit verða ekki túlkuð öðruvísi en vanþóknun á ríkisstjórn sem flokkurinn leiðir. Í Alþingiskosningunum byggði flokkurinn eingöngu á vinsældum Katrínar Jakobsdóttur. Það kemur þeim í koll núna, því að innviðir flokksins hafa greinilega verið vanræktir. Í Reykjavík hefði flokkurinn misst sinn eina fulltrúa ef borgarfulltrúar hefðu áfram verið 15, þrátt fyrir að formaðurinn vinsæli hafi reynt að koma félögum sínum til hjálpar á elleftu stundu. Eðlileg túlkun er að flokksmenn hafi ekki hrifist af því útspili forystunnar að reisa við ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðismanna. Ríkisstjórnarflokkarnir þrír fá aðeins 38,5% fylgi samtals í höfuðborginni sem segir sína sögu.
Sjálfstæðismenn töpuðu víða nokkru fylgi, en geta þó að mörgu leyti sætt sig við niðurstöður í ljósi þess að flokkurinn varð stærstur í Reykjavík, þó svo að flokkurinn fái þar næstlökustu kosningu frá upphafi. Í Garðabæ vinnur flokkurinn sigur sem túlka verður sem traustyfirlýsingu við bæjarstjórann. Meirihlutinn á Seltjarnarnesi hékk aftur á móti á bláþræði og Skafta Harðarson skorti aðeins 25 atkvæði til þess að fella áratuga meirihluta síns gamla flokks. Flokkurinn tapaði manni í Mosfellsbæ, en heldur sínu í Kópavogi og Hafnarfirði þrátt fyrir smávægilegt tap. Á ýmsum minni stöðum heldur flokkurinn hreinum meirihluta, til dæmis í Hveragerði, Snæfellsbæ og Bolungarvík, en missir hann á Akranesi, Vesturbyggð, Árborg og Vestmannaeyjum, sem reyndar eru kafli út af fyrir sig.
Gamla Framsókn þurrkast út í Reykjavík og Miðflokkurinn fær minna fylgi en við var búist þar. Á höfuðborgarsvæðinu er það helst Hafnarfjörður sem getur glatt Framsóknarhjartað þar sem báðir armar ná manni. Miðflokknum mistókst að ná inn manni í Kópavogi og Garðabæ, þrátt fyrir að hafa náð þekktum frambjóðendum í efstu sæti. Úti um land eru úrslitin á ýmsa lund. Líklega svíður þó tapið á Skagfirska efnahagssvæðinu mest þar sem Framsókn tapar meirihluta og tveimur mönnum.
Meirihlutann dagaði uppi
Samfylkingin dalar og þyngst vegur útkoman í Reykjavík, sem auðvitað er þó góð miðað við fylgi flokksins á landsvísu, en meirihlutinn féll. Nú reynir á Dag hvort honum tekst að mynda meirihluta í Reykjavík, en flokkarnir eru margir og margir bæjarfulltrúar lítt reyndir. Ég tel mig býsna mikinn áhugamann um stjórnmál, en við yfirferð á kjörnum borgarfulltrúum sá ég að ég þekkti aðeins 11 af 23, þannig að ég gæti sagt á þeim sæmileg deili og auk þess 2-3 sem ég hef heyrt minnst á. Þetta segir einhverja sögu. Flokkurinn bætir óvíða við sig svo nokkru nemi sem er athyglisvert miðað við flokk í stjórnarandstöðu.
Um Pírata er fátt að segja. Fylgi þeirra var talsvert minna en í skoðanakönnunum, eða milli tæplega 5 og 8%. Í Reykjavík er ekki ólíklegt að flokkurinn hafi tapað fylgi á lokasprettinum til Sósíalistaflokksins, sem væntanlega reisir styttu (eða að minnsta kosti pappaspjald) af Einari Þorsteinssyni fréttamanni í höfuðstöðvum sínum. Kosningarnar staðfesta það sem marga hefur grunað að margir noti skoðanakannanir til þess að láta í ljós óánægju, en annað hvort kjósi hefðbundnari flokka eða sitji heima í kosningum.
Árangur Viðreisnar
Eðlilega fjalla ég ítarlegar um Viðreisn. Flokkurinn var einn með lista í Reykjavík, Mosfellsbæ og í Hafnarfirði. Markmiðið var að ná tveimur í höfuðborginni og einum í hinum sveitarfélögunum tveimur. Þetta náðist allt, en ég hafði litla tilfinningu fyrir stöðunni utan Reykjavíkur. Þar snerist baráttan á lokametrunum um að koma Pawel að og það tókst nokkuð örugglega. Fyrir okkur er gaman að vera næst stærsti flokkurinn í Mosó og sá þriðji stærsti í hinum sveitarfélögunum tveimur.
Í Kópavogi vorum við í samfloti með BF og náðum tveimur mönnum inn Theodóru og Einari Þorvarðarsyni. Það var líka markmið, en ég hafði ekki hugmynd um hvernig staðan væri þar. C-listinn var líka þriðji stærstur í Kópavogi. Karl Pétur var í forystu sameiginlegs lista okkar og Neslistans á Seltjarnarnesi og hlaut örugga kosningu með 15% atkvæða. Í Árborg komst okkar maður, Sigurjón Vídalín Guðmundsson, inn af sameiginlegum lista Viðreisnar og Pírata.
Sara Dögg Svanhildardóttir, stjórnarmaður í Viðreisn, leiddi Garðabæjarlistann sem fékk 28% fylgi og þrjá fulltrúa sem er auðvitað glæsilegur árangur.
Á Akureyri studdum við L-listann sem var næst stærstur, en hársbreidd munaði að Hildur Betty Kristjánsdóttir, stjórnarmaður í Viðreisn, kæmist að. Aðrir listar sem við studdum voru Betri Fjallabyggð, sem fékk tvo menn og Ingibjörg Guðlaug Jónsdóttir frá okkur verður í bæjarstjórn. Í-listinn á Ísafirði er enn stærstur, en missti meirihluta. Í Stykkishólmi vantaði tvö atkvæði upp á að L-listi felldi meirihlutann. Í Reykjanesbæ hélt frjálst afl einum manni.
Við studdum ekki formlega Lista Grindvíkinga sem missti sinn eina fulltrúa; Kristínu Maríu Birgisdóttur, sem hefur unnið með Viðreisn í landsmálum, en aðeins munaði sjö atkvæðum að hún kæmist að. Jafnframt hugsuðum við hlýlega til Fjarðalistans sem bætti við sig manni í Fjarðabyggð.
Að öllu virtu getur Viðreisn verið mjög ánægð með niðurstöðuna. Ein eða í samstarfi við aðra náðum við mjög fínum árangri þar sem við buðum fram. Í prósentum talið er flokkurinn mjög nærri þeim markmiðum sem hægt var að hugsa sér fyrirfram, þó að stundum ylti það á örfáum atkvæðum hvort við værum inni eða úti.
Hvað næst?
Mér finnst að Viðreisn eigi að reyna að komast í meirihlutasamstarf þar sem það er raunhæft. Áherslur okkar hljóta að vera að flokkar sýni ábyrgð í rekstri samhliða því sem íbúar fá góða þjónustu á skilvirkan hátt. Markmiðið með þátttöku í stjórnmálum er að ná árangri og hann næst best með því að vera í meirihluta. Viðreisn gekk víðast til kosninganna án yfirlýsinga um ákveðið meirihlutasamstarf.
Við megum hvergi stuðla að skuldasöfnun, en þaðan af síður því að sveitarfélögin leggist í dvala eins og við sjáum því miður dæmi um. Í samstarfi hlýtur stefnan að vega þungt en ekki síður að í samstarfsflokkunum sé ábyrgt og gott fólk.